Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
2.11.2011 | 00:07
1518 - Eirkatlarnir á Snæfellsnesi og fleira
Gamla myndin.
Fjögurra manna tjald.
Fór í gær á bókasafnið. Tók þar að láni m.a. bók sem heitir Yfir alda haf. Hún er eftir Sigurð Ólason. Sá er fæddu 1907. Ekki er neitt útgáfuár að finna á bókinni en margt bendir til að hún sé eldgömul. Fremst í bókinni er þó skrifað með blýanti og sett í hornklofa ártalið 1964 og kann það að vera útgáfuár bókarinnar. Í fyrsta kaflanum er sagt dálítið frá Aroni Hjörleifssyni sem er nokkuð frægur í sögunni. Á hann er minnst í Sturlungu og hann er fæddur árið 1200. Þeir sem áhuga hafa á honum er bent á að Gúgla nafnið hans og lesa sér til um hann. Hér vil ég aðeins geta þess að hann var Snæfellingur og ólst upp með Sturlu Sighvatssyni og var einn af nafntoguðustu liðsmönnum Guðmundar góða, sem frægastur var biskupa þeirra sem störfuðu á Sturlungaöld.
Síðasti kafli bókarinnar ber nafnið Leyndardómur eirkatlanna í Rauðamelshraunum. Þar segir höfundur frá eirkötlum þeim sem fundust skammt frá Ytri-Rauðamel á Snæfellsnesi. Segir hann að þeir hafi fundist fyrir nokkrum árum og er e.t.v. hægt að finna útgáfuár bókarinnar útfrá því. Tilgáta höfundar er að eirkatlarnir (pottarnir) hafi tilheyrt þeim mæðginum Sigríði Hákonardóttur (1648 1733) og/eða Oddi lögmanni Sigurðssyni (1681 1741) og rökstyður það á ýmsan hátt.
Sá líka um daginn heimildamynd um Bobby Fischer sem nefnd er Bobby Fischer Against the World. Sú mynd er greinilega fullgerð fljótlega eftir að Fischer dó en líklega hefur samt verið byrjað á henni mun fyrr. Þessi mynd er um margt nokkuð góð og t.d. er ágætlega fjallað í henni um uppvöxt Bobbys og einvígið sem haldið var hér í Reykjavík árið 1972. Alls ekki er samt hægt að segja að kafað sé djúpt í ævi þessa höfuðsnillings skáklistarinnar. Á einum stað í myndinni segir Fischer að ekki sé rétt að segja að hann hafi verið snillingur í skák heldur sé rétt að segja að hann sé snillingur sem svo hafi viljað til að hafi einbeitt sér að skák.
Margt bendir til að þetta sé einmitt rétt. Fischer virðist halda að hann sé einhver allsherjar snillingur á öllum sviðum. Svo er bara alls ekki. Skoðanir hans á mörgum málum eru einmitt talsvert brogaðar. Mér finnst samt að ástæða sé til að horft sé í gegnum fingur sér með það, vegna þess hve góðum árangri hann náði í skáklistinni. Vissulega eru þeir til sem alls ekki geta fyrirgefið honum margt af því sem hann hefur látið hafa eftir sér. Það er auðvitað rétt að margt af því er ákaflega vanhugsað, en mér finnst ástæða til að láta hann í friði eftir að hann er farinn á vit feðra sinna. (Sem ekki er fyllilega vitað hverjir voru.)
Er ímynd Hornafjarðar deyjandi hreindýr? Það álítur Ómar Ragnarsson. Sjá: http://omarragnarsson.blog.is/blog/omarragnarsson/entry/1201945/ Ekki er hægt að vera með öllu ósammála honum. Forráðamenn Hornafjarðar geta ekki endalaust haldið áfram að vísa hver á annan. Þeim væri nær að láta fjarlægja girðingarafmánina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2011 | 00:16
1517 - Occupy everything
Gamla myndin.
17. júní í Reykjavík.
Jónas Kristjánsson jónasast mikið yfir því að tjaldbúar á Austurvelli hafi tjaldað á vitlausum stað. Það finnst mér ekki vera. Að þeir noti enska orðið occupy finnst mér líka vera í góðu lagi. Hreyfingin sem á uppruna sinn í Occupy Wall Street getur vel orðið að alheimshreyfingu innan skamms. Stjórnmálalandslag á Vesturlöndum hefur breyst. Ekki er lengur hægt að níðast með sama hætti og áður á almenningi. Það 1 % sem hingað til hefur stjórnað heiminum er að hamast við að finna nýjar aðferðir. Ekki er víst að níutíu og níu prósentin þurfi að gera annað en að bíða. Kannski hrynur spilaborgin strax og blásið verður á hana.
Ekki er kyn þó mótmælendum gangi illa að finna lausnir. Þær eru margar. Allir, eða næstum allir, geta sameinast um að vera á móti eina prósentinu en þá er samstöðunni e.t.v lokið. Ef allir sameinast um að rífa niður þá þarf samt að byggja upp aftur. Þar langar útrásarvíkingana að koma sterkir inn. Forsetann líka. Hann hagræðir seglum eftir vindi og vonast til að finna besta byrinn.
Kannski er best til að gera menn afhuga fésbókinni að kalla allt sem þar fer fram lágmenningargutl. En hvað er lágmenningargutl? Er það ekki skárra en Menningarsnobbið sem öllu tröllríður og þykist allt vita best? Setti þjóðina á hausinn og er núna að reyna að klóra sig uppúr skítnum. Svona fimbulfamb og nafngiftir er það sem best á heima á blogginu. Sumir reyna að vísu að vera ögn lágstemmdari, en það heyrist bara ekkert í þeim.
Af hverju eru allir svona æstir? Jafnvel biskupinn talar um mannorðsmorð og annað þaðan af verra. Hvað er eiginlega hlaupið í umræðuna? Eru allir orðnir vitlausir?
Skelfing er fátt áhugavert á netinu not.
Ég er að hugsa um að blogga á eftir kannski.
Myrkið er svart einmitt.
Svo ég fer líklega bara að sofa bráðum.
Er þetta ljóð Veit ekki.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)