Bloggfærslur mánaðarins, september 2007

108. blogg

 

Í kvöld lenti ég fyrir aftan kennslubifreið þegar ég var á leiðinni í vinnuna. Sá sem var að læra var áreiðanlega dálítið stressaður því ekki var nóg með að hann keyrði löturhægt heldur drapst hvað eftir annað á bílnum hjá honum á ljósum þegar hann reyndi að fara aftur af stað. Svo óheppilega vildi til að þessi bíll var á nákvæmlega sömu leið og ég og nánast útilokað að komast fram úr.

Fyrst var ég svolítið pirraður og var að hugsa um að reyna að komast framhjá bílnum þegar þrjár eða fjórar tilraunir til að komast af stað á grænu ljósi höfðu mistekist. Sem betur fer gat ég stillt mig og látið eins og ekkert væri. Allar götur frá Nýbýlavegi og uppá Bæjarháls var ég næsti bíll á eftir þessari kennslubifreið. Það verð ég að segja þeim til hróss sem var að læra á bílinn að undir lokin var hann farinn að taka af stað án þess að drepa á honum.

Horfði í gær á myndina"The great global warming swindle" á Netinu. Þetta er nokkuð athyglisverð mynd og ég held að hún hafi verið sýnd í Ríkissjónvarpinu ekki alls fyrir löngu. Ég horfði ekki á hana þá en mundi eftir nafninu þegar ég rakst á hana á Netinu. Þarna er því haldið fram að alls ekki sé víst að gróðuhúsaáhrifin svokölluðu séu af manna völdum. Það sé ekki einu sinni víst að koltvísýringurinn sé það sem úrslitum ráði um hlýnum jarðar. Annars er ég ákaflega beggja blands um þessi blessuðu gróðurhúsaáhrif. Að sumu leyti minnir þetta mig á fuglaflensuáráttuna í fjölmiðlum um árið. Það er eins og fréttamönnum finnist að það þurfi helst að vera ein frétt um mengun eða eitthvað þess háttar á hverjum degi. Heimsendaspár hafa alltaf heillað fólk.

Eitt sinn var það á Vegamótum um vetur eftir að ég fékk mér Saabinn að hann neitaði að fara í gang. Þegar ég ræddi málið við Einar í Holti kom okkur saman um að langlíklegast væri að vatn hefði frosið einhvers staðar í bensínleiðslum. Einar ráðlagði mér að fá mér bara bensín í lítinn brúsa, setja hann ofan á vélina, leiða úr honum mjóa slöngu ofan í blöndunginn og láta bensín leka þar niður og sjá hvort bíllinn færi ekki í gang við það svo ég gæti keyrt hann niðureftir til sín og hann mundi taka hann inn á verkstæðið.

Allt gekk þetta eftir og hófust nú athuganir á bílnum. Einar athugaði eitthvað undir húddinu og bað mig að prófa að starta bílnum. Ég var svo utan við mig að ég startaði honum í gír og hann hentist dálítið áfram og felldi eitthvað en olli þó ekki miklum skaða. Síðan startaði ég honum aftur og í þetta sinn án þess að hafa hann í gír. Bíllinn rauk í gang en ég drap strax á honum aftur og við Einar vorum að ræða um hve vel þetta hefði gengið og við verið heppnir þegar við tökum allt í einu eftir því að mikill eldur logar ofan á vél bílsins. Húddlokið var uppi en segja má að vélarhúsið hafi verið alelda. Okkur brá náttúrlega heil ósköp og Einar sótti duftslökkvitæki með miklu írafári og sprautaði á eldinn og tókst að slökkva hann á stuttum tíma.

Þegar við vorum búnir að jafna okkur á þessum eldsvoða og blása mesta duftinu í burtu ákvað ég að prófa að setja bílinn í gang þó ég hefði ekki mikla trú á að það tækist. En hann fór strax í gang og ekki var að sjá að svo mikið sem ein einansta snúra hefði skaðast í eldinum.

Sigurður Þór Guðjónsson (nimbus.blog.is) hefur kippt mér útaf bloggvinalista sínum. Kannski finnst honum bloggið mitt bara svona leiðinlegt. Hvað get ég svosem sagt við því. Hann er rithöfundur, spekingur og hugsuður, en ekki ég. Ef til vill taka lesendur mínir ekki einu sinni eftir því að bloggvinalistinn hefur styst. Nú sé ég að það getur verið kostur að hafa langan bloggvinalista og sennilega er réttast að vinda bráðan bug að því að lengja hann svolítið.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband