789 - Landráðamenn og fleiri

Jafnvel Egill Helgason er búinn að sjá ljósið. Hann segir að það sé ljótt að kalla menn landráðamenn og föðurlandssvikara. Það er nokkuð umliðið síðan ég gerði mér grein fyrir þessu og bloggaði meira að segja um það. Sannleikurinn er þó sá að aðildin að ESB snýst um fleira en orðanotkun. Ef við Egill sættum okkur illa við hvernig sumir nota þessi orð þá er ekkert við því að gera. Alls ekki er víst að meiningin sé eins slæm og okkur sýnist. 

Ég ætla ekki að skrifa undir áskorunina til Ólafs Ragnars og vonast til þess og reikna með að hann samþykki lögin. Svo mikla heift og reiði er búið að breiða út um þetta mál að ég ætla ekki að fjalla um það efnislega. Finnst við fyrstu sýn afstaða Sjálfstæðismanna ekki til sóma. Að sitja hjá í máli sem þessu þegar ætlast er til að málið sé skoðað og afstaða tekin er í mínum augum hreinn heigulsháttur.

Aðrir en Alþingismenn hafa leyfi til að vera beggja blands í þessu máli og þegja yfir skoðun sinni ef þeir vilja. Þingmenn aftur á móti eru til þess kjörnir að taka ákvarðanir fyrir hönd kjósenda sinna. Hjáseta á rétt á sér þegar þingmaður hefur ekki haft tækifæri til að mynda sér rökstudda skoðun. Engu slíku er til að dreifa í Icesavemálinu. Miklu heiðarlegra er að vera alfarið á móti en að sitja hjá.

Horfði í gær á myndir og frásögn um „The Gimli Glider". Sagt var frá þessu á bloggi Ágústar H. Bjarnasonar og þar voru hlekkir á YouTube vídeómyndir um þennan merkilega atburð. Í sem allra stystu máli fjallar þetta um Boeing farþegaþotu sem varð eldsneytislaus og sveif úr mikilli hæð að flugvelli við Gimli í Kanada árið 1983.

A: „Jæja, þá fer þessari Icesave vitleysu bráðum að ljúka."

B: „Að ljúka? Nú er fjörið fyrst að byrja."

A: „Af hverju segirðu það?"

B: „Nú á að svæla melrakkann á Bessastöðum úr greni sínu."

A: „Nú? Og hvernig?"

B: „Henda í hann fimmtánþúsund undirskriftum og benda honum á að nú sé engin leið að klofa yfir gjána milli þings og þjóðar."

A: „Vá! Þú ert bara orðinn skáldlegur."

B: „Dugir ekki annað. Þessi Icesave ósköp eru að gera alla vitlausa."

A: „Satt segirðu. Að minnsta kosti þig."

B: „Ha?"

A: „Nei, ég segi bara svona."

B: „En meinar ekkert með því, eða hvað? En meðal annarra orða, ertu búinn að skrifa undir?"

A: „Undir hvað?"

B: „Nú, áskorunina á forseta vorn."

A: „Um hvað?"

B: „Ertu algjör auli? Náttúrlega um Icesave málið."

A: „Já, svoleiðis. Ja, eiginlega ekki.

B: „Drífðu þig þá í það."

A: „Bíddu við. Hvernig á ég aftur að gera?"

B: „Arrrgh. Eigum við nú að fara í gegnum það allt aftur? Komdu hingað."

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Fjölnisson

Gáfulegasta sem ég hef séð frá þessum Agli var þegar hann var með hugmyndir um að gera gryfjuna í miðbænum að sundlaug og flóðhestasýningum.

Baldur Fjölnisson, 31.8.2009 kl. 21:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband