Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

2257 - ISIS

Á fésbókinni er nú mikið talað um hvað RUV-ið sé frábært. Hlusta bara afar sjaldan á það. Útvarpið altsvo, sem virðist einkum álíta að eina listgreinin í heiminum sé rokktónlist. Horfi heldur ekki á sjónvarp (nema þá helst fréttir). Þar virðist álitið að ekkert sé merkilegt nema amerískar gauragangs-seríur og gamlar kvikmyndir. Les aðallega bækur þó slíkt sé að mestu komið úr móð, nema þá einhver krimmavitleysa. Enskan er orðin mitt lestrarmál aðallega vegna þess að verðlag á íslenskum rafbókum er svo fáránlegt. Bókasöfnin blíva, en ég nenni ekki að fara þangað daglega eins og þyrfti ef maður ætlaði sér að fá annað en hundgamlar bækur.

Hlustaði og horfði þrátt fyrir allt á nýja umræðuþáttinn og finnst hann misheppnaður að flestu leyti. Þröstur í fýlu, Styrmir reyndi að stjórna og konurnar töluðu og möluðu. Afleitur þáttur.

Kannski ég láti neikvæðninni lokið hér. Langskemmtlegast er samt að hafa allt á hornum sér og það er ekki erfitt. Samt er fólk ekki fífl. Bara fræga fólkið. Verst í heimi er að vera bara frægur fyrir það að vera frægur. Næstverst er að vera frægur fyrir að vera í einhverri hljómsveit. Aldrei gæti ég það. Enda laglaus með öllu.

Tuttugasta og fyrsta öldin verður áreiðanlega öld internetsins. Sú breyting sem það veldur og hefur valdið er gríðarleg. Tuttugasta öldin verður sennilega talin þegar frá líður öld heimsstyrjaldanna. Fyrir ungt fólk í dag er sennilega erfitt að setja sig inn í hugsunarhátt fólks á fyrri tíð. Þó er það reynt. Sagnfræðingar ná engum árangri ef þeir geta ekki gert sér í hugarlund hvernig lífið hefur verið áður fyrr.

Með internetinu og allri þeirri tæknibyltingu sem orðið hefur og breytingarnar á samskiptum fólks eru svo miklar að undrum sætir. Þó er fólk einmana innan um öll raftækin. Að vera einn með sjálfum sér er ekki síður mikilvægt. Og að þola sjálfan sig er ef til vill mikilvægast af öllu.

Og svo er víst ekki nóg með að ISIS hafi viljað nota sér .is endinguna á internetinu heldur er því haldið fram samkvæmt nýjustu fréttum að íslenskur kvikmyndatökumaður starfi hjá samtökunum. Þetta verður kannski heitasta fréttin í dag, ásamt óveðursfréttum úr Reykjavík.

WP 20141103 11 26 30 ProSteinar og vatn.


2256 - Riddarar hringborðsins

Eitthvað er ég að léttast. Ét svolítið minna. Stunda göngur og drekk ógeðsdrykki. Sömuleiðis kaffi ómælt og ósætt. Annars er lífið fyrir okkur ellilífeyrisþegana bara alveg sæmilegt. Allar ríkisstjórnir ráðast þó gjarnan á okkur. Kjör okkar hafa samt batnað hlutfallslega. Einkum ef farið er nógu langt aftur í tímann. Best er að fara alla leið aftur á söguöld. Sagan segir að þá hafi tíðkast (a.m.k. í hallærum) að reka gamalmenni fyrir björg.

Auðvitað er það vitleysa, en ólýginn sagði mér, að til stæði að fá Margréti Pálu til að innleiða Hjallastefnuna á elliheimilum landsins. Einhverjir gætu samt trúað þessu og þessvegna slæ ég því fram.

Læknaverkfallið er mál málanna núna. Launakröfur þeirra (sem fáir vita þó um) virðast njóta mikils stuðnings. Baráttuaðferðir þeirra eru samt alls ekki öllum að skapi. Sjálfur er ég svo íhaldssamur að ég álít að opinberir starfsmenn hefðu aldrei átt að fá verkfallsrétt. Mjólkurfræðingar, flugmenn og ýmsir aðrir mega misnota sinn verkfallsrétt að vild, en opinberir starfsmenn setja þjóðfélagið á vissan hátt á hliðina. Vitanlega eru ekki allir læknar opinberir starfsmenn. Samt er það svo að fjölgun slíkra starfsmann er næstum stjórnlaus og aðalástæða fátæktar okkar Íslendinga. Því fátækir erum við þó við viljum gjarnan sýnast miklir, jafnvel mestir.

Mér er sagt að ég sé nokkuð góður bloggari og nálgist hlutina stundum úr óvæntri átt. Ekki skal ég mómæla því. Platitudes og selvfölgeligheder eru þó mitt helsta vandamál. (Kann ekki að sletta frönsku eins og fínast þykir) Svo er ég stundum ansi seinn með fréttatengdar athugasemdir þó þær séu í sjálfu sér ekkert vitlausar. Meðan einhverjir lesa mig held ég áfram að blogga. Það á vel við mig. Nútíminn er trunta og ég skil hann ekki.

Horfði í gær á nýja umræðuþáttinn á RUV. Ekki imponeraði hann mig. Hræddur er ég um að hann verði ekki langlífur. Niðurstaða umræðnanna fannst mér vera sú að ríkisstjórn sem gengur aftur og aftur á bak orða sinna geti ekki vænst þess að vinna traust hjá „aðilum vinnumarkaðarins“, sem sem er ofnotaðasta glósan á Íslandi um þessar mundir. Ekkert bendir samt til að traustið á ríkisstjórninni sé að bila á alþingi. Þar liggur valdið og ef vantraust verður ekki samþykkt þar lafir stjórnin áfram. Óvinsældir ríkisstjórna eru að verða nokkurskonar náttúrulögmál.

WP 20141103 10 45 24 ProRúlluterta?


2255 - Um blogg

Einkennilegt er að hlusta á jafnaðarvælinn í alþingismönnum. Halda þeir virkilega að einhverjir taki mark á þessu bulli? Kannski eru þeir bara að reyna að hafa áhrif á þá fáu fréttamenn sem neyðast til þess, atvinnu sinnar vegna, að hlusta á þá. Áhrifin geta þó sem hægast orðið öfug við það sem til er ætlast. Þrátt fyrir vitleysuna, sem þeir láta flæða yfir ósetna stólana, er ekki hægt að neita því að þarna liggur valdið. Fólkið, almenningur eða réttara sagt kjósendur geta þó hvenær sem er tekið það af þeim.

Margir þingmenn gera sér áreiðanlega grein fyrir þessu. Sem stofnun er Alþingi á heljarþröm ef ekki verða gerðar stórfelldar breytingar á því. Þingmenn þreytast ekki á því að segja, sér til afsökunar, að hið raunverulega starf alþingis fari fram í nefndunum. Af hverju er ekki reynt að sníða stærstu gallana af þeim reglum sem farið er eftir í þinginu sjálfu? Nei, skotgrafahernaðurinn, liðsskiptingin og auglýsingastarfsemin skal í hávegum höfð ásamt herleiðingu ræðustólsins. Fylgist stundum með hálftíma hálfvitanna, en afar sjaldan öðru á alþingi, nema þá helst mikilvægum atkvæðagreiðslum.

Um daginn sagði einhver að ÉG væri uppáhaldsbloggarinn sinn. Það fannst mér dálítið langt gengið. Hefði samt alveg fyrirgefið konunni minni og krökkunum það. Móðga vonandi engan þó ég segi að Jens Guð sé uppáhaldsbloggarinn minn. Ómar Ragnarsson er líka mjög góður en fullmikill besserwisser fyrir minn smekk. Gísli hlaupari og þýðandi, Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóri, Lára Hanna og Harpa Hreinsdóttir eru líka feikilega góð og hafa kennt mér flest sem ég veit um blogg.

Aðalgallinn við þau er samt að þau eru ekki Moggabloggarar. Í þann úrvalsflokk sem Jens, Ómar, Gísli, Jónas og stelpurnar (já, ég er eldri en þær) eru óneitanlega í, dreymir mig að sjálfsögðu um að komast, en ég minnist bara orða Snorra Sturlusonar sáluga í Reykholti um að oflof sé háð og ég er hræddur um að sá sem hélt því fram að ég væri uppáhaldsbloggarinn sinn hafi verið að hæðast að mér.

Já, ég er svona viðkvæmur þó ég beri það ekki utan á mér svona dagsdaglega. Erfitt er nú um stundir að láta pólitísk málefni með öllu í friði og ég get ekki leynt því að vinstri sinnaður finnst mér ég vera. Í pólitískum málum finnst mér samt spádómar og kaldhæðni eiga best við. Metnað í þeim efnum hef ég engan. Þess vegna get ég skrifað um stjórnmál eins og mig lystir, en vil helst ekki móðga neinn. Kannski er ég fullmeinlaus í slíkum skrifum.

Einu sinni bloggaði ég daglega. Þessvegna er ég búinn að skrifa svona mörg blogg. Nú skrifa ég mun sjaldnar og kannski eru bloggin betri þá. Það get ég samt ómögulega vitað, því það virðist ekki vera hægt að leggja gæði að jöfnu við vinsældir. Sumir virðast samt halda það. Og ég hélt það áður fyrr.

Sé að ég hef ekkert minnst á Fésbókina hér og ætla að bæta úr því. Kvisin og klámtilraunirnar þar fara í taugarnar á mér. Ómissandi er hún þó. Því miður sé ég enga leið til að skilja hana almennilega.

WP 20141102 15 25 53 ProLaufblað.


2254 - Biggi lögga, náttúrupassinn og ýmislegt fleira

Þeir sem láta ljós sitt skína á öldum ljósvakans (þó ljósvakinn sé nú víst ekki til) virðast margir hverjir þurfa lítið að hafa áhyggjur af sjálfstæðri hugsun. Starf þeirra felst oft einkum í því að lesa á plötuumslög og tala við einhverja sem vilja auglýsa bækur eða atburði. Vissulega hentar það ekki öllum að mala viðstöðulaust fyrir framan hljóðnema en stundum finnst manni þáttastjórnendur sleppa ansi billega frá hlutverki sínu. Þarna á ég auðvitað einkum við útvarp, en sjónvarp er í vaxandi mæli að verða svipuðum örlögum að bráð. Vitanlega reyna ýmsir aðrir líka að fimbulfamba sem mest um einskisverð mál, einkum bloggarar. Fésbókin er svo sér kapítuli, sem ég ætla ekki að fjölyrða um að sinni.

„Mikill munur var samkvæmt könnuninni á menntun fólks á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni.“ Þannig var niðurlag fréttar einnar sem lesin var á RUV áðan. Þessi frétt er ekki nema hálfunnin ef þess er ekki getið í hvora áttina munurinn var. Sá sem fréttina semur gerir ráð fyrir að hlustendur séu allir haldnir sömu fordómum og hann. Auðvitað geta fordómar verið réttir. Samt væri í þessu tilfelli rétt að vinna fréttina örlítið betur. - Seinna var svo sama frétt lesin og þá kom fram að hún hafði upphaflega verið lengri og ítarlegri og þá voru tölur nefndar sem skýrðu betur þennan mun. Því niðurlagi var sleppt í því sem ég heyrði fyrst og sá sem ákvörðun tók um þá sleppingu hefði átt að gera sér grein fyrir þessu.

Ekki stóð til að hafa þessar klausur hvora á eftir annarri. Það æxlaðist bara þannig og sýnir vel hve nauðsynleg er að fagmennska og málskilningur sé í lagi hjá starfsmönnum ríkisútvarpsins. Ekki er víst að þeir sem mest þurfa á því að halda lesi að staðaldri aðfinnslur Eiðs Guðnasonar og heldur ekki þetta blogg. En samt er það oft gott sem gamlir kveða.

Það er þetta með náttúrupassann. Á sama hátt og það var (og er kannski enn) þjóðaríþrótt okkar Íslendinga að svíkja undan skatti er ég hræddur um að það verði þjóðaríþrótt okkar að svíkjast um að fá okkur náttúrupassa, til að geta farið á ýmsa staði á Íslandi. Náttúrupassinn er kannski ekki svo vitlaus hugmynd í sjálfu sér, en til þess að hann skili því sem ætlast er til held ég að eftirlitið verði að vera ansi mikið og dýrt. Kannski veitir ekkert af því að veita nógu mörgum (illa launaða) vinnu við eftirlitsiðnaðinn sem verður trúlega eini iðnaðurinn á vegum ríkisins. Svo verður það bara bókhaldsatriði hjá ríkinu að ákveða hvort þessi iðnaður borgar sig eða ekki.

Mikil umræða hefur spunnist um Bigga löggu. Hann viðraði ansi hægri sinnaðar skoðanir um daginn og vinstri menn svöruðu af bragði. Ritskoðun má aldrei í lög leiða stendur í stjórnarskránni núverandi og ég held ekki að sú nýja sem sumir vilja fá (þar á meðal ég) dragi ekkert úr því. Sjálfsritskoðun er verst og þöggun hverskonar sömuleiðis. Íslenskt þjóðfélag er ekki og hefur aldrei verið til fyrirmyndar að þessu leyti og embættismenn allskonar (jafnvel löggur) finnst mér að eigi ekki að viðra flokkspólitískar  skoðanir sínar opinberlega. Ef allir líta á sig sem opinbera starfsmenn, hvað þetta snertir, er hætta á ferðum og þjóðfélagið farið að líkjast Bandaríkjunum (eða Rússlandi og jafnvel Norður Kóreu).

Sé að það er svosem komið nóg til að setja þetta upp. Þar að auki er föstudagur sem hentar ágætlega fyrir blogg. Ýmislegt hefur reyndar gengið á í einkalífinu undanfarið, en ég er ekkert að tíunda það. Þá væri þetta orðin leiðindadagbók.

WP 20141001 09 21 12 ProBílastæðin við Borgarspítalann.


2253 - Foreldragúllas

Þrennt er það sem ég hef lært í bréfskákunum mínum. 

Eina leiðin til að vinna í skák er að skynja og skilja stöðuna betur en andstæðingurinn.
Í hvert skipti sem þú vinnur þá kennirðu andstæðingnum eitthvað mikilvægt.
Ég er samt orðinn svo gamall að ég get ekki lært neitt. (Þ.e.a.s. annað en þetta.)

Sumir sem tjáð hafa sig á fésbókinni og víðar um lekamálið fræga virðast halda að því sekari sem Tony Omos sé, þá sé Hanna Birna og ráðuneyti hennar því saklausara af lygum og ómerkilegheitum. Þarna er samt ekkert samband á milli og hefur aldrei verið.

Annars hefur svo mikið verið skrifað um þetta lekamál að það er að bera í bakkafullan lækinn að halda því áfram, svo best er að hætta.

Það merkilegasta sem sagt hefur verið við mig undanfarna daga er þetta. Og það er símaröddin sem hefur orðið: „Time – one hour and zero minutes. Distance – five point zero six kilometers. Þetta var í fyrsta skipti sem ég heyrði símann segja mér frá því að meðalhraði minn á göngu væri meira en 5 kílómetrar á klst. Reyndar hafði ég þegar þetta var einu sinni verið með meðalhraðann 11,36 min pr. km, en þá heyrði ég ekkert í símanum. Það er auðvelt hugarreikningsdæmi að 12 mínútur pr. kílómeter samsvarar 5 kílómetra hraða.

Skil ekki hvernig er hægt að skrifa langloku um jafn ómerkilegt mál og hæstaréttardóminn sem sýknaði þann sem kallaði Gillzenegger nauðgara. Á vissan hátt er þetta samt hið merkilegasta mál. Minnir að ég hafi bloggað eitthvað um það um daginn. Minnir líka að það hafi verið fréttamaður á Stöð 2 sem skrifaði óralanga grein um þetta á fésbókina eða eitthvað. Fjölmiðlamenn mega skammast sín fyrir að hafa ekki sýnt lekamálinu í innanríkisráðuneytinu meiri áhuga. Mér skilst að það hafi einkum verið tveir blaðamenn á DV (Bernstein og Woodward) sem héldu því vakandi. Þar vógu sannarlega salt hagsumunir blaðamanna og eigenda miðlanna.

Foreldragúllas, járnbrautarslys, unglingahakk og verkamannasteik er oft á borðum hér. Auðvitað eru þetta tilbúin orðskrípi yfir mat, en skemmtileg samt. Íslenskan er auðug og auðvelt að stunda allskyns leiki með henni. Sumir þeirra hafa verið gerðir ódauðlegir með lausavísum. Ekkert er undarlegt við það, að íslenskuþáttur nái vinsældum í sjónvarpi og jafnvel ekki þó aðstandendur þáttarins vilji næla sér í aukapening með bókaútgáfu. Annars held ég að ekki sé mikið upp úr bókum á íslensku að hafa. Rafbækur eru framtíðin og óvíst hvort íslenskan nær sér á strik þar.

Ein er sú sjálfsævisaga sem ber af öðrum sem á íslensku skrifaðar hafa verið. Sú heitir „Í verum“ og er eftir Theodor Friðriksson. Theodor þessi var erfiðismaður en lét þó ekkert tækifæri ónotað til skáldskapariðkunnar. Sjálfsævisaga hans er snilldarleg aldarfarslýsing á fyrri hluta tuttugustu aldar og hans langmerkasta verk. Ekki er mér kunnugt um að hún hafi verið nýlega gefin út. Full ástæða væri samt til þess. Upphaflega var hún gefin út í tveimur bindum. Theodor lést um miðja síðustu öld.

Nú skrifa ég nokkrar málsgreinar, en er ekkert að flýta mér við að senda það upp. Er alveg sama hvort lesendur verða fáir eða margir. T.d. eru nokkrir dagar síðan ég skrifað sumar málsgreinarnar sem nú fara upp.

Nú er mánudagsmorgunn. Fór í gönguferð áðan. Talsvert hefur gengið á í rokinu í gær. Á einum stað þar sem ég fór um hefur tré rifnað upp með rótum og lagst yfir gangstíginn. Fáein tré hafa brotnað og greinar brotnað af. Snjóföl yfir öllu og svolítið seinfarnara þessvegna.

IMG 1905Kringlan.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband