Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

1716 - Kuklarar allra landa sameinist

Untitled Scanned 01Gamla myndin. Bjössi 1. Eins og ég sagði í síðasta blogg (minnir mig) fann ég helling af gömlum myndum sem vel getur verið að ég sé búinn að birta sumt af áður. Hendi þeim inn hérna því ég hef ekkert annað. (Það er ekki hægt að birta gamlar myndir næstum hvern dag endalaust.)

Enn eru menn mikið að bollaleggja um forsetakosningarnar sem fram fóru í lok síðasta mánaðar. Það er margt sem mér finnst vera að breytast í íslenskum kosningum síðustu árin. Forsetakosningarnar um daginn geta ekki talist hafa verið þýðingarmiklar en vel er líklegt að stjórnmál á Íslandi séu að breytast. Mun sú breyting eiga sér stað bæði innan flokkanna og utan. Nýjir flokkar gætu hæglega náð fótfestu í íslenskum stjórnmálum.

Síðustu kosningar voru haldnar of snemma eftir hrunið en breytingarnar urðu samt furðu miklar. Líklegt er að í næstu kosningum verði einnig miklar breytingar en blóðug bylting verður ekki gerð.

Líklegt er að ný stjórnarskrá verði sett en óvíst er hvort hún breyti miklu. Harkalega verður tekist á um mörg atriði hennar og þjóðaratkvæðagreiðslur verða eflaust mun algengari í framtíðinni en verið hefur.

Mikill hluti af því sem manni finnst gott endar utan á manni og er afar erfitt að burðast með alla daga. Kannski er þetta vegna þess að manni finnist of margt gott. Matur þyrfti að vera svolítið vondur svo maður borðaði minna af honum. Ég ætla að ganga svo langt að sega að allur matur ætti að vera vondur. Kannski var það einmitt þannig í gamla daga og þessvegna voru fáir feitir. Nú er öldin önnur og allur (eða flestur) matur góður og þar að auki hafa næstum allir efni á að kaupa sér hann. Þetta er alls ekki nógu gott. Eiginlega ætti hann að vera margfallt dýrari.

Af hverju skyldi ég alltaf halda áfram að blogga svona mikið? Bullið í mér er áreiðanlega farið að samsvara mörgum  bókum

Í kvöld var ég að enda við að lesa bókina „A simple plan“ eftir Scott Smith og ekki er hægt að neita því að hún hafi verið geysispennandi. Hingað til hafa þeir John Grisham og Steven King verið mínir uppáhalds bandarísku höfundar. En þessi Scott Smith virðist vera alveg á borð við þá. Ef ekki betri. Verst hvað ég hef lesið fáar bækur eftir hann. Hef líka lítið lesið af vísindaskáldsögum lengi undanfarið en hef aðgang núna að mörgum bókum eftir Isaac Asimov og er haldinn nokkrum valkvíða þar. Tillögur velkomnar.

Kuklaðdáendur láta lítið fyrir sér fara þessa dagana. A.m.k. verð ég lítið var við þá á mínu bloggi. Kuklfréttir eiga þó jafnan góðan aðgang að fjölmiðlum ásamt fréttum af hvers konar könnunum sem reynt er að teyja og toga svo þær falli sæmilega að skoðunum miðlanna.

Það er engin tilviljun að Íslendingar sem verða fyrir barðinu á hérlendum dómstólum skuli jafnan hóta að fara með málin sem um ræðir fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Íslenskir dómarar þurfa að fara að haga sér eins og siðmenntaðir menn og hætta að láta eins og fífl. Hinn möguleikinn er líklega sá að segja sig endanlega úr lögum við aðrar Evrópuþjóðir og stefna að algerri einangrun.

IMG 0813Er eitthvað að sjá þarna?


1715 - Þjóðremban þjóðhættulega

Untitled Scanned 001Sigrún systir.

Ég er eiginlega að komast í hálfgerð vandræði með gömlu myndirnar. Hér koma samt nokkrar gamlar myndir frá Hveragerði. Sennilega eru þær allar teknar árið 1958. Sumar þeirra hef ég áreiðanlega birt áður, en við því er ekkert að gera. Nenni ekki að athuga það varðandi hverja mynd fyrir sig.

„Auglýsingar eru lífsnauðsynleg tekjulind fyrir fjölmiðla. Þær eru eina tekjulind margra fjölmiðla. Viðskiptaaðgerðir sem beinast markvisst að því að refsa fyrir gagnrýna umfjöllun móta fjölmiðlana og samfélagið allt.“

Þessi klausa er af dv.is. Sennilega er þetta úr forystugrein. DV hefur sinnt gagnrýni á kerfið betur en aðrir fjölmiðlar. Alls ekki er það samt gallalaust. Gerir oft miklu meira úr hlutunum en ástæða er til. Sjálfsánægja ritstjóra þar og blaðamanna er samt mikil. Sennilega gera allir nema þeir sjálfir sér grein fyrir því.

Í þessari klausu segir að „auglýsingar séu lífsnauðsynleg tekjulind fyrir fjölmiðla.“ Þessu er ég alls ekki sammála. Fjölmiðlaeigendur hafa bara talið sér trú um að svo sé. Með sannfæringu sinni um þetta hafa þeir gengið græðginni á hönd og með öllu er óþarfi að vorkenna þeim markaðsvistina. Þar vilja þeir vera og þar líður þeim vel.

Fjölmiðlun er ekki samkeppni um það að hafa sem hæst, heldur snýst það um að láta ekki aðra ráða yfir sér. Með auglýsingalífsnauðsyninni er verið að afhenda markaðnum stjórnina á viðkomandi fjölmiðli. Ef ekki er hægt að fá peninga öðruvísi er til lítils barist og best að hætta.

Kannski eru gallaðir fjölmiðlar og ótrúleg þjóðremba að gera út af við okkur Íslendinga. Sennilega erum við í þann veginn að missa sjálfstæði okkar. Ekki samt vegna útlendingadekurs eins og sumir virðast halda heldur vegna óhóflegrar þjóðrembu. Okkur vegnar alltaf betur ef samkomulag okkar við nágrannaþjóðirnar er sæmilegt. Einangrun skaðar okkur. Það hefur reynslan sýnt.

IMG 0790Hvalasafn.


1714 - Ögmundur Pílatus

Untitled Scanned 27Gamla myndin.
Við Laugaskarð.

Ögmundur Jónasson fyrrverandi fréttamaður hjá ríkissjónvarpinu og núverandi innanríkisráðherra heldur áfram að loka augunum og þykjast ekki sjá neitt. Hann lætur sér sæma að koma í sjónvarpið og segja að hann ráði ekki neinu, sé bara réttur og sléttur ráðherraræfill, sem ekkert veit og ekkert getur.

Auðvitað getur hann samt gert eitthvað. T.d. kallað lögreglustjórann fyrir sig og sagt að hann muni sjá til þess að hann verði ekki lengi lögreglustjóri, ef hann hagi sér eins og fífl. Varðandi þetta barnaverndarmál sem allir hafa vit á núna þessa dagana er ég samt ansi hræddur um að danski maðurinn hafi alveg rétt fyrir sér og móðirin sé (með aðstoð DV og nokkurra nytsamra sakleysingja) að brjóta gerða samninga.

Ef það er eina úrræðið, sem lögreglustjórinn kemur auga á til að leysa þetta mál að rífa börnin frá móður sinni, þá er hann heimskari en hann lítur út fyrir að vera. Annars sýnir þetta mál í hnotskurn hve völd fjölmiðla yfir hugsun fólks eru oft undarlega mikil.

Rafbækur og kukl eru mín helstu áhugamál um þessar mundir, fyrir utan fésbókina sem slíka. Kuklið vakti áhuga minn núna vegna þess að ég las greinar um það mál eftir Svan Sigurbjörnsson og Hörpu Hreinsdóttur. Verð að segja að ég er miklu meira sammála Svani þó mér finnist hann stundum fara offari. Hörpu hættir líka til að fara offari að mínu áliti. Hún gengur lengra í stuðningi sínum við kuklið og andstöðu við Svan en mér þykir við hæfi. Viðurkenni fúslega að ég les sjaldnar „Læknablaðið“ en ástæða væri til. Blogg Hörpu les ég þó alltaf og veit ekki betur en hún sé vön að lesa bloggið mitt.

Hver eru helstu metnaðarmál þeirra sem ráða yfir fésbókinni? Ég held að það sé að vera í forystu slíkra samskiptavefja og tryggja sér þar með miklar aulýsingatekjur. Hinsvegar held ég að þeir séu margir sem vilja notfæra sér vinsældir fésbókarinnar til að koma sínum skoðunum og hugmyndum á framfæri. Þær skoðanir og hugmyndir geta oft verið hættulegar og vissulega er ástæða til að berjast gegn sumum þeirra.

IMG 0763Girðing.


1713 - Syfja

Untitled Scanned 24Gamla myndin.
Gamli heiti potturinn, sundlaugin og pallurinn.

Var svo syfjaður við að setja bloggið mitt upp í gærkvöldi að það fór allt í handaskolum. Var búinn að skrifa eitthvert ódauðlegt listaverk en hef líklega gleymt lokahnykknum. Svo fór ég að lesa ísbjarnarfréttir og fékk þá óforvarendis hugmynd að einskonar mini-leikriti og skrifaði það niður. Sá svo að blogginnleggið mitt hafði ekki komist til skila og ég búinn að þurrka það út hjá mér. Ákvað þá setja upp leikritsómyndina í staðinn en þá vildu myndirnar ekki fara með og þar sem ég var búinn að taka svefntöflu dreif ég mig bara í rúmið.

Sé núna að myndirnar hafa samt farið upp. Það sem átti að vera bloggið mitt og ég var búinn að skrifa og lesa eitthvað pínulítið yfir er hinsvegar týnt og tröllum gefið. (Sennilega úti í bloggeternum) Reyni ekki einu sinni að rifja það upp þó eflaust hafi margt verið vel sagt þar.

Enn einu sinni er ég um miðja nótt að fást við að blogga. Þetta er alls ekki nógu gott. Þó er ég í ágætu stuði svona í „náttlausri voraldar veröld“ og það er á margan hátt skemmtilegt að fylgjast með trjánum, já og gróðrinum öllum bíða eftir sólinni með öndina í hálsinum.

Finnst menn láta illa útaf forsetakosningunum. Ólafur vann (en Sigtryggur ekki) og ekkert við því að segja. Það er alveg óþarfi að láta svona. En sumir eru æði tapsárir.

Hvað sem annars er um Hörpuna að segja er þetta fallegt hús. Það verður starfrækt um ókomna tíð og ef það ber sig illa eða allsekki þá verður hlutunum bara hagrætt þannig að hægt sé að halda slíku fram. (Þó það verði kannski gegn betri vitund sumra) Ég er t.d. þegar farinn að gæla við þá hugmynd að deildakeppnin í skák fari þar fram áður en langt um líður.

IMG 0748Í Hvalfirði.


1712 - Hafísfregn (eða björn) sást á reki

Untitled Scanned 23Gamla myndin.
Áhorfendur.

Viltu ís, Björn?

Nei takk, og ég er meira að segja hættur við að fara norður.

Kannski var þetta ekki ísbjörn, Björn.

Mér er alveg sama.

Ísbirnir eru samt ofsalega krúttlegir.

Það er nú meira.

Þú getur nú kannski farið norður ef þú færð lögreglufylgd.

Sá lögregluþjónn verður þá að vera mjög seinn að hlaupa.

Af hverju?

Svo ísbjörninn nái honum á undan mér.

Já, svoleiðis. Á ég þá að reyna að finna einn slíkan?

Já, reyndu það.

Veistu að þessi björn er sagður vera vopnaður?

Nú.

Já, einhver sagði að hann lemdi menn með prömmum.

Er það haglabyssutegund?

Veit það ekki.

Svo er sagt að hann hafi verið með egg með sér því honum finnst þau svo góð.

Einmitt já.

Og Þyrlufælu.

Nú. Hvernig eru þær?

Það er eitthvað sem blásið er í.

Og fælist þá þyrlan?

Það er víst.

Ég þyrfti að fá mér svoleiðis. Það eru alltaf þyrlur að trufla mig við áríðandi verk.

Áríðandi verk?

Já, eða eitthvað svoleiðis.

Áríðandi verk. Eigum við ekki bara að sleppa á-inu?

Ja, mér er alveg sama. Kannski það sé betra þannig.

Betra? Betra en hvað? Betra en rjómaís kannski?

Ha? Viltu svoleiðis ís, Björn?

IMG 0743Snæfellsjökull séður úr Hvalfirði.


1711 - Nýaldarfasismi

Untitled Scanned 22Gamla myndin.
Fjallkonan og fylgdarlið.

Nú finnst mér fyrst að það taki því að blogga fyrir forsetakosningunum Þær eru afstaðnar og fólk er líklega farið að hugsa um ýmislegt annað.

Fróðleg er sú túlkun á úrslitum forsetakosninganna að þau séu í rauninni vinstri öflunum til stuðnings og komi þeim á endanum til góða. Samkvæmt því hafi þeir sem kusu Ólaf verið að lýsa með því yfir stuðningi við Jóhönnu Sigurðardóttir. Svo held á að hafi alls ekki verið.

Sagði líka eitthvað á þá leið í bloggi um daginn að Ólafur mundi reyna að hindra atkvæðagreiðsluna sem fyrirhuguð er í haust. Átti kannski ekki von á að hann hæfist handa alveg svona fljótt. Kannski er þetta eina leiðin sem sjálfstæðismenn sjá til þess arna. Málþófið er að verða óvinsæl aðferð.

Að tefla skák er í rauninni bara að leiða þrætu til lykta. Minnir að það hafi verið Bronstein sem fyrstur benti á þetta. Þessvegna er það ósköp eðlilegt að skákmeistarar séu þrætugjarnir með afbrigðum. En hver er þrætan? Þegar tveir skákmenn setjast að tafli kemur þeim ekki saman um hvor sé betri. Skákin er til skera úr um það.

Já, kallið mig bara gamlan og ruglaðan fyrir að geta ekki skilið alla þessa nýaldarspeki. Árur og áruhreinsair, álfar, draugar, bílaheilun, smáskammtalækningar, handayfirlagningar, lækningar í svefni, segularmbönd og sjáendur allskonar. Sumt að þessu getur vel verið til staðar, en það virðist ekki mega fjalla um þessi fyrrbrigði nema á forsendum nýaldarfólksins.

Fjölmiðlarnir (einkum þó sjónvörpin) eru farin að segja frá þessu í löngum og ítarlegum fréttum. Oft þykist fólk þar vera með því að gera grín að samtökum af þessu tagi, en það finnst bara ekki öllum að þetta sé grín. Einfaldast væri að fjalla ekkert um það. Nóg er til af öðrum fréttum.

IMG 0716Spegilsléttur sjór.


1710 - Úrslitin

Untitled Scanned 21Gamla myndin.
Áhorfendur.

Mér finnst óþarfi að taka kjöri Ólafs illa. Efast ekkert um að hann muni reyna að vera góður forseti sem flestra Íslendinga. Og það er margt sem bendir til þess að hann verði það. Ólafur var aldrei í neinni hættu með að tapa þessum kosningum. Það er mun merkilegra að velta fyrir sér hvað Þóra muni fara að gera. Ari Trausti gaf í skyn að hann væri e.t.v. ekki alveg fráhverfur stjórnmálunum. Efast ekki um að mörgum fyndist akkur í að fá hann þangað.

Fylgdist dálítið með kosningasjónvarpinu á RUV og kom á óvart hve menn eiga erfitt með að telja orðið. Það er greinilega meiriháttar mál að leggja saman tölur á blaði. Í gamla daga lærði maður það í fyrstu bekkjum barnaskólans. Nú finnst fólki að tölvur eigi að sjá um svona lagað en átta sig ekki á því að ef rugl er sett inn kemur a.m.k. jafnmikið rugl út.

Næstu kosningar sem fram eiga að fara munu verða í haust og munu líklega snúast um það hvort nota eigi frumvarpið sem kom frá stjórnlagaráðinu sem grunninn að nýrri stjórnarskrá landsins. Gamla skráin er bara alls ekki nógu góð lengur.

Gera má ráð fyrir að drög þau sem lögð hafa verið fram verði samþykkt með miklum meirihluta. Nokkur atriði hafa verið tekin útfyrir sviga og verður kosið um þau sérstaklega.

Erfitt er að sjá hvernig Ólafur Ragnar getur brugðið færi fyrir þessa áætlun en hann mun þó reyna.

Reyndar er augljóst að þingmönnum kemur minna við en flestum öðrum hvernig stjórnarskráin lítur út. Samt er það svo að ekki verður nýrri komið á án þeirra samþykkis. Það er ein fegursta þversögn íslenskrar stjórnskipunar.

IMG 0942Kóngulóarvefur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband