Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008
3.11.2008 | 00:21
498. - Krepputali lokið í bili. Held þó áfram ef tilefni gefst
Er ekki kvótinn margumræddi samt alveg að verða ónýtur sem umræðuefni? Nota hefði átt tækifærið um daginn til að gera eitthvað krassandi. Þá var kallinn á Suðurnesjum, sem fiskaði víst í óleyfi, í fréttunum dag eftir dag og lögreglunni var greinilega hálfilla við að vera að jagast í honum en neyddist til þess.
Ja, nú er það svart maður. Prins póló að klárast.
Menn nota ýmis ráð í kreppunni til að auglýsa sig. Þetta með prins pólóið er nú eitt það sniðugasta.
Ja, nú er það svart maður. Allt orðið hvítt, sagði fjárleitarmaðurinn um morguninn þegar hann kom útúr tjaldinu og sá að snjóað hafði um nóttina.
Nú er Gurrí að færa sig af Moggablogginu á DV bloggið. Það hafa nú fleiri gert og flestum leiðst þar hefur mér sýnst. Bíð bara eftir að mér verði boðið að flytja á Moggabloggið. Assgoti verður gaman að segja nei. Kannski bjóða þeir peninga fyrir flutninginn. Nei annars. Hvar ættu þeir að fá hann?
Hef alltaf gaman af að lesa athugasemdirnar sem ég fæ við bloggið mitt. Afar sjaldan eru þær svo neikvæðar að ég hrökkvi við. Samt kemur það fyrir og slíkar athugasemdir eru oftast nafnlausar. Ég svara þó ekki athugasemdum sem ég fæ nema mér finnist einhver sérstök ástæða til þess. Oftast væri samt alveg ástæða til að þakka fyrir þær en ég er svo latur að ég nenni því ekki.
Eftir því sem maður skrifar meira því meira á maður óskrifað. Þetta er nú eiginlega bara að segja það með öðrum orðum að æfingin skapi meistarann. Mér er minnisstætt að þegar við gáfum út Borgarblaðið i Borgarnesi og ákváðum að hafa það alltaf að minnsta kosti sextán síður að við vorum að velta fyrir okkur hvernig okkur gengi að fylla blaðið af efni. Áður en langt um leið voru samt farnar að safnast upp greinar hjá okkur.
Ég hugsa að ég eigi einhvers staðar niðri í kjallara öll tölublöðin sem út komu af Borgarblaðinu. Kannski maður ætti að skanna þau og setja á netið. Varla gera aðrir það.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.11.2008 | 00:37
497. - Við ætlum að sitja meðan sætt er segir Ingibjörg Sólrún
Að sjálfsögðu ætlum við að sitja í þessari ríkisstjórn út kjörtímabilið sagði Ingibjörg Sólrún. Hún hefði frekar átt að segja fram að næstu kosningum. Ég held að það séu fáir sem reikna með að þessi ríkisstjórn lafi út kjörtímabilið enda er engin ástæða til þess. Að ráðherrar ríkisstjórnarinnar ráði því hve lengi hún situr er auðvitað fráleitt.
Séu þingmenn á Alþingi Íslendinga ekki algjörlega geðlausir verða þeir löngu fyrir 2011 búnir að gera upp hug sinn varðandi þessa ríkisstjórn og losa sig við hana. Verði þeir sjálfir svo hræddir um áframhaldandi setu sína á Alþingi að þeir þori ekki að gera neitt verður ákvörðun um framhaldið tekin fyrir þá.
Þetta laumuspil hjá landsfeðrunum er óþolandi. Allra fyrst eftir að ósköpin dundu yfir var kannski skiljanlegt að menn væru dálítið ruglaðir. Nú er kominn mánuður og engin ástæða til að láta svona lengur. Ráðamenn virðast þó gera ráð fyrir að aðrir séu heimskari en þeir. Allt sem til stendur að gera á skilyrðislaust að kynna fyrir öllum og sömuleiðis eiga upplýsingar um það sem gerst hefur að vera aðgengilegar öllum.
Iss segi ég nú bara varðandi hávaðann sem er að verða útaf fjölmiðlunum. Þeir mega allir fara á hausinn mín vegna. Ekki sé ég eftir þeim. Þegar störf þeirra sem unnu þar verða lögð niður eykst að vísu atvinnuleysið en það er það eina neikvæða sem ég sé við fækkun fjölmiðla. Netið og RUV er alveg kappnóg að hafa. Auðvitað þarf ég samt einhversstaðar að blogga en það ætti ekki að þurfa að kosta mikið. Einhverjar tekjur hljóta þessir sneplar að hafa.
Fyrsta tölvan sem ég eignaðist var Cordata tölva með sambyggðum skjá og tveimur floppy drifum en engum hörðum diski. Harðir diskar voru lúksus í þá daga. Seinna komst ég í tæri við tölvu sem var með tvo 60 megabæta harða diska. Þvílíkt pláss. Maður gat nánast gert það sem manni datt í hug.
Ég er fæddur í konungsríkinu Íslandi. Það er að segja áður en Íslenska lýðveldið var stofnað. Minn kóngur var Kristján tíundi sem fór í reiðtúr á hverjum degi og var afi Margrétar Þórhildar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.11.2008 | 00:11
496. - Evrópubandalagið er nýjasta birtingarmynd heimskommúnismans
Margt og mikið er kjaftað á blogginu. Bæði mínu og öðrum. Mig minnir að ég hafi einhverju sinni sagt hér á blogginu að ég væri mikill stuðningsmaður þess að Ísland gengi í Efnahagsbandalagið meðal annars vegna þess að nær kommúnisma verður varla komist í núverandi heimsskipulagi.
Margir sjá rautt og umhverfast þegar minnst er á kommúnisma en það er bara af því að þeir þekkja hann ekki. Jú, jú. Það er búið að prófa hann og það próf mistókst. Það var bara fólkinu að kenna sem tók hann til handargagns. Ekki kommúnismanum sem slíkum.
Ég er alveg að meina þetta. Auðvitað verð ég sjálfur að skilgreina minn kommúnisma og það er enginn vandi. Auðvaldskreppur koma ekki til með að þekkjast þar og margt fleira verður þar eftirsóknarvert. Davíð fengi ekki að vaða þar uppi en kannski væri hægt að notast við Ömma og Steingrím.
Það er svo skrítið með mig. Ég kann ekkert fyrir mér í matreiðslu þó ég geti búið til hafragraut í örbylgjuofni en ég hef samt gaman af að lesa matarblogg og jafnvel veitingahúsagagnrýni þó ég fari afar sjaldan á svoleiðis staði. Veit afar lítið um veðurfræði en hef gaman af að lesa veðurblogg. Kann lítið í ættfræði og leiðist ættfræðiblogg nema það snerti sjálfan mig á einhvern hátt eða einhverja sem ég þekki. En er ekki íslensk ættfræði einmitt þannig að maður kannast alltaf við einhverja? Óskaplega held ég að útlend ættfræði sé leiðinleg.
Veðurfarsstaðreyndir a la Sigurður Þór Guðjónsson höfða ekki til mín sem skemmtilestur. Þessvegna er það sem ég vil að Sigurður hætti þessum þykjustuleik. Ég veit að hann hefur gaman af að blogga um allt mögulegt og kannski mest gaman af að æsa menn upp. Mig getur hann þó ekki æst upp nema með því að henda mér útaf bloggvinalistanum eins og einu sinni.
En ég er farinn að sakna skrifa hans á blogginu. Þau eru beitt og vel skrifuð. Stundum verður maður þó að gera ráð fyrir að þau séu sett fram í hálfkæringi. Kommentin verða gjarnan svo mörg þegar Jón Valur og fleiri fara að óskapast þar að ég nenni ekki að lesa þau öll.
Hekla gaus síðast í febrúar árið 2000. Þar á undan gaus hún veturinn 1980 og svo skömmu síðar, eða í maí 1981. Hekla gaus einnig árið 1970 en síðasta stóra gos hafði orðið 23 árum...."
Þannig var sagt frá á dv.is í dag í alllangri grein um Heklu gömlu. Ég held að þetta sé mesta vitleysa. Man ekki betur en að þegar ég hætti að reykja um áramótin 1990 og 1991 hafi því verið illa tekið af máttarvöldunum. Stríð braust út í Miðausturlöndum og Hekla fór að gjósa. Já, þannig man ég hlutina. Er hissa á blaðamannsræflinum sem nennti ekki að skoða heimildir eða tala við sér fróðara fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)