794 - Ólafur "bölvar og ragnar" Grímsson

Athugasemdir sem ég fæ leiða oft til áframhaldandi hugleiðinga á þessu bloggi mínu. Ekki er forseti Íslands og gerðir hans meðal minna helstu áhugamála. Að ég skuli taka mér fyrir hendur að verja gerðir hans hugnast fáum bloggurum. 

Jón Steinar Ragnarsson fer mikinn í upphafi athugasemda við síðasta blogg mitt. Meðal annars segir hann:

Ég lít svo á að samþykki forsetans á þessu frumvarpi sé ógilt af þeirri einföldu ástæðu að hann setur fyrirvara fyrir henni. Það er fordæmalaust og á sér enga lagastoð. Já hans skal vera já og nei hans skal vera nei. Ekkert kannski eða ef.

Þetta álit Jóns er ógilt af þeirri einföldu ástæðu að Ólafur Ragnar er þjóðkjörinn og álit hans þyngra á metunum en Jóns Steinars. Því miður verður aldrei með öllu komist hjá mannjöfnuði í því kerfi sem við búum við. Gagnrýni Jóns Steinars beinist því fyrst og fremst að stjórnskipulagi okkar.

Já, stjórnskipulagið er gallað en stjórnleysi er verra.

Ég hef hér á bloggi mínu einnig varið inngöngu Íslendinga í ESB. Þar er um miklu stærra mál að ræða en undirskrift Ólafs Ragnars.

Það er ósköp einfalt að vera „Fúll á móti", þegar rætt er um forseta Íslands og bankahrunið yfirleitt.Neikvæðir bloggarar gera samt mikið gagn því nú eru fjárhagslegir loftfimleikar áreiðanlega orðnir mun erfiðari en áður.

Hlustaði í morgun á forstjóra OR tala á útvarpi Sögu um HS-málið. Hann kunni svör við nánast öllu en hvað er þetta svosem annað en svindilbrask og hlýtur ekki fólki að detta REI í hug? Vantar okkur ekki einmitt svolítið af svindilbraski?

Friðrik Þór Guðmundsson býður sig fram til forystu í Borgaraflokknum en þar er nú allt í uppnámi. Sjáið blogg Friðriks ef áhugi er á þessum málefnum. Ég kaus borgarahreyfinguna í síðustu kosningum og finnst mér koma gerðir þessa fólks svolítið við.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Skemmtileg orðanotkun;  "fjárhagslegir loftfimleikar". 

Anna Einarsdóttir, 5.9.2009 kl. 10:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband