Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011

1538 - Nafngiftir o.fl.

Scan72Gamla myndin.
Svala Bragadóttir.

Bloggaði s.l. föstudagskvöld án þess að minnast á formannskjörið í Sjálfstæðisflokknum. Á Moggabloggi er slíkt auðvitað ekki skynsamlegt ef ætlunin er að margir lesi. Mér er sama. Veit að Hanna Birna vinnur auðveldlega og var áðan að lesa nokkuð skynsamlega grein hér á Moggablogginu eftir Svan Gísla um þetta mál.

Merkilegt í aðra röndina hve höll fréttastofa RUV er orðin undir Sjálfstæðisflokkinn en í hina röndina ekkert skrítið. Ef bara er miðað við fjórflokkinn og gengið útfrá því að allt verði eins og verið hefur er ekkert einkennilegt við að sá flokkur verði aftur stærstur. Aftur á móti er vel hugsanlegt að Hrunið hafi hreyft svo mikið við fólki að pólitíska landslagið breytist töluvert í næstu kosningum.

Er besta leiðin til að komast í Kastljósið að vera veikur? Komast allir sem eru veikir þangað? Og skyldi DV einhverntíma fjalla um aðra en útrásarvíkinga og þá sem eru á hausnum. Hvað er orðið um allt venjulega fólkið sem svaraði spurningu dagsins 365x4? Hver er hæsta talan sem hægt er að skrifa með þremur tölustöfum?

Skrifaði í gær um Þórunni Valdimarsdóttur og hvernig nafn hennar er skrifað. Við þessu hafa lítil viðbrögð orðið. Manns eigið nafn er þó einhver manns helgasta eign og alls ekki þýðingarlaus. Stundum er það samt gefið af foreldrum eða öðrum aðstandendum í einhverju bríaríi upphaflega, en eftir að viðkomandi einstaklingur er kominn til vits og ára ætti enginn að geta hróflað við nafninu án hans samþykkis. Mannanafnanefnd er að mínu áliti einhver ónauðsynlegasta nefnd landsins og er þá afar langt til jafnað. Séu börn nefnd einhverjum ónefnum eiga þau sjálf að leiðrétta þau mistök þegar þau hafa þroska til. Fram að þeim tíma er nafngjöfunum einum um að kenna.

Séu nöfn að einhverju leyti óvenjulega framborin eða skrifuð verða viðkomandi sjálfir að sjá um að rétt sé með farið og eru mörg dæmi um slíkt. Hagstofan og Þjóðskráin hafa samt farið illa með margan manninn án þess að nokkuð þýði að fara þar framá leiðréttingu. Hef sjálfur lent í því og einhver systkina minna einnig en ætla ekki að fjölyrða um það hér.

Rithöfundar hafa löngum haft sterkar skoðanir á nöfnum og kenningarnöfnum. Sennilega hefur Sigurður A(ðalheiðarson) Magnússon verið meðal þeirra fyrstu sem vildi kenna sig við móður sína ekki síður en föður. Nú er það aftur á móti orðin mikil tíska að kenna sig við móður sína. Þorgeir Þorgeirson hafði sterkar skoðanir á því hvernig stafsetja ætti nafn sitt. Mörg dæmi er hægt að finna um að þetta skipti verulegu máli.

Nafnvenjur okkar Íslendinga þykja útlendingum skrýtnar mjög. Að kenna sig einungis við móður sína er móðgun við föðurinn miðað við það sem tíðkast hefur. Líka er hægt að líta á það sem móðgun við móðurina að gera það ekki. Lausn Þórunnar sem minnst var á í gær er því eðlileg og óþarfi að hunsa hana.

IMG 7135Indíánatjald eða bátur?


1537 - Skák

Scan72 (2)Gamla myndin.
Síamsköttur.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson skrifar í vefritið Pressuna um bók sína um kommúnista á Íslandi og viðtökur við henni. Ekki minnist hann samt neitt á Eyvindarmisskilninginn sem Jens Guð gerði að umtalsefni á bloggi sínu nýlega undir nafninu „Hvor lýgur“. Svarhalinn við þá færslu er sérlega athyglisverður og ef ske kynni að einhver sem þessar línur les sé aðdáandi Jens Guðs eða Hannesar Hólmsteins ætti sá svarhali endilega að lesast ásamt greininni að sjálfsögðu.

Minntist um daginn á millisvæðamótið í skák sem haldið var í Gautaborg árið 1955. Á þessum tíma voru einhver frægustu skákmótin haldin um hver áramótin í bænum Hastings á suðurströnd Englands. Um áramótin 1955/1956 var hið 31. slíkra móta haldið. Þar tóku til dæmis þátt tveir þekktir stórmeistar frá Sovétríkjunum þeir Kortsnoj og Taimanov. Stórmeistarar í skák voru ekki nándar nærri eins margir þá og þeir eru nú. Stórmeistarinn Ivkov frá Júgóslavíu tók einnig þátt í þessu móti, svo og þýski meistarinn Darga og Spánarmeistarinn del Corral. Allir bestu skákmenn Bretlands tóku einnig þátt s.s. Golombek, Penrose og Fuller. Alls voru þátttakendur tíu.

Skemmst er frá því að segja að þeir Kortsnoj og Friðrik Ólafsson urðu efstir og jafnir og segja má að í skákheiminum hafi nafnið Friðrik Ólafsson verið þekkt síðan. Árið 1972 var einvígið fræga milli Spasskys og Fischers haldið hér á Íslandi og jók það stórlega áhuga fyrir skák á landinu. Með frammistöðu Hjörvars Steins Grétarssonar á Evrópumóti landsliða í Grikklandi sem lauk nýlega er e.t.v. hægt að vonast eftir því að skákáhugi vaxi aftur hér á landi. Kannski eru Íslengingar betri í skák en fjármálum. Fjármálamiðstöðin Ísland virðist a.m.k. fyrir bí í bili.

„Djúpir eru Íslands álar, þó munu þeir væðir vera“, sagði tröllskessan og öslaði út í sjó frá Noregsströndum áleiðis til Íslands. Sagt er að hún hafi drukknað á leiðinni og er það trúlegt. Veit ekki af hverju mér datt þessi gamla þjóðsaga í hug einmitt núna. Læt hana samt flakka því hún er góð.

Þórunn Valdimarsdóttir hefur margar bækurnar skrifað. Fyrir nokkrum árum tók hún uppá því að skrifa sig þannig: Þórunn Erlu-Valdimarsdóttir. Ég hef alltaf tekið það þannig að móðir hennar heiti eða hafi heitið Erla. Nýlega sá ég samt skrifað um nýjustu bók hennar og þar var hún hiklaust kölluð Þórunn Erla Valdimarsdóttir. Það er hún einnig kölluð á Youtube sýnist mér.

IMG 7126Gífurleg aðsókn.


1536 - Jóhannes úr Kötlum

Scan675Gamla myndin.
Brugðið á leik.
Þetta er Bjarni Sæmundsson.

Fór á bókasafnið í gær. Fékk þar t.d að láni tíunda heftið af Árnesingi. Þar er m.a. grein eftir Svan Jóhannesson sem fluttist til Hveragerðis 1940 þá 11 ára gamall. Hann er sonur Jóhannesar úr Kötlum og ég man ekki eftir honum. Hins vegar man ég vel eftir Ingu Dóru systur hans og svo auðvitað Jóhannesi sjálfum.

Það Hveragerði sem hann lýsir í greininni er dálítið frábrugðið því Hveragerði sem ég þekki best. Á margan hátt má segja að ég sé af næstu kynslóð á eftir honum. Um 1947 hættir hann að mestu að vera Hvergerðingur. Heldur að vísu áfram að koma í heimsóknir til foreldra sinna og er nú fluttur aftur til Hveragerðis skilst mér.

Um það leyti sem hann fer þaðan byrja ég að muna eftir mér. Man ekkert um veru hersins í Hveragerði. Þó kann það að hafa verið rétt eftir að stríðinu lauk sem Sigrún systir mín hræddi mig með því að Hitler væri sennilega í flugvél sem við vorum að virða fyrir okkur og hann ætlaði áreiðanlega að skjóta mig.

Síðastliðið sumar sagði Siggi í Fagrahvammi mér að verið væri að skrifa sögu Hveragerðis og þar kæmi fram að Muggur hans Stebba hreppstjóra væri talinn elsti núlifandi innfæddi Hvergerðingurinn. Minnir að ég hafi verið búinn að skrifa um þetta en góð vísa er aldrei of oft kveðin. Nú man ég allt í einu að ég veit ekki einu sinni hvaða bók þetta er. Er forvitinn um það.

Nú er landsfundur sjálfstæðismanna hafinn og mikið fussað meðal íhaldsandstæðinga. Formannskjörið er að verða eins og vinsælasta veðhlaup. Flest annað fellur í skuggann. Mér er slétt sama hvort þeirra vinnur. Leiðist bara pólitík og finnst margt sem þar fer fram afar grunnhyggið. Get þó ekki varist því að bollaleggja með sjálfum mér um málin.

IMG 7116Tveir steinar.


1535 - Skák og lambsverð

Scan649Gamla myndin.
Trésmiðja Hveragerðis.

Það er hálfilla gert að vera að gera grín að Vigdísi Hauksdóttur. Sumir kalla það einelti. Hún sagði í gær, miðvikudag, á degi íslenskrar tungu: „Ég var ekki fædd í gær“. Með öðrum orðum hún hélt ræðu á Alþingi sama daginn og hún fæddist. Það hlýtur að vera einhvers konar met. Já, já. Þetta er aumlegur útúrsnúningur en ósköp líkt því sem háttvirtir/hæstvirtir alþingismenn láta oft útúr sér í hálftíma hálfvitanna. Svo talar þetta vesalings fólk um vanvirðingu við Alþingi.

Líklega er millisvæðamótið í Gautaborg árið 1955 fyrsta skákmótið sem ég fylgdist með að einhverju ráði. http://www.worldchesslinks.net/ezdc3.html Fréttir og fréttabréf frá því móti minnir mig að hafi birst í Mogganum. Man að þar var Bronstein efstur eftir að hafa unnið tíu skákir og gert tíu jafntefli. Í fjórða sæti var Petrosjan en hann vann fimm skákir og gerði fimmtán jafntefli. Man að mér þótti þessar tölur merkilegar. Í öðru sæti var Keres þó hann hefði tapað tveimur skákum. Þriðji var svo Panno.

Á þessum árum einokuðu sovétmenn skákina að mestu. Þegar Botvinnik og Smyslov háðu síðan einvígi í Moskvu um heimsmeistaratitilinn var einungis sagt frá því í Þjóðviljanum. Man að ég sá hann einhverju sinni hjá Sigurði Árnasyni. Björgvin Árnason var þá líklega einum bekk á undan mér í skólanum. Var í heimsókn hjá honum þegar þetta var. Já, það voru ekki margir Hvergerðingar á þeim tíma sem lásu Þjóðviljann.

Sagan um uppruna skáktaflsins er mörgum kunn. Sá sem fann upp taflið vildi aðeins fá greitt fyrir það þannig að eitt hveitikorn yrði greitt fyrir fyrsta reitinn á skákborðinu, tvö fyrir þann næsta og síðan yrði tala hveitikornanna tvöfölduð fyrir hvern reit. Kóngsa þeim sem taflið fékk þótti þetta ekki hátt verð fyrir svo góðan leik, en þegar farið var að reikna varð talan nokkuð há.

Grein birtist í Mogganum nýlega þar sem greinarhöfundur ímyndar sér að Þorgeir Ljósvetningagoði hafi sent lambsverð til Vatikansins árið 1000. Hann kærði sig ekki um peninga heldur vildi ávallt halda sig við lambsverð. Miðað við 5% vexti ætti hann nú að eiga talsvert mörg lambsverð þar inni.

Í bloggi um þetta mál segir:

Samkvæmt reiknitölvu minni er innistæðan nú pr. 1. nóvember sl. 2.644.730.110.000.000.000.000 lömb eða til þess að segja þetta í mæltu máli: Rúmlega tvöþúsund sexhundruð og fjörutíu milljarðar milljarða lamba, sem svarar til 377 milljarða lamba á hvern jarðarbúa.

Vel getur verið að þetta sé rétt. Ekki ætla ég að reikna. Þetta sýnir bara að háar tölur og langur tími gefur oft skrítnar útkomur. Slíkt er mjög vafasamt að nota á verðmæti og mun betra að hugsa bara um afkomu næsta dags en hvernig afkoma einhvers verður eftir meira en þúsund ár eða 64 tvöfaldanir.

IMG 7112Bekkurinn fjær er blautari en sá sem er nær. Af hverju?


1534 - Þingmenn svíkjast um

Scan615Gamla myndin.
Slappað af á Arnarhóli.

Því lengri sem bloggin mín eru þeim mun fleiri lesa þau. Segja tölvugúrúarnir í Hádegismóum ef mark er takandi á teljurum þeim sem á blog.is eru. Því fleiri linka í fréttir dagsins á mbl.is sem menn hafa því hærra komast þeir á vinsældalistann. Eða hvað? Nenni ekki að prófa það. Samt vil ég auðvitað að sem flestir lesi það sem frá mínu lyklaborði kemur. Það sem frá mér fer á bloggið eru bara þær hugsanir sem ég næ valdi á og tekst að færa í orð. Ekki er nokkur von til þess að ég nái að segja allt það sem mig langar að segja.

Í sjónvarpinu er sagt að hægt sé að spara 23%  með því að kaupa réttu hitastillana. Þeir röngu gefa víst bara 22% sparnað. Þetta er auðvitað ekki nógu gott og því er í fasteignablaðinu finnur.is sagt frá óvenju glæsilegu húsi í Stykkishólmi sem er með innréttingu og sturtu. Í gamla daga sögðu Siggi Jóns eða Ásgeir bróðir hans að Svabbi Marteins hefði keypt sér bíl sem væri bæði með lyftigræjum og palli. Að þessu var mikið hlegið.

Sé að Bjarni frændi hefur látið Árna Johnsen selja sér Þorláksbúðarvitleysuna. Þó Bjarni og Guðni blessi Árna í bak og fyrir sé ég ekki að það bæti búðarskriflið neitt. Þetta er og verður óttalegur hrútakofi eins og Jóhannes á fóðurbílnum frá Ólafsvík segir. Annars er mér sama. Það eru aðallega tónskáld og tónlistarunnendur sem fíla Skálholtsdómkirkju og ekki ætti hljómburðurinn að versna neitt þó fornleifar verði búnar til þarna við dyrnar. Verst er ef þetta er ofan á alvörufornleifum eins og Villi í Köben segir.

Oddný G. Harðardóttir hélt því fram í dag (miðvikudag) úr ræðustól alþingis að RUV hefði flutt upplognar og villandi fréttir um lyfjakostnað. Ekki er að sjá að Páli Magnússyni og félögum finnist taka því að svara þessu. Mér finnst það lítilsvirðing við Alþingi. Jafnvel meiri en Reykjavíkurborg sýndi með því að leyfa sauðsvörtum almúga að tjalda á Austurvelli. Annars virðast allir keppast við að sýna hver öðrum sem mesta lítilsvirðingu þessa dagana. Sjálfur vildi ég gjarnan geta lítilsvirt einhvern en er ekki viss um að geta það. Vonandi finnst þó einhverjum að smávegis lítilsvirðing sé fólgin í þessum skrifum. 

Þingmenn svíkjast um, segir Eiður Guðnason. Hann ætti að vita það. Mætingin í þingsal er heldur klén oftast nær. Hallærislegt er að hlusta á þegar hringt er inn svo hægt sé að láta hjörðina greiða atkvæði. Eða ekki.

Fór í smágönguferð í morgun í góða veðrinu. Þó klukkan væri farin að ganga tíu var ekki farið að birta að ráði.

Birtingin er ekkert að flýta sér,
þó veðrið sé gott.
Á gangstígunum er ég partur af landslaginu,
hundarnir líka.
Bílaskrímslin æða öskrandi eftir götunum,
en reiðhjólin læðast aftan að manni
og segja böh.

IMG 7105Þetta er líklega einhverskonar innsetning.


1533 - Occupy Austurvöllur

Scan585Gamla myndin.
Öflug tæki.

Árásir mínar á aðra bloggara og nafntogaða menn eru oftast með mildara móti. Finnst mér sjálfum a.m.k. Mín ædól í bloggheimum eru Gísli Ásgeirsson, Jens Guð og doktor Gunni. Þeir eru allir fyndnir a.m.k. Ég reyni svolítið að vera líkur þeim því betri gerast bloggarar varla. Það væri þá helst Jónas Kristjánsson. Hann er bara svo orðljótur oft á tíðum og svo bloggar hann næstum eingöngu um stjórnmál og fréttir stærstu fjölmiðlanna. Bloggin hans eru hálfleiðinleg ef ekkert er haft með þeim. Veitingahússpistlarnir hans eru samt alveg í sérflokki. Snobbið lekur af þeim þó þeir séu góðir og eftirtektarverðir. Bæði Jens Guð og Dr. Gunni eru meira niðri á jörðinni þegar þeir bregða undir sig hamborgarafætinum.

Móðir eins skólabróður míns, Jóhanns Ragnarssonar á Grund, hét Þjóðbjörg. Mamma talaði oft um Friðsemd í Miðkoti. Mig minnir að Friðrik Friðriksson sem sá um þungaflutninga í Þykkvabæinn hafi átt heima í Miðkoti. Kristján sonur hans held ég að hafi keyrt einn bílinn. Hann kom stundum færandi hendi heim til mömmu man ég eftir. Vinkona Díönu Rósar, sem er uppeldisdóttir Benna, heitir Friðbjörg. Nafnið hennar er semsagt samsett úr nöfnum þeirra ágætu kvenna Þjóðbjargar á Grund og Friðsemdar í Miðkoti og í hvert sinn sem minnst er á hana detta mér þær konur báðar í hug. Hugrenningatengsl af ýmsu tagi eru stundum það undarlegasta sem á sér stað í heilanum.

Í stjórnmálunum og ESB málum ber einna hæst að stjórn samtaka atvinnulífsins (samtök atvinnurekenda) vilja a.m.k. halda viðræðunum við ESB áfram. Mér finnst það eðlileg niðurstaða þó hún henti ekki harðlínumönnum vel sem innlegg á landsfund sjálfstæðismanna. Fyrir utan formannskjörið þar kemur til með að vekja mesta athygli og skipta mestu máli hvernig ESB-málin verða afgreidd.

Tjaldbúðir eru nú með leyfi borgaryfirvalda og skilyrðum ýmsum býst ég við á Austurvelli. Þær fara mjög í pirrurnar á sumum og Ragnheiður Ríkharðsdóttir hefur einkum verið nefnd í því sambandi. Hvernig Reykjavíkurborg sýnir Alþingi lítilsvirðingu með því að leyfa að tjaldað sé á Austurvelli er mér reyndar hulin ráðgáta. Á fésbókinni er nú verið að reyna að smala fólki saman til að vera viðstatt opnun lýðræðisvefsins „Betra Ísland“ á Austurvelli á morgun miðvikudag. Ekki veit ég hvers vegna sá dagur hefur verið valinn og ekki er annað að sjá en þetta sé vinstri sinnað framtak. Það þarf auðvitað ekki að vera verra fyrir það. Þetta gæti vel orðið vísir að einhverju meiru.

Minnir að ég hafi einhverntíma látið orð falla um „Þorláksbúð“ þá svokölluðu sem verið er að reisa í Skálholti. Sú bygging fer afskaplega illa svona rétt við hliðina á steinkirkju þeirri sem fyrir er. Þó kannski hafi verið sýndur yfirgangur og frekja við þá byggingu afsakar það á engan hátt þann djöfulgang sem nú er hafður í frammi.

Ögn gáfulegri eru þær hugmyndir sem sagt er frá á mbl.is http://www.mbl.is/frettir/innlent/2011/11/15/midaldakirkja_risi_i_skalholti/ um miðalda-ferðamannakirkju sem kannski verður einhverntíma reist spölkorn frá núverandi kirkju í Skálholti. Annars finnst mér kirkjur vera nógu margar á þessu svæði og óþarfi að fjölga þeim. Vonandi verður samt ekki jafnmörgum milljörðum fleygt í þessa ferðamannakirkju og voru látnir elta hvern annan í Hörpunni. Annars er það mikilfenglegt hús sem með tímanum gæti orðið okkur Íslendingum til álitsauka þó dýrt hafi verið.

IMG 7093Er þetta eftir loftstein, eða hvað?


1532 - Það er nefnilega það

Scan584Gamla myndin.
Malarbingur. (Í Reykjavík væntanlega)

Ég skal segja þér af hverju þú ert að gera rétt með því að lesa bloggið mitt eins og þú ert að gera núna. Hér er þó a.m.k. hægt að hætta. Þetta er nefnilega ekki framhaldsblogg. Ef þú lætur glepjast til að fara að lesa heila skáldsögu að ég tali nú ekki um krimma þá getur þú búist við að verða hálfbundin yfir þessum ómerkilegheitum í marga daga. Sumir eru kannski fljótlesnir og bruna yfir bækurnar á flettihraða, en ekki allir. Sumir lesa hægt og varlega. Höfundurinn gerir allt sem hann getur til að gera bókina spennandi. Þannig gerir hann þér erfiðara fyrir að hætta. Þannig er því ekki varið með blogg. Þau taka enda. Jafnvel mjög fljótt. Svo er alltaf hægt að telja sjálfum sér trú um að fleiri almennileg blogg séu ekki til.

Auðvitað veit ég ekkert hvað gerist í næstu kosningum. Margt bendir samt til að fylgi flokkanna (fjórflokksins) verði svipað og fyrir Hrun. Hins vegar hreinsist þeir vonandi að mestu af þinginu sem þar sátu þegar Hrunið varð. Vinstri grænir líka. Írinn sem var hjá Agli í Silfrinu á sunnudaginn var ágætur og svo ætlar hann að fara að vinna hér. Reiðin, hefndarhugurinn og uppgjöfin mega ekki ráða öllu. Hér þarf að taka til hendinni. Nú ætti að vera tækifæri fyrir þekkta og heiðarlega menn með lítil sem engin tengsl við fjórflokkinn að krækja sér í auðfengin völd. Kannski vilja þeir það ekki og þá má búast við að endirinn verði sá að við sitjum upp með sömu fáráðlingana og áður.

Það eru þrjú mál sem ég þarf helst að minnast reglulega á hér á blogginu mínu. Fyrst er að telja „Sögu Akraness-málið“. Ég er nefnilega búinn að minnast svo oft á það að ég verð eiginlega að halda því áfram. Kannski er það samt í óþökk Hörpu Hreinsdóttur sem bæjarstjórinn og fleiri eru greinilega að reyna að þagga niður í. Hitt er „Kögunarmálið“, en Teitur getur alveg séð um það sjálfur. Það liggur við að maður sé farinn að vorkenna Gunnlaugi greyinu. Man ómögulega hvað það þriðja er. Kannski það hafi bara verið biskupsmálið. Líklega er það samt að leysast fyrst Karl ætlar að hætta fljótlega.

Fór í kvöld á jólahlaðborðið hjá Húsasmiðjunni sem Jens Guð mælti með. Það var alveg ágætt þó hvorki væri þar hangikjöt né reyktur lax. Heldur ekki neinir eftirréttir enda kostaði það ekki nema 1200 og eitthvað krónur. Fer jafnvel aftur þangað fyrir jólin.

Þetta átti að verða stutt blogg og auðvelt að hætta í tíma, en það er erfitt að hætta að skrifa þó vonandi komi dagur eftir þennan dag.

IMG 7088Bensínsala.


1531 - Að eldast og gleymast, það er lífsins saga

Scan578Gamla myndin. Blokkir í Reykjavík.

Stundum þegar ég fer inn á fésbókina sé ég að einhverjir fésbókarvina minna eiga afmæli. Oft er ég í vafa um hvort ég eigi að óska þeim til hamingju með það eða ekki. Suma finnst mér ég þekkja þó ég þekki þá svosem ekki neitt. Öðrum hef ég kannski unnið með í fyrndinni og kannast e.t.v. eitthvað við og sumir lenda alls ekki í síunni hjá mér. Allar þessar lækanir, endalausa hamingja og vinátta á fésbókinni fer líka öfugt í mig, því ég er svo fúllyndur.

Druslubækur og doðrantar ( http://bokvit.blogspot.com/ ) er vefsetur sem ég kíki stundum á. Karlmenn eru nefnilega oft svo hátíðlegir og snobbaðir þegar þeir minnast á bækur. Konurnar sem standa að að Drusluvefnum eru fjórtán. Sennilega bara til að vera ekki þrettán. Alveg gæti ég hugsað mér að skrifa greinar um bækur sem ég les. Les alls ekki svo fáar. Mest gamlar þó. Tími nefnilega aldrei að kaupa þær nýjar. Panta helst ekki á Bókasafninu heldur því það kostar peninga líka. Já, ég er samansaumaður, líka í áhugamálunum. Það kostar ekkert að blogga. Þessvegna blogga ég.

Auðvitað gæti ég skrifað eitthvað bölvað rugl. En það væri áhætta. Ég vil ekki sýnast ruglaður. Allt fyrir útlitið. Alltaf að sýnast. Sýnast betri en maður er. Enginn er eins góður og hann heldur. Sumir eru samt nokkuð góðir. Það er vandasamt að raða orðum. Þau mega ekki vera í alltof föstum skorðum. Þannig er það bara. Ekki get ég gert að því. Ef ég gæti það væri ég einhver annar. Um að gera að hafa þetta þrugl ekki of langt. Þá gætu lesendur fengið leið á að lesa bloggið mitt eða a.m.k. þessa grein.

Að blogga er eins og að skrifa fyrir skúffuna. Það gerðu margir í gamla daga. Stundum týndist innihaldið úr skúffunni. Kannski týnist bloggið ekki. Jafnvel síður en fésbókarþruglið. Er skúffan þá fyrir afkomendur og eftirkomendur? Hugsanlega. Það er hægt að setja myndir, skrif og ýmislegt fleira í hana. Ekki samt hluti eins og hægt væri að setja í skókassa. Svo er þessi skúffa ógnarstór. Það er líklega helsti gallinn á henni. Hún er svo stór að kannski nennir enginn að gramsa í henni þegar þar að kemur.

Helsti gallinn við það að verða gamall er sá hvað manni verður lítið úr verki og er lengi að öllu. Það líða stundum heilu dagarnir án þess að maður geri nokkuð af viti. Auðvitað getur verið að ég hreyfi mig bara svona hægt. Undarlegt að vera orðinn gamalmenni. Að sumu leyti er það samt ágætt. Ábyrgðarleysið, skilningsleysið og bjargarleysið er þægilegt ef maður ýkir það hæfilega. Verst með jafnvægisleysið. Get jafnvel skilið Júlla bakk sem stundum náði sér ekki af stað nema með því að bakka fyrst um nokkur skref.

Allir eru sérfræðingar í einhverju. Horfði áðan á endursýningu í sjónvarpinu. Þar var verið að sýna sérfræðinga í því að byggja hús uppi í trjákrónum. Kannski er ég sérfræðingu í bloggi. Legg líka meiri stund á það en flestir. Blogga næstum alltaf daglega og á erfitt með að hætta.

Yfirleitt er pólitíkin leiðinleg. Það skemmtilegasta við hana er að bíða eftir því að eitthvað gerist. Get varla beðið eftir þvi að Hanna Birna ýti Bjarna Ben. úr Engeyjarstólnum. Samt gæti það orðið vatn á myllu sjálfstæðisflokksins. Held þó að ekki verði hægt að spá neinu um næstu kosningar fyrr en framboðin eru fram komin.

Birgitta Jónsdóttir þingmaður hreyfingarinnar og dóttir Bergþóru sem er í hausmyndinni hjá mér er af bandarískum stjórnvöldum látin standa við smáa letrið. Stjórnvöld þar vildu semsagt kíkja í twitterskjölin hjá henni og Twitter-fyrirtækið hafði athugað að starfa eins og stjórnvöldin í Guðs eigin landi vildu.

Margir sem nýlega hafa kynnst töfrum stafrænu tækninnar gera sér ekki grein fyrir því að fundir í Öskjuhlíðinni eru besta formið ef verið er að skipuleggja eitthvað sem leynt á að fara. Auðvitað finnst mörgum æskilegast að allt sem nútildags er gert með stafrænni tækni sé jafnvel verndað og hinn mörg hundruð ára gamli sniglapóstur.

Svoleiðis er það bara ekki. Netið og farsímarnir eru samt að breyta heiminum. Byltingarnar í Norður-Afríku eru að mörgu leyti afsprengi tæknibyltingunnar sem gengið hefur yfir heiminn að undanförnu.

Þetta með vírusana og MacIntosh tölvurnar er skiljanlegt. Markaðshlutdeild makkanna er á heimsvísu verulega miklu minni en pésanna þó svo sé ekki hér á landi. Hvern langar að skrifa vírusa fyrir sjaldgæf stýrikerfi? Já, ég var pésamaður þegar þau trúarbragðastríð geisuðu.

Djöfull skrifa ég alltaf mikið. „Þetta er ekki einlægur andskoti“ eins og Mummi Bjarna sagði einu sinni. En nú er hann dáinn blessaður eins og á víst fyrir okkur öllum að liggja. Hann sagði líka einhverju sinni við mig: „Skelfing ertu heimspekilegur um hausinn“. Þá var ég nefnilega óklipptur eins og oft er. Þetta sýnir bara að hann hafði skilning á stuðlum. Ég ætlaði ekkert að skrifa um Mumma. Þetta var alveg óvart. Fór ekki einu sinni í jarðarförina hans. Þóttist víst vera að gera eitthvað annað. Svo hef ég ekkert gaman af jarðarförum. Safna þeim ekki eins og sumir.

IMG 7075Auðbrekka útum glugga.


1530 - Skák og fjárhættuspil

Scan563Gamla myndin.
Reykjavík.

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins um aðra helgi gæti orðið spennandi. Hætt er samt við að fáir hafi áhuga á öðru en formannskjörinu. Mér finnst Hanna Birna sigurstranglegri þar þó talandinn í henni minni mig alltaf á vélbyssu. Sagt er að DOddsson styðji Bjarna Benediktsson og ég veit ekki hvort það er styrkur. Kannski endurspeglar sá stuðningur eitthvað afstöðuna til ESB. Gæti trúað að stuðningsmönnum Hönnu Birnu finnist nauðsynlegt fyrir flokkinn að sætta sjónarmiðin í því máli. Svo er hún ný en Bjarni óttalegur vindhani og brennimerktur Hruninu að auki. Hún er að vísu reynslulaus en það þarf ekki endilega að vera veikleiki.

Stjórnmálin eru skemmtileg. Einkum þegar um er að ræða baráttu um formennsku í fjórflokknum. Vandræðagangurinn sem varð í sjálfstæðisflokknum þegar leitað var að „stól fyrir Steina“ um árið gæti sem best endurtekið sig. Þó er svo margt breytt núna að hugsanlegt er að svo verði ekki þó Hanna Birna vinni sigur. Ef hún tapar er alls ekki víst að hún sé þar með úr sögunni sem framtíðarleiðtogi.

Rauðhærði unglingurinn úr Grafarvoginum Hjörvar Steinn Grétarsson verður næstum örugglega næsti stórmeistari okkar Íslendinga í skák. Hann náði afar glæsilegum og góðum árangri í Evrópukeppni landsliða í Grikklandi sem nú er að ljúka. Náði tvöföldum stórmeistaraárangri og er líklega kominn með um 2470 stig. Til þess að verða útnefndur stórmeistari þarf hann einn áfanga í viðbót og að rjúfa 2500 stiga múrinn. Verður líklega ekki skotaskuld úr því. Hélt satt að segja að Hjörvar væri ekki orðinn svona gríðarlega sterkur en hef samt lengi vitað að hann væri efnilegasti skákmaður okkar Íslendinga. Sennilega byrja nöfn flestallra okkar bestu skákmanna á H. Hannes, Henrik, Héðinn, Hjörvar og Helgi. Fróðlegt verður að sjá hvernig næsta Ólympíusveit verður skipuð.

Rætt er um að banna fjárhættuspil á netinu. En til að hægt sé að banna slíkt verður að vera til trúverðug aðferð við að framfylgja slíku banni. Spilafíkn er vaxandi vandamál bæði hér á landi og víða annarsstaðar. Ég er alfarið á móti spilafíkn en þykist skilja hana nokkuð vel. Sé núna að kannski er ég svona mikið á móti fésbókinni vegna þess að þar grasserar happdrættis- og auglýsingamennskan í like-formi sem hvergi annarsstaðar.

En hvernig á að framfylgja banni við fjárhættuspili á netinu. Hægt er að fylgjast með netnotkun fólks en slíku held ég að ekki sé hægt að koma á hér á landi frekar en hægt sé að fylgjast með því sem sagt er í síma. Mögulegt er að leyfa greiðslukortafyrirtækjum að banna viðskipti við þau fyrirtæki sem stjórna fjárhættuspili á netinu þar sem það er leyft. En þá er mögulega komið inná pólitískt jarðsprengjusvæði og bann greiðslukortafyrirtækjanna við að miðla greiðslum til WikiLeaks e.t.v. orðið löglegt.

Gamla myndin sem ég birti um daginn og kallaði „Á þjóðhátíð“ vakti svolitla athygli. Þetta var þann 10. nóvember s.l. Hún vakti líka athygli þegar Bjarni sonur minn birti hana á fésbókarsíðu sinni 17. júní s.l. eins og sjá má á þeim sagnfræðilegu úrklippum sem  hér birtast:

fésbók a.jpg

fésbók b.jpg

IMG 7060Girnileg reyniber.


1529 - Bókatíðindi, klámvísa dagsins o.fl.

Scan557Gamla myndin.
Austurstræti.

Klámið er að sjálfsögðu aftast í þessari bloggfærslu. Ef þú ert kominn hingað þess vegna þá er rétt að minna á að ég kann eða kunni a.m.k. einu sinni urmul af klámvísum. Á meira að segja einhvers staðar bækur um þetta efni þó ég viti ekki nákvæmlega hvar þær eru. Annars skrifa ég yfirleitt bara um það sem mér dettur í hug. Jafnvel þó það sé ekki í samhengi við vinsælustu umræðuefnin í bloggheimum.

Sigurður Hreiðar skrifaði nýlega um kaffi á sitt blogg. Trúr þeirri hugsjón minni að ekki skuli eyða sæmilegu bloggefni í athugasemdir datt mér í hug að þegar ég vann hjá Silla og Valda á Hringbraut 49 í gamla daga möluðum við kaffi allan liðlangan daginn og fólk kom úr öðrum bæjarhlutum til þess eins að kaupa kaffi hjá okkur. Fljótlega komust kúnnarnir upp á lag með að þreifa á pokunum ef kvörnin var ekki í gangi. Væru pokarnir heitir eða volgir viðkomu var kaffið nýmalað. Þeir kostuðu 37 krónur stykkið og í þeim voru 250 grömm.

Bókatíðindin eru komin hér á heimilið. Þeim þarf ég að fletta svolítið og kannski lesa. Vel getur það orðið til þess að bloggið mitt verði í styttra lagi að þessu sinni. Þó brotið á þessari bók sé ávallt eins er hún sífellt að verða þykkari og þykkari. Auðvitað er það galli. Ég á líka í vaxandi erfiðleikum með að gera mér grein fyrir því hvaða bækur af þeim sem fjallað er um í ritinu eru raunverulega nýjar. Endurprentanir, nýtt og breytt band, örlítið breyttar útgáfur, auglýsingar og hvers kyns skrum fer mjög vaxandi. Auglýsingarnar eru greinilega orðnar þungamiðja ritsins. Ugglaust tekst þó nú eins og venjulega að hefja ritið yfir venjulegan ruslpóst. Líklega fer áhrifamáttur þess samt þverrandi. Ef í ritinu væri eingöngu smá umfjöllun um allra nýjustu bækurnar og ekkert annað væri það mun betra.

Grasrótarsamtökin sem Rakel Sigurgeirsdóttir ásamt öðrum hefur skrifað mikið um á blogg og fésbók eru allrar athygli verð. Sturla Jónsson lætur einnig þar í sér heyra, skilst mér. Þessi samtök hafa aðsetur að Brautarholti 4 að ég held og voru heimsótt um daginn af forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni. Hagsmunasamtök heimilanna, Occupy Wall Street samtökin og jafnvel Hörður Torfason virðast vera á líku plani.

Því miður er ekki annað að sjá en öll þessi samtök hafi fremur þröng áhugasvið þó í orði kveðnu viðurkenni þau það ekki. Þau reyna að höfða til sem flestra en taka alltof pólitíska afstöðu í flestum málum. Þannig fæla þau fólk frá þátttöku sem e.t.v. gæti hugsað sér að styðja þau. Helst er að sjá að starfsemin hvíli á allt of fáum og ekki er hægt að varast þá hugsun að þeir sem þar hafa hæst séu einkum að hugsa um eigin hag.

Stjórnmálasamtökin sem fyrir eru í landinu eru líka búin að læra á samtök sem þessi og reyna eftir megni að gera starfsemi þeirra sem erfiðasta. Fyrst eftir Hrunið árið 2008 voru allir hálflamaðir og fjórflokkurinn líka. Nú er andstaðan skipulegri.

Þau samtök fólks sem mynduðust nokkuð fljótt í árslok 2008 og héldu fundi sína á Austurvelli síðdegis alla laugardaga undir stjórn Harðar Torfasonar voru ekki þannig. Þeir sem þangað komu voru alls ekki að láta á sér bera, heldur aðeins að styðja þá einu kröfu sem þar var sett á oddinn, nefnilega að ríkisstjórnin sem þá var færi frá.

Þau samtök sem nefnd eru hér að framan og eflaust fleiri hafa alls ekki komið sér saman um eina meginkröfu og þess vegna er árangur þeirra ekki eins mikill og margir virðast vilja. Gerjun öll í pólitísku starfi er samt heilmikil og auðvitað getur þetta breyst snögglega.

Brjánn Guðjónsson (Brian Curly á fésbók) segir í athugasemd hjá mér:

Ég er nefnilega svo til hættur að logga mig hingað inn eftir að blog.is varð ósýnilegt umheiminum nema þeim sem leita það uppi.

Þetta er merkilegt. Ég vil ekkert endilega vera ósýnilegur. Kannski ég fari að reyna að linka í fréttir á mbl.is. Mér skilst að það sé nokkuð vinsæll vefur ennþá.

Klámvísa dagsins. Veit ekki eftir hvern hún er. Höfundurinn er líkast til svolítið bókmenntalega sinnaður samt eins og ég.

Eina bók á Auðargná.
Er sú fæstum boðin.
Spennslalaus og spjaldafá
og spássían er loðin.

IMG 7058Er gámatan betra en annað tan?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband