Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007

72. blogg

Skákhornið er spjallborð þar sem aðallega er rætt um skák. Það er linkur á það hér til hliðar á þessari síðu.

Þarna fara oft fram merkilegar umræður og allmargir virðast skoða reglulega það sem þarna fer fram. Þrír menn eru þar sem skrifa hver öðrum betur um skák en eru því miður alltaf að rífast.

Þetta eru þeir Snorri Bergz, Torfi Stefánsson og Sævar Bjarnason. 

Fleiri láta náttúrlega ljós sitt skína þarna og skrifa margir hverjir ljómandi skemmtilega og margir þeirra blogga líka bæði á Moggablogginu og annars staðar. 
 

Það jákvæða við þessa þrjá sem ég nefndi í upphafi er að þeir rífast langmest hver við annan og láta annað fólk yfirleitt í friði. A.m.k. ef það  abbast ekki upp á þá. 

Ég held að það sé Sigurbjörn Björnsson sem stjórnar umferðinni þarna núna og því er ekki að neita að umræður þarna gerast stundum svo rætnar og persónulegar að nokkrum sinnum hefur þurft að útiloka menn frá frekari umræðum.  

Svo er eitthvað þarna líka sem heitir Gjallarhornið og þar er einkum rætt um knattspyrnu. Ég er nú að mestu leyti hættur að nenna að lesa það sem þar er skrifað enda eru menn þar svo yfirgengilega fróðir um knattspyrnu (þó skákmenn séu) að það er ekki fyrir venjulegt fólk að fylgjast með. 

Í skákfréttum er það helst að Friðrik Ólafsson mun taka  þátt í skákmóti í Hollandi í ágúst n.k. Þetta er lokað mót að ég held og meðal þátttakenda er Oscar Panno og svo eittthvað af yngri meisturum. 

Já og svo er  það náttúrlega Kaupþing Open í Luxemburg sem ég hugsa að ég fylgist mest með á blogginu hans Snorra.

Merkilegt hvað íslenskir fjölmiðlar segja lítið frá skák og það í gúrkutíðinni miðri. Frekar vilja þeir skrifa um einskisverða hluti ef þeir mögulega finna eitthvað slíkt. Öðruvísi mér áður brá.  

Annars er mikið hægt að finna um skák á Netinu ef vilji er fyrir hendi. Ef leitað er að íslensku efni er líklega best að byrja á skak.is 

Eitthvað minntist ég á kajakbrjálæðinga í síðasta bloggi. Það minnir mig á að Guðrún og Guðmundur voru einhvern tíma í mesta sakleysi að ganga í mannlausri fjörunni í Fljótavík þegar kajakfólk birtist þar skyndilega og óforvarendis. 

Þetta minnir mig að Guðrún hafi sagt mér. Guðmundur sagði mér líka söguna af því þegar hann veiddi silung handa fjölda manns sem var þar í gönguferð. Hjálpaði þeim síðan við að sjóða hann og spilaði að lokum fyrir þau á harmonikku. Þetta allt var þó aukageta við aðalstarfið sem var  að dytta að skálanum. 

Já, Fljótavíkurferðin, hún var um margt eftirminnileg og hefði mátt skrifa langa og ítarlega ferðasögu um hana. Ekki verður það þó gert hér og nú, en hver veit nema ég eigi eftir að minnast oftar á hana.   

Talaði í dag við Vigni og hann hafði góð orð um það að sjá um parkettlagningu á íbúðina hjá Benna. Vel er hugsanlegt að úr þessu verði um næstu helgi.


71. blogg

Ég les aldrei gömlu bloggin mín og finnst eins og ég sé stundum að endurtaka mig. Óþægileg tilfinning.

Ég ætla þess vegna ekkert að vera að skrifa um það sem ég skrifa oftast um.

Ég hef svo gaman af að snúa við máltækjum að kannski halda sumir að ég sé svona vitlaus. T.d. segi ég aldrei að það sé betra að hafa vaðið fyrir neðan sig, heldur fyrir ofan. Ég segi miklu frekar þar kom horn úr hljóði, en þar kom hljóð úr horni. Ég segi líka alltaf það er ekki hundur í hættunni þó ég viti að það sé réttara að segja hundrað í hættunni (en hverslags hundrað er þetta eiginlega? - er þetta "game" i bridds eða hvað?)

Hér ætlaði ég að setja sögu um einhverja endurminningu sem tengdist vel þessum inngangi en nú man ég hana ekki lengur - árans.

Ágætis blogg er bloggið hans Snorra Bergz. (hvala.blog.is) Hann er núna staddur á skákmóti í útlöndum ásamt fleiri Íslendingum og ég er að hugsa um að fylgjast með því sem þar gerist.

Verst með svona fylgingar að ég gleymi stundum að halda þeim áfram eins lengi og skyldi. T.d.  ætlaði ég fyrir nokkrum árum endilega að fylgjast með bloggi fólks sem reri umhverfis Ísland á kajökum og var það talið í fyrsta sinn sem slíkt var gert. Svo missti ég af endinum en held að þetta hafi tekist og að nú sé Ísland orðið eftirsótt af öllum kajakbrjálæðingum heimsins.

Mér sýnist á teljara þeirra Moggabloggsmanna að lesendum mínum sé jafnvel að fjölga. Kommentum fjölgar þó ekki. Eiginlega eru þau nokkuð fá. Hæ, þið sem lesið, þið megið alveg kommenta. Ég held að allir geti það - hvort sem þeir eru Moggabloggsmenn eða ekki. Jafnvel Stefán Pálsson gæti kommentað hérna - eða ekki veit ég betur.

Ég vil taka það fram svo það valdi ekki misskilningi að þessar sífelldu skiptingar milli feitletrana og ekki feitletrana og þess háttar er ekki runnið undan mínum rifjum. Þetta eru prívat-samskipti milli word-sins sem ég nota og þeirra Moggabloggsmanna.

 

Jói fór í aðgerð á hné á föstudaginn, en hún tókst ekki alveg sem skyldi því í fyrrinótt fór að blæða úr sárinu. Ég veit ekki hvort það bendir til þess að aðgerðin takist kannski ekki eins vel og vonast var eftir. Það kemur þó allt í ljós.

Nú fer að styttast í að Bjarni flyjist alfarinn af landinu. Þetta verður gríðarleg breyting fyrir hann og auðvitað fyrir okkur líka. Í gegnum Internetið munum við þó eflaust halda sambandi við hann, en það er ekki það sama og að hann sé hér sjálfur.


70. blogg

Skelfing er fjölmiðlavællinn leiðinlegur og fyrirsjáanlegur. Ef það er ekki Bjarni Guðjónsson og vafasamt mark þá er það einhver hundur á Akureyri. Mér finnst þeir bloggarar setja niður sem sífellt eru að linka í fréttir og skrifa varla um annað en það sem er í fréttum á mbl.is.

Það áhugaverðasta sem ég hef séð að undanförnu er ásökun "púka" (Friðriks Skúlasonar) á hendur Istorrent um þjófnað á hugbúnaði. Hann skrifar á bloggið sitt greinina "Istorrent glæpagengið" og það er fróðlegt að lesa þá grein og kommentin sem henni fylgja. Kannski skrifa fjölmiðlarnir eitthvað um þetta mál seinna meir.

Ég hef áhuga fyrir öllu sem tengist höfunarréttarmálum. Ég kynntist þessu svolítið þegar við vorum að gefa út efni á vegum Netútgáfunnar. Þessi hugmynd um að greiða fyrir eitthvað óefnislegt er sumum framandi en er þó undirstaða margs. Stórfyrirtæki hafa misnotað þetta og víða er svo komið að almenn andstaða er við græðgi þeirra.

Eðlilegt er að Friðriki Skúlasyni sárni að menn séu að stuðla að því hér á landi að hugverk hans séu afrituð án leyfis, en það skilst mér að hann sé að ásaka þá Ístorrent menn um. Samt er það svo að það ætti ekki að skipta máli hvort stolið er frá Íslendingi eða útlendingi.

Í vinnunni get ég ekki sett vefföng í bookmark. Það er eitthvað í kerfinu sem leyfir það ekki. Heima get ég þetta að sjálfsögðu en nú hefur mér dottið nýtt í hug. Ég set þau vefföng sem ég nota mikið bara undir ýmislegt á blogginu mínu. Þá geta þeir sem sem það lesa, líka séð hvert ég er vanur að fara á Netinu. Mest er nú samt gaman að skoða Moggabloggin bara svona óbundið og stefnulaust.

Hér er t.d. frábær setning sem ég fann áðan á flandri mínu um víðáttur Moggabloggsins:

"það getur verið fínt að búa þarna og alt í ameriskum stöðlum, en þá þarf að opna aftur Navy-Exchange búðina, svo maður getur kauft ameriska kaffivél."

Óborganlegt.


69. blogg

Eitt er það blogg sem ég fylgist vel með um þessar mundir, en það er bloggið um motorhjóla-heimsreisuna (sverrirt.blog.is). Mæli með því.

 

Bjarni fékk tilboð í dag í íbúðina uppá 14,5 milljónir.  Líklega tekur hann því.

Sumir líta að ég held á knattspyrnu sem leik. Svo eru menn eins og Guðjón Þórðarson sem líta á þetta allt saman sem dauðans alvöru. Það getur orðið erfitt að brúa það bil.

Þetta með markið á Skaganum í gærkvöldi finnst þetta fremur ómerkilegt atvik og fjölmiðlasirkusinn í kringum það með ólíkindum. Næstum því eins og með hundinn um daginn. Er gúrkan svona gríðarleg hjá miðlunum, eða hvað?

 

Undarlegt hvað það er gaman að blogga. Ég get bara ekki stoppað. Gallinn við að skrifa eitthvað merkilegt er einkum sá að maður veit ekki fyrr en eftir dúk og disk hvort skrifin hafa heppnast eða ekki. Oftast sennilega ekki.

Sé bloggað er hægt að skrifa fjandann ráðalausan, fara lítillega yfir bullið, láta allt gossa og gleyma því svo.

Ótvíræður kostur við bloggið er að maður getur vaðið úr einu í annað. Jafnvel í sama blogginu. Ef þetta væri eitthvað merkilegt þyrfti maður helst að liggja yfir því dögum saman og nostra endalaust við textann. En hann verður hvort sem er aldrei fullkominn svo best er að láta hann bara flakka sem fyrst.

Blogg getur svosem bæði verið merkilegt og ómerkilegt. Nú til dags er orðið svo mikið af því að líklega verður bráðum fátt sem ekki er bloggað um. Margir einbeita sér að því að blogga um eitthvað ákveðið og er það skiljanlegt. En hvernig á að auglýsa sig? Ég hugsa að leitarþjónustur eins og gúglið komi til með að verða æ  mikilvægari eftir því sem tímar líða.

Mitt motto er að blogg skuli helst ekki vera nema ein blaðsíða í wordinu mínu og nú er því náð svo.....


68. blogg

Skrugga heitir það þegar geri, vatni og sykri er blandað saman og það látið gerjast. Sumir kalla þetta gambra og þetta er aðalhráefnið í landa.  

Einu sinni kom í heim til Bjarna í Kaupfélaginu. Þá sýndi hann mér  að hann var búinn að gera sér skruggu í kút sem hann hafði sett upp á háaloft. Svo sýndi hann mér stoltur hvernig hann hafði lagt slöngu upp í kútinn þannig að þegar hann vantaði skruggu þá þurfti hann bara að sjúga slönguna. Frábær uppfinning.   

Ég held reyndar að hann hafi aldrei komist svo langt að sjóða skrugguna. Hún hafi yfirleitt verið búin löngu áður en kom að því. Sjálfur hef ég lent í því sama. Það er svoddan vesen að koma sér upp suðugræjum að það borgar sig eiginlega ekki. Miklu sniðugra að drekka bara skrugguna eins og hún kemur fyrir þó hún sé ekki sérlega góð á bragðið.  

En ef tala á um bragðgott brugg þá mæli ég með að brugga létt vín úr þar til gerðri saft. Sjálfur hef ég gert svolítið af því og  tekist ágætlega. Líka bruggað úr krækiberjum, bláberjum og aðalbláberjum og gengið vel. Það eru nokkrar verslanir hér í höfuðborginni sem selja eingöngu efni í svona lagað. Heimabruggun er eflaust nokkuð algeng, samt er hún aldrei talin með þegar reiknuð er út áfengisneysla Íslendinga.  

Áslaug og Bjarni fóru í “garden party” hjá Kiddý í dag (miðvikudag) um fimmleytið. Jói og Hafdís og ýmsir fleiri voru væntanlegir þangað, en ég gat ekki farið því ég þurfti að fara í vinnuna um hálfsex leytið.  

Á föstudaginn í síðustu viku fékk Benni íbúðina sína að Helluvaði 15 afhenta og sama dag og morguninn eftir fluttum við allt úr geymslunni úti í Garðabæ. Það var síðan um helgina sem Benni flutti  upp í Norðlingaholt og við Áslaug heimsóttum hann þangað á sunnudagskvöldið og Áslaug færði honum steinamyndina sem pabbi hennar gerði.  

Það eru þónokkuð margir búnir að koma að skoða íbúðina  hjá Bjarna og  mér skilst að í dag hafi  komið eitt tilboð upp á  13  milljónir. Það er síðan í byrjun ágúst sem hann fer alfarinn til Bahama.


67. blogg

Þegar Bjarni í Kaupfélaginu (Bjarni Sigurðsson frá Haukadal, sonur Sigurðar Greipssonar skólastjóra og kennara við Íþróttaskólann þar) tók að sér ruslahreinsunina í Hveragerði breyttist margt í þeim málaflokki.  

Áður hafði þetta verið unnið þannig að fenginn var á leigu vörubíll og vinnuflokkur frá hreppnum ók síðan með honum um þorpið og tók ruslatunnurnar við húsin og raðaði þeim á bílpallinn og merkti þær. Síðan var farið með tunnurnar á öskuhaugana og þær losaðar þar og síðan ekið með þær að húsunum aftur. Þetta tók gjarnan einhverja daga. 

Á þessum tíma tíðkaðist að menn bjuggu til sínar ruslatunnur sjálfir. Flestir gerðu það með því að taka  botninn (þann með sponslokunum) úr  200 lítra olíutunnu og höggva nokkur göt á hliðar tunnunnar með viðarexi eða skarexi. Það var gert til að betur brynni í tunnunni því langflestir tíðkuðu það að kveikja í ruslinu, enda var ekki búið að finna upp hugtakið mengun þegar þetta var. 

Sumar tunnur voru reyndar svo fínar að ekki þótti viðeigandi að gera þær að ruslatunnum. Ég man t.d. eftir einni sterklegri hálftunnu með voldugum megingjörðum sem lengi var til heima og við krakkarnir stunduðum mjög að ganga á. Það þótti ágæt íþrótt á þessum tíma að geta staðið á tunnu sem var á hliðinni og látið hana velta áfram án þess að missa jafnvægið og þurfa að hoppa niður af henni. 

Þegar Bjarni tók að sér sorphreinsunina í þorpinu samkvæmt tilboði (að ég held) byrjaði hann á því að kaupa sér vörubíl og setja á hann há skjólborð. Þegar hreinsa skyldi sorp fékk hann svo tvo til þrjá stráka í lið með sér (ég var stundum í þeim hópi) og ók síðan eins og eldibrandur um þorpið og þegar hann kom að íbúðarhúsi þaut hann út úr bílnum greip ruslatunnuna sem þar var og þeytti henni upp á bílpall og hélt síðan áfram að næsta húsi. Á pallinum voru strákar sem áttu að sjá um að losa tunnuna og henda henni síðan aftur af pallinum. Einn strákur rölti síðan á eftir bílnum og setti tómu tunnurnar aftur á sinn stað. 

Við síendurteknar íkveikjur fóru tunnurnar sjálfar á endanum að láta á sjá og stundum kom fyrir að tunnuvesalingar lögðust alveg saman þegar þeim var hent niður af pallinum. 

Eitt vandamál var að stundum hittist svo á að einmitt þegar við vorum að hreinsa var logandi í sumum tunnunum. Mun erfiðara og hættulegra var að losa slíkar tunnur og við bar að kviknaði í hlassinu á bílnum og þurfti þá að aka í flýti á öskuhaugana og sturta af bílnum. 

Í eitt skipti sem mér er sérlega minnisstætt var ég einn á pallinum að losa tunnurnar og mátti hafa mig allan við til að hafa við Bjarna sem þeytti til mín tunnum í stríðum straumum enda var hann íþróttamaður góður og a.m.k nokkrum sinnum glímukóngur Skarphéðins. (Héraðsmót Skarphéðins á Þjórsártúni væri eitthvað sem ég gæti skrifað um seinna meir – muna það). Á eftir tölti síðan Jón Bensín og drógst æ meira aftur úr eftir því sem á leið, en hans hlutverk var að koma tómu tunnunum aftur að húsunum. 

Eftir nokkurra klukkutíma stífa törn og tvær ferðir niður að Völlum á öskuhaugana var verkinu þó lokið og við kveiktum svo í ruslinu sem var á haugunum þegar við vorum búnir að losa bílinn í seinna skiptið og skemmtum okkur við að reyna að drepa rotturnar þegar þær flýðu eldinn í sorpinu.


66. blogg

Mér sýnist óvenju mikið hafa verið skrifað um blogg á Moggabloggin að undanförnu. Það er ekki skrítið því greinilegt er að nú um stundir er þetta vinsæl aðferð til að tjá hugsanir sínar. Eðli bloggsins er aftur á móti ekki svo auðvelt að skilgreina.

Tilgangurinn getur verið misjafn og margvíslegur. Ekki sé ég að hægt sé að skilgreina bloggin sem fjölmiðla, til þess eru þau of dreifð og sundurlaus. Sum þeirra ná að vísu til nokkuð margra en sum eru augljóslega skrifuð fyrir fáa. Sum eru áberandi illa skrifuð en önnur betur og svo eru þau sífellt að koma og fara. 

Einn af bloggvinum mínum, Sigurður Þór Guðjónsson rithöfundur og veðurspekúlant var með sérstakan blogg-óvinalista þar til fyrir skömmu að hann breytti um nafn á honum að mér sýnist. Þetta er samt ágætur listi og þarna eru saman komnir nokkrir af mínum uppáhaldsbloggurum. 

Utan Moggabloggsins eru að sjálfsögðu margir ágætir bloggarar og mér finnst sjálfsagt að halda nöfnum þeirra á lofti. Sjálfur er ég að hugsa um að koma mér upp lista yfir bloggara sem mér finnst gaman að heimsækja.  

Auðvitað er ekki líklegt að margir notfæri sér þann lista en ég get þó a.m.k. notað hann sjálfur. Þó einfalt sé að setja blogg sem manni líst sæmilega á í bookmark þá er ekki fullt gagn að því. Bookmörk geta glatast og svo vill maður stundum geta notað aðrar tölvur vandræðalaust. 

Að sumu leyti virðast bloggin hafa komið í staðinn fyrir spjallsíður sem voru mjög vinsælar og þau eru greinilega eins misjöfn og þau skrif voru. Að mörgu leyti henta þau samt betur og virðast ýta undir það að menn komi fram undir nafni, sem er mjög til bóta. 

Auðvitað getur alltaf verið nauðsynlegt að koma fram nafnlaus og vettvangur fyrir slíkt þarf að vera til. Nafnleysið var hins vegar misnotað herfilega á spjallsíðunum og umfjöllun þar oft á tíðum ekki mönnum bjóðandi. 

Samskipti fólks og einskonar samtöl sem oft fóru fram á spjallsíðunum hafa núna færst á kommentakerfi bloggsíðnanna og er það vel.


65. blogg

Vísindin og tæknin hafa til þess fundið ráð / að taka upp ræður þingmanna á fínan segulþráð....

Svona byrjaði bragur einn sem ég af einhverjum ástæðum man eftir úr Speglinum gamla. Mynd sem fylgdi sýndi Bjarna Benediktsson sem síðar varð forsætisráðherra halda utanum míkrófón og hrista hann til og segja já, en mikrófónninn var hinn þverasti og sagði nei. Undir myndinni stóð að mig minnir „sagði Bjarni já eða sagði hann nei?"

Myndin hefur næstum áreiðanlega verið teiknuð af Halldóri Péturssyni og þetta hefur eflaust verið þegar verið var að byrja að taka ræður þingmanna upp á segulband. Þingmenn hafa þá eins og nú áreiðanlega viljað túlka ummæli sín í samræmi við breyttar aðstæður.

Margt var um skemmtilega bragi í Speglinum. Ógleymanlegt er ljóðið um Stóru Bombuna. (Hver veit nær söðlar Daníel?) Faraldur var líka skemmtileg týpa. Ég man að ég las alltaf þáttinn hans sem ég held endilega að hafi verið nefndur:  „Rakarinn minn sagði:"

Baggalútur er um margt arftaki Spegilsins, þó mér finnist nú fyndni þeirra oft nokkuð einhæf og svo hafa þeir ekki þessa ógleymanlegu bragi.

Jarmið í Stebba Páls um Moggabloggið virðist vera að ná nýjum hæðum. Hann er nú tekinn upp á því, skilst mér, að reyna að rökstyðja þessa vitleysu sína. Á sama tíma er hann tekinn að hasast upp á því að finna nýja bölbæn um Moggabloggið í sérhverju af sínum bloggum.

Eiginlega nenni ég ekki að fjölyrða að neinu ráði um þetta en satt að segja hefur Stefán lækkað talsvert í áliti hjá mér við þetta allt saman. Ég les samt bloggið hans alltaf reglulega enda er hann fínn bloggari.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband