821 - Álfheiður í eldinn fór

Vinstri grænir völdin stór
vildu Grímsa tryggja.
Álfheiður í eldinn fór
Ömmi hann má liggja. 

Þessa vísu gerði ég í morgun og setti á vísnabloggið mitt. (visur7.blog.is) Þangað hef ég ekkert sett síðan í fyrravetur.

Heldur eru nú áherslur að harðna í pólitíkinni. Hörð atlaga er gerð að ríkisstjórninni og umræðan um Icesave er orðin svo illskeytt að ég vil helst ekki blanda mér í hana. Flokkapólitík heillar mig ekki.

Í dag var Alþingi sett með nokkrum tilþrifum. Mér er eitt atvik sem tengist setningu Alþingis mjög minnisstætt. Það átti sér stað um líkt leyti og Helgi Hóseasson sletti skyrinu. Líklega annað hvort árið áður eða árið eftir. Þá var Benni sonur minn fárra ára gamall og við fjölskyldan vorum stödd á Austurvelli skammt frá Alþingishúsinu við þingsetningu. Einmitt þegar prósessían gekk hátíðlega frá Dómkirkjunni og til Alþingishússins hrópaði Benni allt í einu:

„Nei, sko. Sjáiði fuglana."

Auðvitað var hvítbrjósta halarófan álkuleg en hann var nú samt að horfa á einhvern fuglahóp við Tjörnina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband