Bloggfærslur mánaðarins, desember 2015
28.12.2015 | 02:23
2400 - Ein röng ákvörðum og kannski tvær
Fésbókin er fágæti. Þar er það stundað að halda minningum að fólki. Þar las ég t.d. eftirfarandi frásögn sem ég sett á bloggið mitt sennilega í fyrra. (blogg nr. 2266) Þar er sagt í stuttu máli frá einhverjum dramatískasta atburði sem ég hef lifað. Held að það sé bara við hæfi að rifja hann upp. Mér dettur a.m.k. ekkert skárra í hug.
Þegar þetta var gegndi ég starfi útbússtjóra að Vegamótum á Snæfellsnesi og bíllinn minn var gamall Moskovits. Skelflutningar miklir voru stundaðir á þessum tíma frá Stykkishólmi til Borgarness. Bílstjórinn á skelflutningabílnum sem ég var rétt lentur framan á var kallaður Kiddi. (Veit engin deili á honum önnur, en rauðhærður minnir mig hann væri).
Við höfðum af einhverjum ástæðum skroppið til Stykkishólms og vorum á heimleið. Um mjóan malarveg var að sjálfsögðu að fara. Þegar nálgaðist Kerlingarskarðið var vegurinn hæðóttur mjög. Ég sá að skelflutningabíll var á leiðinni á móti okkur en gleymdi því samstundis aftur, því við hjónin vorum niðursokkin í að ræða eitthvert málefni sem ég man ekki lengur hvert var.
Því miður var ferðin á bílnum alltof mikil miðað við aðstæður (um eða yfir 80 km á klst.) og þegar ég kom á eina hæðarbrúnina var skelflutningabíllinn á miðjum veginum rétt fyrir framan mig. Ég reyndi að bremsa en það var þýðingarlaust með öllu, bíllinn bara rann til. Framhluti flutningabílsins nálgaðist óðfluga og í einhverju skelfingaræði beygði ég snögglega til hægri útaf veginum, og tókst á einhvern hátt að hanga á vegarbrúninni á hjólunum vinstra megin og meira að segja að koma bílnum, í heilu lagi, aftur uppá veginn aftan við flutningabílinn.
Eftir að ég hafði á undraverðan hátt sloppið við að lenda á miklum hraða í stórgrýtisurð var mér skapi næst að halda bara áfram eins og ekkert hefði í skorist. Varð þá litið í baksýnisspegilinn og sá að flutningabíllinn var nánast þversum á veginum og afturhluti pallsins skagaði langt útfyrir veginn sömu megin og ég hafði farið. Kiddi var á leiðinni útúr bílnum og sagðist hafa verið viss um að hafa sett afturenda flutningabílsins í bílinn minn þegar hann snöggbeygði til hægri í tilraun til að forðast árekstur. Meira er ekki um þetta að segja. Við vorum fjögur í Moskovitsinum (Hafdís var ekki fædd) og hefðum örugglega stórslasast eða dáið öll ef við hefðum lent á flutningabílnum. Þarna var ákvörðun tekin á sekúndubroti og reyndist rétt, þó hún hefði litið illa út.
Það er bara heilbrigt að álíta sjálfan sig mestan og bestan. Aðrir þurfa ekkert endilega að vita af því. Ef maður hefur ekki álit á sér sjálfur er engin von til þess að aðrir hafi það. Mér þykir gaman að tala í spakmælum. Auðvitað hafa margir aðrir notað þau á undan mér, en það er samt ágætt að ímynda sér að maður hafi orðið fyrstur til. Frásagnir eru allt annað en hugleiðingar. Í frásögnum þarf einkum að hafa í huga að vera stuttorður og gagnorður. Annars endist enginn til að lesa frásögnina. Uppdiktuð frásögn í bland við gáfulegar hugleiðingar er oft kölluð skáldskapur. Oftast er hún óttalega lítils virði og þjónar einkum höfundinum og kannski höfundarverkinu. En frásögnin hér á undan er sönn í mínum huga, þó upplifun annarra kunni að vera eitthvað frábrugðin.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.12.2015 | 00:22
2399 - Ljót lygi
Jæja, nú er ég búinn að setja upp einskonar jólablogg, þó fátt sé nú jólalegt við það. Og bráðum kemur annar í jólum. Hversvegna blogga ég? Ef ég gæti nú svarað því. Eftir því sem sumir segja er bloggið mitt alls ekkert vinsælt. Og mér finnst líka heldur klént að skrifa bara uppá vinsældirnar. Kannski stafar það af því að ég vil helst fara út um víðan völl þar og skrifa um allt mögulegt. Aldrei er neinn skortur á umfjöllunarefni. Og alltaf eru einhverjir sem lesa þennan samsetning.
Á fésbókinni eru lækin legíó, en bloggið virðist úrelt þing. Sama er mér. Sjálfur er ég að verða að mestu úreltur og flestir eru eitthvað að sýnast á fésbókinni. Kannski að sýnast betri en þeir eru í rauninni. Sýnist mér. Öðruvísi er því farið með blessað bloggið. Þar fá sumir (margir?) fyrirmæli um hvernig þeir eigi að haga sér. Nefna má: matarblogg, tískublogg, ferðablogg, flóttamannablogg (eru þau annars til?) o.s.frv. Sennilega er orðið erfitt að gefa út tímarit núorðið. Bloggunum trúa menn betur og þar má fá allskyns upplýsingar samstundis og fyrir ekki neitt. Og besservisserar nútímans verða að vera góðir gúglarar. Fyrir svo utan fésbókina en hún hefur alveg komið í staðinn fyrir Gróu á Leiti kaffiþambið. Hver skyldu annars verða framtíðaráhrif netsins, sem alltaf er að þróast og breytast, en Mogginn ekki.
Það er ljótt að ljúga að börnum. Um það sameinumst við þó öllsömul. Börnin, allt niður í tveggja eða þriggja ára, eru vel fær um að skilja á milli raunveruleika og ímyndunar. Þess vegna er ljótt að halda því fram að jólasveinninn komi með gjafirnar sem eru í skónum. Ef þau spyrja ætti að svara þeim sannleikanum samkvæmt. Og það má vel gefa þeim smágjafir þegar jólin nálgast. Þau eru hvort eð er að farast úr spenningi. Þau komast að þessu fyrr eða síðar. Flest börn fyrirgefa lygi sem þessa umhugsunarlaust. En ekki öll. Þó bara eitt barn trúi þessari vitleysu, er það einu barni of mikið. Af hverju sameinast allir um þessa lygi? Ekki veit ég það og ekki tíðkaðist að setja gjafir í skóinn í mínu ungdæmi. Samt tek ég þátt í þessari árlegu uppákomu. Kannski ætti ég að hætta því. En það er erfitt. Ekki er það vegna fordæmingar þeirra fullorðnu. En það er erfitt að horfa uppá vonbrigði þeirra barna sem hugsanlega trúa þessu í einlægni.
Af hverju skyldi vera reynt er að telja börnum trú um þetta? Eiginlega er mér það algjör ráðgáta. Börn eru ekki svo vitlaus að trúa því að syngjandi jólasveinar og álíka asnar sem henda í mannskapinn eplum séu jólasveinar í alvörunni. Af hverju er þá reynt að telja þeim trú um að jólasveinar brjótist inn hjá öllum börnum og setji allskyns drasl í skóna þeirra? Eiginlega stríðir það á móti öllum grundvallarreglum sem reynt er að innprenta börnunum. Að kennarar skuli taka þátt í þessu tekur eiginlega út yfir allan þjófabálk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.12.2015 | 08:57
2398 - Er að verða hægri sveifla í heiminum?
Pólitískt séð virðist mér að hægrið (jafnvel öfgahægrið) sé að vinna á í heiminum. Árangur Donalds Trump í Bandaríkjunum bendir til þess. (Að vísu trúi ég því og treysti að hann tapi fyrir Hilary, en líkurnar fyrir því að hann hljóti útnefningu repúblikana eru þónokkrar.) Einnig bendir til þess að hægrið sé að vinna á, að þau landamæri sem í uppsiglingu eru milli Danmerkur og Svíþjóðar eru ekki nein ímyndun. Einnig fjöldamargt annað. T.d. þjóðremban, múslimahatrið, flóttamannastraumurinn til Evrópu og vandræði Evrópusambandsins við að ráða við hann (flóttamannastrauminn). Að öllu samanlögðu virðist mér að vinstri sinnaðir pólitíkusar séu á margan hátt að missa flugið. Án efa eru þeir sem vinstrisinnaðir eru langskólagengnari en hinir og hugsanlega gáfaðri einnig. Samt getur vel verið að þeir sem hópur hafi rangt fyrir sér í meginatriðum um stjórnmálaþróunina. Auðvitað er til lítils að varpa svona hugleiðingum fram því allir eru mismunandi. Einnig í stjórnmálaskoðunum. Til lítils er t.d. að leita að flokki sem hefur sömu stefnu í flestum mikilvægum málum og maður sjálfur. Forgangsröðun verður að eiga sér stað. Og hún fer fram á hverjum degi, geri ég ráð fyrir, hjá öllum þeim sem hugleiða stjórnmál.
Nú er sjálf jólanóttin og ég er náttúrulega andvaka eins og vanalega. Carmaine fór af stað yfir Bröttubrekku núna áðan eða strax og veðrið gekk niður geri ég ráð fyrir. Bjarni og Jói fóru á móti henni og gekk það vel. Áðan var ég í jólaveislu hjá Hafdísi og þar fengum við humar í forrétt, nautalundir í aðalrétt og margskonar ís og ávexti í eftirrétt. Eftirminnilegur matur. Tinna fékk möndlugjöfina.
Held að það hafi átt að snjóa í dag. Ekki finnst mér samt neinn skaði þó það farist fyrir. Spáð var 23 stiga frosti í Reykjavík, en það var víst einhver misskilningur. Alls ekki er líklegt að frysti svo mikið þar, en kalt var í nótt. Eitthvað ætti að hlýna í dag, en svo kólnar aftur, eða þannig minnir mig að veðurspáin sé. Allavega er aðgerðalítið veður hér.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.12.2015 | 03:34
2397 - Rafveitusögur o.fl.
Einu sinni var rafmagnslaust í viku hjá okkur þegar ég bjó að Vegamótum á Snæfellsnesi. Engum þótti það sérlega mikið enda voru allt aðrir tímar þá. Ætli það hafi ekki verið svona í kringum 1970. Þá var nýbúið að setja olíubrennara í húsið uppfrá þar sem ég bjó (áður hafði olían bara lekið inn). Ég bölvaði því oft mikið því áður var þó a.m.k. hægt að halda húsinu heitu þó rafmagnið færi. Stundum gat að vísu verið svolítið vesen að kveikja upp aftur ef eldurinn slokknaði. Þá vildi olían festast í sótinu og búast mátti við talsverðum skruðningum þegar reynt var að kveikja aftur. Man t.d. eftir að einu sinni logaði uppúr strompinum eins og hann væri kerti. Í vikulanga rafmagnsleysinu var reynt með prímusum og þessháttar að halda sæmilegum hita í svona einu herbergi. Man að ég setti frostlög í klósettið því það var frost þar inni.
Annars veit ég vel að viðgerðir á háspennulínum í hávaðaroki eru ekkert auðveldar. T.d. fylgdist ég alllengi með tveimur mönnur og átti annar að klifra upp í staurinn en hinn að fylgjast með. Alltaf þegar hann leit upp greip vindurinn hann því jafnvægið var ekki eins gott þegar hann horfði uppá við. Að lokum fann hann rétta ráðið, en það var að leggjast á bakið á jörðina.
Sennilega er útlendingastofnun svo trausti rúin núna að trúlega verður talið nauðsynlegt að skipta um forstöðumann þar. Hugsanlega verður stofnunin lögð niður eða henni stórlega breytt. Nú er tækifærið, Sigmundur. Á margan hátt er Sigmundur misheppnaður forsætisráðherra. A.m.k. hefur hann ekki útlitið með sér. Kannski vill hann samt vel. Eins er með Bjarna Ben. Hann er alls ekki sá forystumaður sem sjálfstæðismenn gjarnan vildu hafa. Næstu þingkosningar verða forvitnilegar, á því er enginn vafi. Læt ég svo lokið þessum pólitísku hugleiðingum.
Í æsku var mér innprentuð heimspekin sem finna má í heilræðavísum Hallgríms Péturssonar. Þeir sem áhuga hafa geta eflaust fundið vísurnar á netinu. Bara að gúgla einhverja hendingu sem munað er eftir. T.d. Ungum er það allra best...
Þetta var maður í skóla þess tíma látinn læra utanbókar og ég þorði ekki annað en að hlýða því. Hinsvegar hefur mér alltaf leiðst passíusálmarnir þó ég hafi alla tíð haft talsvert álit á séra Hallgrími og ekki síður á Tyrkja-Guddu. Það er auðvitað ekki í stíl ungu kynslóðarinnar að ræða á þennan hátt um trúarboðskap og fólk sem uppi var árið sextánhundruð og súrkál. Reyndar er það af allt öðrum ástæðum sem ég er eiginlega alveg trúlaus. En förum ekki nánar útí það að sinni, eins og Guðmundur heiti ég Ólafsson hefði sagt.
Mest eru það svona fjórir veruleikar sem ég þekki að einhverju ráði. Auðvitað þekki ég þann íslenska best og held að hann sé bestur. Efast samt um að svo sé og á margan hátt sé sá skandinavíski betri. Sá Evrópski er e.t.v. á margan hátt ágætur og á flestan hátt betri en sá fjórði sem er sá Bandaríski. Mér finnst nær að velta hlutunum fyrir sér á þennan hátt, sem ég vil telja jákvæðan nokkuð, en að leitast í sífellu við að reyna að finna hverjum sem er af þessum heimum sem flest til foráttu. Miklu máli skiptir eflaust hvaða þjóðfélagshópi maður tilheyrir, en í aðalatriðum finnst mér þetta vera svona.
Svo eru fyrir utan þessa heima fjölmargir sem maður hefur litla reynslu af. Magrir þeirra gætu vel verið góðir og jafnvel betri en sá íslenski, en mér finnst heldur lítið til flestra þeirra koma og er þar eflaust um að kenna þeim fordómum sem fjölmiðlar íslenskir hafa innprentað mér í gegnum árin. Þó Ísland sé veðurfarslega tæplega byggilegt er ekki með öllu hægt að mótmæla því að umhverið er kannski sterkasti þátturinn í búsetuvali því sem hér hefur verið lýst. Það getur samt breyst, einkum ef kólnar verulega.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.12.2015 | 18:09
2396 - Kárahnjúkar
Það var Kárahnjúkastíflan sem öðru fremur opnaði augu mín fyrir þeirri spillingu sem grasserar og landlæg er í íslenskum stjórnmálum og þjóðlífi öllu. Þó vissi ég þetta svosem og forðaðist pólitík eftir megni. Þegar mér var sagt (þegar ég var um tvítugt) að Gunnar Álfur Jónsson (vinnufélagi minn) væri þekktur fyrir að hafa tekið að sér að merkja á íbúaskrá á Selfossi stjórnmálaskoðanir manna (líklega fyrir framsóknarflokkinn) fannst mér ekki mikið til um það. Sumir hneyksluðust að vísu á þessu, en ég hneykslaðist mest á því að hann var alltaf svo boginn í baki þegar hann var fullur að hann var nánast einsog vinkill í laginu. Hann var eldri en ég og vann á skrifstofunni hjá Gunnari Vigfússyni sem var giftur föðursystur minni. Hún var reyndar hálfsystir föður míns en förum ekki nánar útí það.
Ekki veit ég hversvegna það er, en ég á ákaflega bágt með að halda þræði. Minntist lauslega á Kárahnjúkastífluna hérna áðan en er eiginlega þegar búinn að fá leið á því að skrifa um hana. Mér fannst þó merkilegt að kynna mér þá framkvæmd, því með engu móti gat hún orðið arðbær. Að auki var greinilegt að hagsmunir Íslendinga voru alls ekki hafðir í heiðri þar eða við byggingu álversins í Reyðarfirði. Einkum studdu þessar framkvæmdir við völd Halldórs Ásgrímssonar og hugsanlegt var að í framtíðinni kæmi sér vel fyrir Austfirði að hafa virkjun og álver í fjórðungnum.
Það er ýmislegt fáránlegt með mig. Þó ég sé orðinn gamall og slitinn og geti alveg farið út að ganga þá hef ég ekki undanfarið gert mikið af því. Í gærmorgun fór ég þó en labbaði samt ansi hægt. Auk þess er ég að fitna aftur og svo er það ekkert spennandi að labba úti núna í mykri og frosti. Líklega er ég ekki eins vel fær um að slást við myrkrið og áður, en frostið gerir mér svosem ekkert til. Í ferðinni til Evu Sigríðar heimilislæknis um daginn, hvatti hún mig til að kaupa íþróttasokka til að fá ekki bjúg á fæturna. Þetta er ég búinn að prófa og prufa kannski aftur. Einnig prófaði ég áðan nýja lyfið sem hún lét mig hafa. Fucidin held ég að það heiti.
Jólin nálgast okkur nú eins og bandóð fluga (óðfluga) og sennilega endar þetta með því að ég verð að fara að huga að jólagjöfum. Annars hef ég sloppið vel frá þessu undanfarin ár því konan mín hefur meira og minna séð um þetta og jólakortin sömuleiðis.
Jörundur hundadagakóngur er í sífelldri endurfæðingu. Jónas reyndi að gera hann að fígúru, svo var hann frelsishetja og nú er hann ævintýramaður hinn mesti. Á endanum verður hans líklega minnst í biblíusögum og jafnvel væri óhætt að trúa á hann a.m.k. til jafns við Múhammeð. Ekki veit ég hvar þetta endar en greinilegt er að veruleikinn tekur öllum skáldsögum fram. Nú um stundir getur helst enginn skrifað skáldsögu nema hafa hana glæpasögu um leið. Annars eru skáldaðir glæpir að mínum dómi flestir annars flokks.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.12.2015 | 17:48
2395 - Snjór
Þó víðast hafi snjóað talsvert að undanförnu er svotil snjólaust núna hér á Akranesi og þó ég sé aldraður orðinn þá virðist ég ekki þurfa að berjast við árans hálkuna þó ég bregði mér út. Þegar jólasnjór og annar snjór er dásamaður finnst mér þurfa að hugsa til okkar gamlingjanna sem sjáum fátt annað í snjónum en væntanlegt krap og ísingu.
Þó þetta blessað blogg sé orðið ansi stopult hjá mér eru samt einhverjir sem halda tryggð við mig. Lesa semsagt bloggið mitt, eða kíkja a.m.k. á það. Á meðan svo er dettur mér ekki í hug að halda að ég sé vitlausari en gengur og gerist. Óttalega finnst mér sumt af því vitleysislegt sem ég kemst ekki hjá að sjá á fésbókinni. Aldrei þreytist ég á að hallmæla henni. Þó get ég ekki hjá því komist að viðurkenna suma kosti hennar. En hættum að ræða um þennan bloggóvin minn nr. 1.
Ég get ekki annað en litið niður á þá sem greinilega eru vitlausari í stafsetningu en ég. Þó veit ég vel að sá mælikvarði er langt frá því að vera einhlítur. Stórgáfaðir og snjallir einstaklingar geta sem hægast verið afleitir í stafsetningu.
Að koma sæmilega fyrir sig orði í rituðu máli er bara einn hæfleiki af ákaflega mörgum. Vilji maður halda áfram að telja upp svipaða hæfileika getur óskeikulleiki í stafsetningu hæglega komið næst. Að færa hugmyndir sínar í orð gæti sem best verið sá þriðji og þannig mætti lengi telja.
Fór um daginn í Sjóvár-umboðið hérna og skilaði árekstrarskýrslunni, en kom því ekki í verk að fara á verkstæðið og panta tíma fyrir réttinguna. Bakkað var á mig þar sem ég var að keyra nýja bílinn okkar við Hagkaup í Garðabæ.
Mikið er blaðrað á alþingi um þessar mundir og það er greinilegt að stjórn og stjórnarandstaða geta sameinast um fátt. Þó eru þessir aðilar greinilega sammála um að halda áfram að draga úr virðingu alþingis með kjánalegri hegðun. Ekki er ég þó viss um að sú virðing sem eitt sinn var borin fyrir alþingi fari beina leið til ríkisstjórnarinnar. Óvinsældir hennar aukast sífellt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2015 | 21:04
2394 - Óveður
Óveðrið s.l. mánudagskvöld opinberaði að minni hyggju allt þar versta í fjölmiðlaflóru landsins, en samt sem áður líka á margan hátt það besta í þjóðlífinu. Snúum okkur fyrst að því besta. Veðurstofan stóð sig ágætlega og björgunarsveitirnar alveg frábærlega. Almenningur einnig. Hér á Akranesi sást varla nokkur bíll á ferðinni þegar líða tók á kvöldið. Það hefði vel getað verið aðfangadagskvöld þessvegna. Fjölmiðlarnir stóðu sig bæði vel og illa. Vel að því leyti að þeir komu vel til skila því sem lögregla og björgunarsveitir vildu koma til skila. Hins vegar virtust þeir vilja gera sem mest úr öllu því sem aflaga fór.
Óstöðvandi flæði slæmra tíðinda er alfa og omega flestra fjölmiðla. Venjulega eru þær fréttir meira og minna afbakaðar og greinilega til þess ætlaðar að auka fjárstreymi til viðkomandi miðla. Ekki eru þjóðfélagslegu miðlarnir svosem fésbók og twitter betri því þar er næstum undantekningalaust reynt að gera meira úr hlutunum en efni standa til.
Því fer fjarri að ég lesi af athygli þá fjömiðla sem á fjörur mínar rekur. Auk netmiðla er þar einkum um að ræða Fréttablaðið sem ég fletti oft, því ekkert þarf að borga fyrir það. Það vakti athygli mína að þegar sagt var frá fjöldamorðunum í Kaliforníu þar, var það í ómerkilegum eindálk á innsíðu sem sagt var frá glæpnum sjálfum. Hinsvegar var það undireins orðið að fjögurra dálka stórfrétt þegar rannsakendur héldu því fram að líklega væri um hryðjuverk að ræða. Eins og allir vita sem einhverntíma hafa kynnt sér Amerískar fréttir þýðir það að um islamstrúarmenn sé að ræða. Að vísu var það á innsíðu líka sem sagt var frá því, vegna þess að forsíðan er frátekin fyrir eitthvað annað, sem ég man ekki lengur hvað var.
Í einhverju blaði var spurt: Getur Donald Trump gengið of langt? Að þessu var spurt í tilefni af því að hann hefur lagt til að öllum sem játa múhameðstrú verði bannað að koma til Bandaríkjanna. Ég held að hann geti það varla. (Þ.e. gengið of langt.) Minni fólk samt á að hann er aðeins að berjast fyrir útnefningu republikanaflokksins og flestir virðast reikna með að hann mundi tapa í forsetakosningunum sjálfum þó hann fengi útnefninguna.
Annars sýnist mér að næsta mál á dagskrá sé hjá flestum að koma sér í jólaskap. Og þá eiga allir að vera góðir við hvern annan, er það ekki? Varla er hægt að komast hjá jólaskapinu því jólaauglýsingarnar eru farnar að dynja óþyrmilega á landsmönnum. Mér finnst ég hafa orðð var við vissa örvæntingu hjá sumum verslunareingendum. Kannski eru auðæfi almennings ekki eins mikil og af er látið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)