Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2014
13.1.2014 | 01:36
2104 - Eyjabakkar og Kárahnjúkar Íslands
Kannski er Ásgautsstaðamálið að komast á einhverja hreyfingu núna. A.m.k. er fyrirhugaður fundur með lögfræðingnum og ég ætla að reyna að spilla honum ekki. Samt er ég ekki hættur að skrifa um málið og mun halda því áfram um sinn. Fyrsta færslan var 10. desember og síðan hef ég minnst á málið í hverju einasta bloggi.
Nú er ég búinn að flytja svotil allar mínar myndir á Moggablogginu í albúm sem hægt er að skoða, ef vilji er fyrir hendi. Varast skyldi þó að skoða mikið albúmin sem heita ýmislegt 1-2-3-4 og 5 því í þeim eru gjarnan fjölmargar myndir sem góðan tíma þarf til að skoða. Annars á að vera auðvelt að sjá hve margar myndir eru í hverju albúmi. Ég fer semsagt ekki ofan af því að Moggabloggið er með allra bestu bloggsvæðum landsins.
Minn örlitli skilningur á þjóðhagfræði, sem ég öðlaðist í fornöld á Bifröst hjá Herði Haraldssyni spretthlaupara segir mér að helsta vandamál íslensks efnahagslífs sé veikburða króna sem vantreyst er til allra hluta enda hefur saga hennar ekki verið beysin undanfarna áratugi. Ríkisstjórnin reynir samt að auka trú manna á þessum vonlausa gjaldmiðli með því að hrósa honum við hvert tækifæri og lýsa því yfir að hann sé okkar farseðill inn í framtíðina. Það er hennar helsti veikleiki. Altsvo ríkisstjórnarinnar. Margt gerir hún ágætlega en mærð hennar um íslensku krónuna er ekki til fyrirmyndar. Á endanum mun hún (krónan) draga okkur sem óð fluga væri í áttina að næstu kreppu.
Þegar ég eða réttara sagt við hjónin stóðum frammi fyrir því örlagaþrungna verkefni að skapa nýja hefð fyrir jólamat fjölskyldunnar einhvertíma á sjöunda áratugi síðustu aldar urðu nautalundir fyrir valinu. Mest var það auðvitað vegna þess að við gátum varla hugsað okkur fínni mat. Af einhverjum ástæðum höfðum við komist yfir nafnið á rándýru rauðvíni og það keyptum við að sjálfsögðu um hver jól, en aldrei endranær. Með þessu voru svo steiktar kartöfluflísar (mikið af þeim). Það var mitt hlutverk að steikja þessar kartöflur og fór gjarnan mestallur eftirmiðdagurinn á aðfangadag í það stórbrotna verkefni. Nautalundin var síðan skorin og steikt eftir kúnstarinnar reglum og þessi matur var aldrei á borðum í annan tíma en á aðfangadagskvöld. Sumum fannst svo uppþvotturinn eftir matinn taka óhemjulangan tíma en um það ætla ég ekki að fjalla.
Þau hátíðlegu loforð sem Samherjamenn gáfu Ísfiringum varðandi Gugguna þegar hún var keypt á sínum tíma stóð aldrei til að standa við. Framámenn fiskvinnslunnar vissu það jafnvel og yfirmenn Samherja að útilokað var að láta atvinnutæki sem þetta bera sig án þess að sleikja svolíkið rassgatið á útlendingum. Og það gerðu þeir.
Fimmtungur þjóðarinnar er í rauninni helmingur hennar miðað við þyngd. Þetta er víst alveg vísindalega útreiknað miðað við þyngdarstuðul og hvaðeina eftir því sem skýrt er frá í fréttatímaritinu óviðjafnalega sem Harmageddon er nefnt. (harmageddon.is) Þetta tímarit virðist hinsvegar vera einskonar útibú frá visir.is og þessvegna er hugsanlega ekki alveg að marka það sem þar er fullyrt.
Aðalgallinn við vinstri menn hér Ísa köldu landi er að þeir mótmæla öllum andskotanum. Líður beinlínis illa ef ekki er í gangi einhver undirskriftasöfnun eða mótmælastaða fyrirhuguð. Ef hraunavinaandstaðan hefði verið sú eina sem um þær mundir hefði verið í gangi gæti vel hafa náðst einhver árangur. Þar var um óþarfan yfirgang að ræða. Á sínum tíma mótmæltu menn hástöfum svokallaðri Eyjabakkavirkjun og vissu svo ekki fyrri til en þeir fengu Kárahnjúkastífluna í andlitið. Nú er reynt að æsa til verkfalla þó enginn vilji fara í verkfall og ríkisstjórnin með hjálp góðvina sinna í ASÍ stefni hraðbyri á nýja þjóðarsátt. Nú gætu menn hæglega flæmt Hönnu Birnu úr ráðherrastól og veikt þar með ríkisstjórnina töluvert. En eins og flest annað mun það væntanlega klúðrast.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2014 | 09:34
2103 - Bílar og tölvur
Ásgautsstaðamálið á það svo sannarlega skilið að vera fremst í mínu bloggi. Aðrir skrifa ekki um það mál, né gera athugasemdir við það sem ég skrifa, hvernig sem á því stendur. Þöggunin er mögnuð. Árborg heldur enn áfram að nytja land jarðarinnar án þess að hafa til þess nokkurt leyfi. Ólögleg makaskipti hafa átt sér stað með stuðningi og skjalafalsi sýsluskrifstofunnar og einhver hús (ein 4 held ég) hafa verið byggð án þess að nokkurt löglegt leyfi hafi verið til þess. Einnig einhverjir sumarbústaðir. Ef ekki næst að semja við eigendur jarðarinnar getur þurft að rífa þessi hús. Það mundi líklega verða Árborg dýrt. Fékk símtal s.l. föstudag útaf Ásgautsstaðamálinu og svo er að sjá sem einhver hreyfing sé að komast á það. Embættismenn allflestir á Árborgarsvæðinu virðast þó hafa bundist samtökum um að tefja þetta mál sem mest og vona að það hverfi. Það mun samt ekki gerast.
Í sambandi við skrif Ómars Ragnarssonar sem ég les oft, dettur mér í hug að Kalli Magg átti Garant sendiferðabíl á sínum tíma. Man að við fórum einhverju sinni á honum til að tefla við Hraungerðinga í Þingborg og á heimleiðinni bilaði kúplingin á Garantinum þannig að hún virkaði alls ekkert. Kalli var nú ekki í miklum vandræðum fyrir það, heldur rak bílinn bara í þá gíra sem hann þurfti, án þess að nota kúplinguna. Það gekk ágætlega, en auðvitað fylgdi því nokkur hávaði. Já og ég man að bíllinn var grænn á litinn. Finnst reyndar að flestir Garant sendiferðabílar hafi verið það. Algengir voru þeir.
Þeir bílamenn eru sífellt að reyna að koma að nýjum orðum. Þeir eru ekkert betri en tölvumennirnir að því leyti. Helvítis hvarfakúturinn. Jú, þetta er kannski ágætisorð í sjálfu sér en þó er alls ekki víst að það nái fótfestu. Hugsanlegt er jafnvel að það sé jafnómögulegt í málinu og dúnkrafturinn var á sínum tíma. Allsengri útbreiðslu náði það þó einstaka maður notaði þann óskapnað. Flestir töluðu um tjakk. Tengsli er annað orð sem náði mjög lítilli útbreiðslu. Flestir tala um kúplingu. Ég er vanur að álíta tölvumál fylgja mjög svipaðri þróun og bílamál gerðu. Bílstjórar (Tölvumenn) þurftu áður fyrr að vita næstum allt um bíla (tölvur). Nú geta þetta allir en vita oft lítið um innri gerðina eða hvað það er í rauninni sem fær bílinn til að hreyfast eða tölvuna til að hugsa. Svipað er þetta með tungumálið, nema hvað í dag ganga allir hlutir miklu hraðar fyrir sig en áður.
Í gærmorgun vaknaði ég fremur snemma (fyrir sjö) en klæddi mig strax (sem er óvenjulegt) Þegar konan mín fór svo á fætur um áttaleytið bjó ég strax um og lagði mig svo ofan á rúmteppið eins og ég geri oft um miðjan daginn eða á kvöldin. Að þessu sinni steinsofnaði ég og þegar ég vaknaði og leit á klukkuna sá ég að hún var að verða 10. Þegar ég, að þessu sinni, reyndi að rifja upp hvað hefði verið í kvöldmatinn eða í fréttum í sjónvarpinu, kom ég alveg að tómum kofanum. Nú, er það svona sem alshæmerinn byrjar, hugsaði ég ekki hafði ég búist við því. Ég reyndi af alefli að hugsa um atburði dagsins. En það var alveg tilgangslaust. Ég mundi ekki eftir neinu. Ekkert kom fram og það var ekki fyrr en byrjaði að birta sem það rann upp ljós fyrir mér í tvennum skilningi. Því auðvitað var morgunn en ekki kvöld.
Pólitíska spurningin sem brennur á fólki þessa dagana er hvort ríkisstjórninni og stuðningsmönnum hennar muni virkilega takast að láta samningana halda. Það er algjört lykilatriði. Ég held að þeim takist það. Einfaldlega vegna þess að stjórnunarhugsun og hugsjón þeirra virðist vera öðruvísi en fyrri stjórnar. Jóhönnustjórnin vildi stjórna eins og henni og fylgismönnum hennar fannst að ætti að stjórna. Núverandi stjórn stjórnar bara stjórnunarinnar vegna. Markmiðin skipta litlu máli. Annað hvort nást þau eða nást ekki. Á þessu er verulegur munur þó hann sé ekki alltaf augljós.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2014 | 08:02
2102 - Eru langar fyrirsagnir það sem koma skal?
Ekki veit ég hvernig ég á að koma Ásgautsstöðum að í þetta sinn. Undanfarið hafa þetta verðið óttalegar málalengingar hjá mér. Ætli ég láti ekki nægja að segja frá því að ef fólk vill fræðast meira um þetta merkilega mál þá þurfi það annaðhvort að bíða eftir nánari greinargerð eða lesa gömul blogg frá mér. Ég byrjaði að skrifa um þetta þann 10. desember og bloggið frá þeim degi er allt um þetta mál.
Bloggið er talsverð eineltisstofnun og fésbókin mikil. Internetið er ofboðslega mikið notað til eineltis. Af hverju fólk lætur það hafa þannig áhrif á sig er engin leið að segja. Ástæðurnar eru svo mismunandi. Netið er einfaldlega orðið enn einn samskiptamátinn og fólk hagar sér þar með ákaflega mismunandi móti. Þannig upplifi ég hlutina. Það er þó ekkert víst að aðrir samþykki þetta. Sjálfur er ég fremur einrænn og ómannblendinn. Heilsa fólki sjaldan með faðmlagi. Jafnvel ekki fjölskyldumeðlimum. Er þó ekki áberandi anti-sósíalskur eða það held ég ekki.
Þegar ég var í skóla var bara einn bekkur í Miðskóla Hveragerðis í hverjum árgangi þannig að tossabekkjaskipulagi varð ekki viðkomið. Annars hefði það sjálfsagt verið viðhaft. Hefði sjálfur jafnvel sloppið við tossabekkinn. Litum samt alltaf svolítið niður á krakkana sem voru úr sveitinni og þurftu að ferðast með skólabílnum á hverjum degi. Það niðurálit var bara vegna þess að þau voru úr sveitinni og einhverra hluta vegna voru þau oftast með lakari einkunnir en við þorpararnir. Kannski litu kennararnir bara niður á þau líka. Við krakkarnir sem fengum sæmilega góðar einkunnir skiptumst dálítið í fallega og ljóta fólkið. Ég var fremur í ljótafólkshópnum og sennilega svolítið ófyrirleitinn. Samt átti ég það til að fá ágætar einkunnir og t.d. fékk ég 5,98 á landsprófi og hefði sennilega farið í Menntaskólann á Laugarvatni ef ég hefði fengið 6. Lítill akkur er í að spekúlera í hvernig lífið hefði þá orðið hjá mér, en eflaust öðruvísi.
Það er svolítið einkennilegt hvað einkunnir höfðu mikil áhrif á þessum árum. Ég fékk t.d. aldrei góðar einkunnir í neinu líkamlegu nema þá í sundi. Þar var ég ágætur. Keppti m.a. á sundmóti Skarphéðins a.m.k. einu sinni. Var allgóður í íslensku og tungumálum en kjaftafögin svonefndu áttu ekkert sérstaklega vel við mig. Man miklu betur eftir kennurunum en fögunum sjálfum. Hef sennilega lítið lært þar. Heimalærdóm forðaðist ég eins og mögulegt var. Samt var ætlast til að maður lærði heilmikið heima, sennilega vegna þess að kennararnir nenntu ekki að kenna sjálfir.
Sennilega eru þeir allir dauðir núna og þessvegna óhætt að minnast á þá. Afkomendur eiga þeir þó örugglega. Hjörtur á Núpum, séra Helgi Sveinsson og séra Gunnar Benediktsson eru mér minnisstæðastir. Veit ekki af hverju. Kannski voru þeir bara meiri sálfræðingar en hinir. Sennilega hef ég aldrei verið álitinn mikill bógur í skóla. Þótti samt fyndinn að ég held. Hafði sjaldan frumkvæði að uppátækjum. Man samt eftir að hafa einu sinni átt frumkvæði að því að fara í Þjóðleikhúsið. Það var fyrir utan hefðbundna árlega ferð sem kennararnir stóðu fyrir. Minnir að við höfum þá séð Don Camillo. Man sérstaklega eftir að hafa hrokkið býsna mikið við þegar skothvellur heyrðist skyndilega í miðju leikritinu. Minnir líka að ég hafi séð leikrit um hernað Bandaríkjamanna í Asíu.
Hershöfðingi: Mér skjátlast mjög sjaldan, en þegar mér skjátlast...
Aðstoðarmaður (grípur fram í): Ja, þá munar nú um það..
Af hverju er ég eiginlega alltaf að þessu eilífa bloggstandi? Hef ekki hugmynd um það. Kannski er það vegna þess að ég vandist snemma á að tala við sjálfan mig. Og til að gera það svolítið erfiðara ákvað ég að setja hugsanirnar oftast nær í orð. Framan af var það svolítið erfitt en svo vandist það eins og annað. Ef ég drógst það mikið aftur úr við orðasmíðina að ég var búinn að gleyma því sem ég upphaflega hafði hugsað. Ja, þá var það bara betra og meiri líkindi til að eitthvað væri að marka það sem þó íklæddist orðum. Já, ég hugsaði einhvernvegin svona.
Ég fer aldrei ótilneyddur í bílastæðahús svo þess vegna má margfalda gjaldtökuna þar. Einhver þarf að borga fyrir bygginguna. Er að mestu hættur að fara niður í bæ til að versla. Mun betra er að fara í stórverslanirnar og fá ókeypis bílastæði. (Auðvitað best á morgnana.) Bilastæðin þar þarf einhver að borga. Verslanirnar gera það og fá í staðinn marga gesti.
Kjarninn er nánast eina nýja vefritið sem einhver veigur er í. Kíki stundum á Blogg-gáttina eða Eyjuna (og jafnvel mbl.is) svona til að fylgjast með helstu fréttum. Kjarninn er það vikurit sem ég læt næstum aldrei framhjá mér fara. Það kemur alltaf nýtt blað á fimmtudögum.
Rósa amma.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2014 | 23:07
2101 - Vorið kemur (fyrir rest)
Mér finnst ég skrifa alltof mikið um pólitík. Hvers vegna skyldi það vera? Sennilega held ég að fólk vilji helst lesa eitthvað þessháttar. Áhorfstölur benda til þess. En fær fólk aldrei leið á þessu söngli? Þetta er alltaf eins. Flokkurinn sem maður styður gerir aldrei neinar vitleysur en andstæðingarnir eru samansafn fávita. Svona er þetta og hefur lengi verið. Mér hundleiðist að skrifa um stjórnmál þó þar megi oft taka góða spretti. Aðallega þó til að stríða þeim öfgafyllstu, en þegar hver og einn skoðar vandlega sitt hugskot þá eru þeir víst ákaflega fáir.
Ásgautsstaðamálið er farið að síga neðar og neðar í bloggið hjá mér. Ég er samt ekkert hættur að skrifa um það. Það gerist bara svo fátt merkilegt þar. Þetta er langtímaprójekt og það er lítil hætta á að ég gleymi því. Árborg notar enn í dag illa fengið land. Kannski finnst bæjarstjórninni það ekki vera stolið, en það er nú samt svo. Jörðin Ásgautsstaðir er alls ekki í eigu bæjarfélagsins og það sem reynt er að kalla makaskiptasamning er byggt á skjalafalsi sem komið er frá skrifstofu sýslumannsins. Þetta vita allir sem vilja vita og búast má við að þetta mál taki að komast úr sporunum hjá dómstólum landsins í þessum mánuði eða þeim næsta. Hugsanlega verður það að einhverju leyti mér að þakka. Ég er a.m.k. að hugsa um að halda áfram að minnast á það. Ég er ekkert ósáttur við að verða kenndur við Ásgautsstaðamálið. Æ, hann þarna bloggarinn sem var með Ásgautsstaðamálið á heilanum. Harpa Hreinsdóttir var nú kölluð bloggari úti í bæ af bæjarstjóranum á Akranesi af því hún vogaði sér að gagnrýna Sögu Akraness og fjárausturinn í það fáránlega verkefni.
Nú er fátt annað við tímann að gera en láta sig hlakka til vorsins. Stundum velti ég því fyrir mér, af því að daginn lengir í hænufetum eftir áramótin (segir Ómar a.m.k) hvenær dagurinn styttist í hænufetum. Samkvæmt kenningunni um, að ókeypis hádegisverður sé ekki til, hlýtur það að vera einhverntíma. Helst hef ég komist að þeirri niðurstöðu að það sé í júní, júlí og ágúst. Haustmyrkrið skellur eiginlega á manni án þess að maður eigi á því von. Og alveg einsog það er afar lítið farið að hlýna þegar daginn fer greinilega að lengja á vorin þá er yfirleitt ekkert farið að kólna þegar ágústmyrkrið hellist yfir mann. Þessvegna er það sem ég legg þetta nokkurn vegin að jöfnu.
Einu sinni hef ég komið í aðstandendaherbergi á Borgarspítalanum (já, það var merkt þannig) og ég vona að ég eigi aldrei eftir að gera það aftur. Ég fór næstum að hlæja þegar mér var vísað þangað, því ég var alveg sannfærður um að það sem ég beið eftir, var ekki það alvarlegt að það tæki því að vísa mér á þessi herbergi. Ég reyndist hafa rétt fyrir mér, en óneitanlega varð mér hugsað til þess að kannski hefði ég það ekki.
Sagan um hundinn á Neskaupstað. Meirihluti fréttatímans í einhverjum útvarpsfréttum sem ég slysaðist til að hlusta á í dag var um einhvern hund á Neskaupstað sem búinn var að bíta fjölda fólks og var beðið eftir því að hann biti fleiri. Man ekki af hverju hann var ekki aflífaður strax, en líklega þurfa réttarhöld að fara fram í málinu og ekki er víst að lögreglan hafi fangaklefa á lausu. Kannski eru austfirðingar bara hundavinir.
Núverandi ríkisstjórn spáir miklu meira í skoðanakannanir en sú fyrri. Ekki kæmi mér neitt á óvart þó séra Sigmundur mundi beita sér fyrir því að sparkað yrði í rassgatið á þeim sem voga sér að hækka verð núna og að ríkið hætti við einhverjar gjaldskrárhækkanir. Ýmislegt má gera til að reyna að láta kjarasamningana halda. Svo er eftir að semja við kennarana, en það er verkefni morgundagsins.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.1.2014 | 10:18
2100 - Er verðbólgugrýlan í þágu ríka fólksins?
Ég ætla að skrifa bók. Hún á að vera 2100 kaflar. Blogg er bók og bók er blogg. Með þessu bloggi eru þau orðin 2100. Geri aðrir betur. Þessi bók er hér með gefin út. Þeir sem vilja geta semsagt prentað ósköpin út og sagt að þetta sé bók. Kaflarnir er jafnmargir bloggunum og reyndar alveg samferða þeim. Eitthvað minnir mig að ég hafi verið spar á fyrirsagnirnar í upphafi en það var áreiðanlega ekki lengi. Kaflarnir eru flestir frekar stuttir og það eiga bókarkaflar helst ekki að vera. Í staðinn kemur að þeir eru fjandi margir. Eiginlega fleiri en nokkur þörf er á í venjulegri bók. Þannig slepp ég frá því. Til að sleppa við að þessi grein verði óhæfilega löng er ég að hugsa um að hætta hér. Þetta hefði samt getað orðið ágætis formáli.
Var að enda við að lesa grein eftir Egil Helgason http://eyjan.pressan.is/silfuregils/ um efnið sem minnst er á í fyrirsögninni og satt er það að margt bendir til þess að svo sé. Það er oft ágætt að snúa viðteknum sannindum á haus og sjá hver útkoman verður. Það er gert þarna. Alltaf er verið að tönnlast á því að það sé um að gera fyrir launþega að forðast verðbólguna eins og heitan eldinn. En verðbólgan er nefnilega vinur litla mannsins. Þegar Arnbjörnssynir allskonar gera sér grein fyrir þessari staðreynd þá er ekki við því að búast að ASÍ semji um hvað sem er, bara ef það er nógu hagstætt fyrir stórfyrirtækin.
Annars ætlaði ég að minnast lauslega á Ásgautsstaðamálið hér í upphafi þessa bloggs. Stokkseyringar flestir kannast eflaust við það hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki. Sennilega hafa þeir platað Árborgarana (les Selfyssingana) ferlega þegar þeir samþykktu að sameinast þeim. Votmúlamálin og Ásgautsstaðamálin eru nefnilega í hverju horni og koma til með að halda útsvarinu hjá Árborgurunum í hæstu hæðum mjög lengi. Sýslumaðurinn ætti að fara að taka á sig rögg og sinna þessu máli. Hann er nefnilega ekki innfæddur Árborgari.
Það er margt sem bendir til þess að fyrstu verk Jóhönnustjórnarinnar hafi verið kolvitlaus. Réttast hefði sennilega verið að leggja 70 til 80 % skatt á allar eignir eða a.m.k. peningalegar eignir í upphafi og nota svo þessi fjögur ár sem stjórnin hafði til að leiðrétta þá gerð svona smám saman. Litli Landsímamaðurinn hefði varla verið ósáttur við það og atkvæðin hefðu kannski skilað sér í kjörkassana í vor.
Já, ég er bara sáttur við að tilheyra þessum hræðilegu bloggurum sem eru að gera alla vitlausa eftir því sem Ólafar, Simmar, Bubbar og biskupar þessa lands segja í áramótauppgjörum sínum. Ég er líka alltaf að verða orðljótari og orðljótari eftir því sem ég horfi lengur á óréttlæti, yfirgang, og þöggun yfirstéttarinnar. Og svo er reynt að troða því ofan í kokið á okkur að stéttaskipting sé ekki til á Íslandi. Sárgrætilegast er að fjórða valdið svokallaða eða fjölmiðlarnir eru flestallir gengnir í björg og farnir að styðja misréttið. Eftir er Internetið eitt, sem sumir halda að sé það sama og fésbókarforritið óviðjafnanlega sem stækkar og stækkar og þenst alveg gríðarlega út og springur kannski einhvern daginn. Internetið og Píratarnir eru það eina sem hugsanlega getur bjargað okkur.
Þorbjörn Þórðarson er víst fréttamaður einhversstaðar en verður það varla lengi úr þessu. Þeir mega nefnilega helst ekki hugsa sjálfstætt. Yfirstéttin losar sig þá jafnan við þá. Þetta hefði Þorbjörn átt að hugsa um áður en hann skrifaði gagnrýnisgrein um sjálfan Brynjar Nielsson.
Reyndar var Brynjar fullfljótur á sér að gagnrýna dóminn yfir Al-Thani fiskunum. Auðvitað vissu allir að Brynjar og jafnvel gjörvallur Sjálfstæðisflokkurinn væri á móti því að máttarstólpar íslensks atvinnulífs yrðu settir í fangelsi. En Brynjari láðist víst að færa rök að þeirri niðurstöðu sinni að dómurinn væri rangur. Þetta mega alþingismenn ekki gera, segir Þorbjörn. Það er nefnilega hugsanlegt að einhverjir taki mark á þeim og haldi að þeir viti hvað þeir segja.
Annað mál er með ótínda bloggara. Þeir mega segja það sem þeim sýnist. Samt tekur enginn mark á þeim. Allra síst biskupinn og Bubbi Morthens.
Blaðamenn eru undarlegar skepnur. Minnst var á það fyrir nokkru að Kografafjörðurinn væri að fyllast af síld. Bátar máttu veiða þar og sumir gerðu það svikalaust. Svo var minnst eitthvað á djúpsprengjur og þá hrukku allir blaðamenn í baklás og fóru að tala um eitthvað annað. Héldu víst að ekki mætti skrifa um svoleiðis hernaðartæki. Þetta er víst kallað sjálfsritskoðunum og er vinsælt hjá yfirvöldum. Þeir þurfa bara að koma því inn hjá fáeinum blaðasnápum að sum mál séu tabú og þá eru þeir lausir allra mála. Ég vil samt gjarnan vita hvað varð af síldinni. Er búið að veiða hana alla? Fældist hún við djúpsprengjurnar eða er hún kannski enn í firðinum og tekur ekkert mark á fælingarmætti sprengunnar góðu? Bara að spögúlegra.
Auðvitað voru jólasveinarnir samkvæmt þjóðtrúnni synir Grýlu og Leppalúða. Nöfnin á þeim strákum og fjöldi þeirra hefur verið svolítið á reiki. Nú orðið er samt algengast að Jólasveinavísur Jóhannesar úr Kötlum séu látnar ráða þessu. Ég minnist samt að hafa heyrt eitthvert kvæði þar sem börn Grýlu hafa allt önnur nöfn.
Leppur, Skreppur, Lápur, Skrápur
og Leiðindaskjóða.
Völustallur og Bóla.
Komið hingað öll til mín
þegar ég fer að sjóða,
til jóla.
Bloggar | Breytt 8.1.2014 kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2014 | 00:52
2099 - Bíum, bíum, bamba
Jú, jú. Kannski verður þetta staut mitt varðandi Ásgautsstaðamálið til þess að það vakni af doða þeim sem hvílt hefur yfir því lengi undanfarið. Ég ætla a.m.k. að hugga mig við það. Mér vitanlega hafði enginn fyrr minnst á það opinberlega þegar ég byrjaði að skrifa um það snemma í desember. Erfingjarnir eru orðnir svo margir að erfitt er að samræma aðgerðir. Sennilega væri best að einhver einn aðili, eða a.m.k. fáir sæu um þetta að öllu leyti. Það er alltof þunglamalegt að fá samþykki allra erfingja fyrir hverri smávendingu í málinu. Sennilega liði sýslumanninum í Árnessýslu og bæjarstjórn Árborgar best ef þetta mál hyrfi bara með öllu.
Fékk í jólagjöf bókina sem inniheldur ævisögu Guðmundar Kamban. Hugsanlega eru Kamban og Kristmann Guðmundsson misskildustu rithöfundar tuttugustu aldarinnar. Sjálfum finnst mér líka sem Jón Trausti (Guðmundur Magnússon, prentari) hafi legið mjög óbættur hjá garði. Þar að auki dó hann ungur. Ef hann hefði lifað aðeins lengur þá hafði hann alla burði til að verða a.m.k. jafnfrægur og HKL. Jafnvel Guðmundur Hagalín fannst mér nokkuð góður. Skyldi pólitík hafa haft hér áhrif?
Framsókn er heilsuspillandi. Sigmundur Davíð, Halldór Ásgrímsson, Bjarni Harðarson og furðu margir fleiri sem þar hafa innanborðs verið eru að vísu frægir fyrir að bera kápuna á báðum öxlum. Þ.e.a.s. maður veit aldrei með vissu hvar maður hefur þá. Guðni og Valgerður voru að mörgu leyti skárri. Þau stóðu þó fyrir eitthvað. Þó það væri mestan part bölvuð vitleysa, svipuð fábjánaskapnum hjá utanríkisráðherranum núna. En það var þó hægt að reikna þau út. Heilsuspillandi er flokkurinn samt einmitt vegna þess að aldrei er hægt að treysta neinu sem fylgjendur hans segja. Sigmundur dró veimiltítulega, litla og rytjulega kanínu uppúr hattinum um daginn og sumum sýndist hún vera feit og pattaraleg. Segi ekki meira.
Hvað er svona merkilegt við myndir sem aðrir hafa tekið? Svo á maður að vera að hrósa þessum fjára. Ég tek alveg jafnmerkilegar myndir sjálfur og aðrir gera. Aldrei hrósar neinn (eða N1) mér fyrir það. Undarlegt þetta skjallbandalag á fésbókinni. Skyldi vera hægt að komast í það? Eða eitthvert þeirra? Þau eru áreiðanlega mörg
Mér finnst Ólafur Ragnar vera að fara í útrásarfötin þessa dagana. Sigmundur vill líka vera með og vel gæti þetta allt saman endað í fullum fjandskap milli þeirra fóstbræðra. Ekki er þó hægt að treysta á það því ef þeir fá að ganga eins langt í sjálfsblekkingunni og þeir vilja sjálfir þá er aldrei að vita hvernig fer. Útrásin gæti hafist klukkan þrjú á morgun.
Share this video if you want to look at it, sagði fésbókin glaðhlakkalega við mig.
Nei, mér dettur ekki grænan hug að gera það, sagði ég hinn versti.
Sama er mér, þá færðu heldur ekki að sjá þetta úrvalsvideó, ansaði fésbókin af bragði. Ég flýtti mér semsagt að fara útúr fésbókarræflinum og loggaði mig inn aftur og forðaðist þetta umtalaða myndband einsog heitan eldinn. Það gekk ágætlega og ég fékk að gera það sem ég vildi á bókarskræðunni að þessu sinni. Í sífellt vaxandi mæli er fésbókin að reyna að taka af manni völdin. Klikkaðu hér, klikkaðu þar og þú munt hólpinn verða. Þannig eru hin nýju trúarbrögð og ef þú vilt ekki þýðast þau þá verður þér smám saman gert ómögulegt að lifa. Þannig er boðskapurinn og ekki er nauðsynlegt að standa upp á ákveðnum stöðum lengur.
Engin ástæða er til að ætla að ríkisstjórnin samþykki þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna við Evrópusambandið. Svo gæti farið að tillaga um slíkt yrði samþykkt og það er ekki stefna ríkisstjórnarinnar. Þess vegna mun ríkisstjórnin vinna ötullega að því að koma í veg fyrir slíka atkvæðagreiðslu. Þetta hélt ég að öllum væri ljóst, en um síðastliðin áramót komst ég að því að þeir eru til sem trúa því að ríkisstjórnin sé meðmælt þjóðaratkvæðagreiðslum. Það getur vel verið að ríkisstjórnin sé meðmælt þjóðaratkvæðagreiðslu um eitthvert mál sem litlu máli skiptir en atkvæðagreiðsla um að halda áfram viðræðum við Evrópusambandið verður ekki haldin meðan þessi ríkisstjórn er við völd.
Vísa sem í mínu ungdæmi var næstum eins vinsæl og bí, bí og blaka, og venjulega farið með hana í framhaldi af þeirri vísu, var svona:
Bíum bíum bamba,
börnin litlu ramba
fram á fjallakamba
að leita sér lamba.
En til hvers skyldu þau hafa verið að leita sér lamba? Mér fannst það alltaf blasa við að þau væru svöng og væru að leita sér að lömbum til að éta. Við eftiráskoðun virðist mér sem sá skilningur sé alls ekki einhlýtur. Kannski voru þau að leita sér lamba í allt öðrum tilgangi. Jafnvel til að leika sér að þeim. Heimaalningssögurnar voru afar vinsælar á þessum tíma. Og auðvitað voru þeir ekki étnir.
Að hafa verið fæddur í konungsríkinu Íslandi verður kannski einhverntíma merkilegt. Ennþá er það ekki orðið svo, því lýðveldið Ísland verður einmitt 70 ára á þessu ári. Ég er fæddur í konungsríkinu Íslandi og minn konungur var Kristján tíundi. Konunghollur hef ég þó aldrei verið. Hef ímugust á öllum yfirvöldum. Oftast eru þau spillt. Mest er það vegna þess að tækifærin eru svo mörg. Ég held að yfirvaldafólk sé ekkert verra en annað. Einhverjir mundu kannski kalla þau óhjákvæmileg. Ekki vil ég ganga svo langt. Langbest væri ef hægt væri að komast með öllu af án þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.1.2014 | 10:00
2098 - Enn er ég lifandi
Ég er svolítið farinn að þreytast á Ásgautsstaðamálinu en ætla þó að halda áfram með umfjöllun um það. Í síðasta bloggi sagði ég frá tilraun Björgvins Guðmundssonar til að fá fram skipti á jörðinni. Það tókst ekki. Þar stóð sýslumaður Árnessýslu greinilega beinlínis gegn ákveðnum lagafyrirmælum og reyndi að slá ryki í augu erfingja jarðarinnar.
Með Ólafi og Simma hefur þjóðremban náð nýjum hæðum hér á landi. Hún var að vísu talsverð um það leyti sem Hriflu-Jónas var og hét, en nú held ég að það met hafi verið slegið. Þó þessi þjóð standi öllum öðrum þjóðum langtum framar að öllu leyti er samt ekki hægt að treysta henni til að ákveða neitt sjálf. Þar koma til ofurmenni eins og Ólafur og Simmi. Þeir fara létt með það. Án allra þjóðaratkvæðagreiðslna og þessháttar óþarfa. Að vísu er óhætt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur um efni þar sem hægt er að sjá úrslitin fyrir. Stjórnarskránni er varasamt að hrófla við. Betra er að notast við þá gömlu og fá nógu fylgisspaka lögspekinga til að túlka hana eftir þörfum.
Enn er ég lifandi
og engu takmarki náð.
En orð byltast um orð
og ná stundum
með fingurgómunum
svo að segja til yfirborðsins.
Er ég þá vatnakarfi,
sem heldur að gáfnafar sitt lagist
við að komast á þurrt?
Eða er ég kannski ófreskjan
úr undirdjúpunum
sem allir óttast?
Kannski bara samviska heimsins,
sem lætur ekki ósögð orð
sem ógna tilverunni
stjórna lífi sínu.
Ómar Ragnarsson fylgist vel með stjórnmálum og hefur alltaf gert. Hann hefur líka verið handgenginn nokkrum aðalleikendum þar. Þess vegna er full ástæða til að lesa vandlega það sem hann hefur fram að færa um þau mál. Nýjasta útspil hans er eftirfarandi blogg: http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1342954/?fb=1 Ég þarf varla að taka það fram að ég er næstum því að öllu leyti sammála Ómari þarna. Stundum finnst mér hann of einstrengingslegur í náttúruverndarmálum en þarna er hann það ekki. Hann leggur einfaldlega áherslu á samstöðuna og viljann til að ná henni. Í mínum huga hefur þjóðarsáttin svokallaða frá 1990 alltaf verið að mestu á kostnað verkalýðsins. Aðrir aðilar hennar hafi sloppið betur. Auðvitað eru ekki allir sammála mér um þetta. Þó held ég að sú skoðun hafi verið almenn hjá verkalýðsforystunni að svo væri. Samt sem áður græddi verkalýðurinn augljóslega á henni þegar fram í sótti. Hugsanlega allt þar til farið var að efna í Hrunið mikla í upphafi þessarar aldar.
Vissulega er jákvæðni af þessum toga varasöm. Þar sem ég er alls ekki fulltrúi auðvaldsins á þessum vettvangi kynnu sumir að halda að ég væri að mæla því bót með þessu. Svo er alls ekki. Ég er aðeins að leggja áherslu á að til að ná þjóðarsátt um kaup og kjör þurfa allir að starfa saman. Ekki má láta pólitískt dægurþras rugla sig í ríminu. Þjóðarsátt af því tagi sem náðist 1990 er eina ráðið til að hemja verðbólguna, sem er um það bil að læsa klóm sínum í okkur. Hvort það verður Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eða einhver annar sem verður forsætisráðherra þegar sá árangur næst skiptir engu máli. Ef raunverulegur vilji er fyrir því að láta krónuna vera gjaldmiðil okkar áfram er eitthvað af þessu tagi bráðnauðsynlegt ekki seinna en strax.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2014 | 15:23
2097 - Eru píratar nokkuð til í alvöru?
Ásgautsstaðir, Ásgautsstaðir, Ásgautsstaðir. Mér finnst ég þurfa að minna á að enn er verið að nýta þessa jörð í óleyfi. Árborg gerir það. Auðvitað er ekki við því að búast að Selfyssingar séu tilbúnir til að borga hærra útsvar bara til þess að bæjarstjórnin geti gerst heiðarleg og samið um greiðslur fyrir þessi ólöglegu not, sem staðið hafa í marga áratugi. Samt gæti það á endanum verið betra fyrir þá. Ef ég á að halda áfram að skrifa um þetta mál í hverju einasta bloggi, (sem ég tel ekkert eftir mér) þá er eins gott að hafa það ekki mjög langt í hvert sinn.
Annars eru fleiri en ég sem hafa áhuga á þessu Ásgautsstaðamáli. Í æviminningum Bjögvins Guðmundssonar, eðalkrata, sem út kom nýlega og heitir Efst á baugi eftir vinsælum útvarpsþætti sem hann (Björgvin) stjórnaði ásamt öðrum, er kafli um mál þetta á bls. 145. Kannski birti ég þennan kafla einhverntíma seinna, ef ég má, en hvet auðvitað alla sem áhuga hafa á þessu og nálgast geta bókina til að lesa með athygli það sem hann hefur að segja um Ásgautsstaðamálið. Bréfið frá sýslumanni sem hann talar um hef ég undir höndum, eða ljósrit af því.
Flestir sem bréf skrifa ætlast til að þeim sé svarað. Íslendingar er mér þó sagt að séu manna latastir við að svara bréfum og reyna allskyns undanbrögð til að komast hjá því. Oftast er það áreiðanlega vegna gleymsku og athugunarleysis, sem það er ekki gert. Sjálfur hef ég áreiðanlega einhverntíma komið mér hjá því að svara bréfi. Kannski með heldur þunnildislegri afsökun.
Allt það besta í lífinu er ókeypis. Ekki borga ég neitt fyrir að nota Google. Sama er að segja um Moggabloggið og fésbókina. Er frá einhverju fleiru að segja. Ég held ekki. Þetta er eins og með vatnið og loftið. Mundum við borga fyrir það séstaklega ef einhver ætlaði að rukka okkur um það. Ég held varla. Samt er það álitin mikil speki þegar einhver segir að hádegisverðurinn sé aldrei ókeypis. Þó er auðvitað sannleikskorn í því. Auglýsingar eru lúmskar. Að sjálfsögðu er ekkert ókeypis, ekki einu sinni Wikipedia eða rigningin ef útí það er farið. Allt fer þetta eftir því við hvað er miðað eða hver hugsunin er.
Uppi á hól
stend ég og kanna.
Æ, ég nenni ekki að halda áfram. Allir hljóta að kannast við þetta. Í gamla daga var sagt: Uppi á stól stendur mín kanna. Svo var það víst ekki nógu gott. Mér finnst samt enn vanta skýringu á því hvað þessi bölvuð kanna er að gera hjá þeim sem stendur uppi á hólnum og af hverju hún er þarna.
Simmi, eru Píratar nokkuð til í alvöru? Þessi setning úr áramótaskaupinu er mér minnisstæðust á nýjársdagsmorgni. Ber á sinn hátt vott um afneitun þá sem á sér stað hjá yfirstétt landsins og skilningsleysi hennar á þörfum þjóðarinnar. Simmi virðist telja að því meiri þjóðremba sem borin er á borð því meiri líkur séu til að hann tryggi sér þau atkvæði sem þarf. Vonandi er það vitleysa. Ég hallast æ meira að þeirri kenningu að ef skipta þarf þjóðinni í tvo flokka þá skiptist Íslendingar fyrst og fremst í opgáttarmenn og einangrunarsinna.
Fór áðan út í Nauthólsvík. Þar var mikið um að vera. Sjósund stundað af krafti og líka heiti potturinn. Kvikmyndatökumaður kom þar að og skipaði öllum útí aftur og þeir hlýddu. Mér fannst samt kalt.
Stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar vilja umfram allt að gjaldeyrishöftin haldi sér, krónan, eins löskuð og hún er, verði áfram mynt okkar Íslendinga og tengslin við Rússland og Kína efld en önnur veikt. Ekkert af þessu hugnast mér.
Samsýning félags frístundamálara.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)