764- Nafnið mitt og ýmislegt fleira

Sjö eru dyr á einu húsi.
Sjö eru konur eins manns.

Svo segir í gamanbrag sem eitt sinn var kveðinn í Hveragerði. Kannski hefur séra Helgi Sveinsson gert þann brag en það er þó ekki víst. Dyrnar sjö voru á læknishúsinu ofan við Gossabrekku og konurnar sjö voru konur þær sem Kristmann Guðmundsson hafði verið giftur þegar hér var komið sögu. Kristmann bjó um þessar mundir í Hveragerði og var giftur Svövu og hafði verið nokkuð lengi. Skildi seinna við hana og giftist Steinunni Briem píanóleikara.

Ekki var ætlun mín að tala um Kristmann Guðmundsson rithöfund þó nóg væri hægt um hann að segja. Þess vegna minntist ég á dyrnar og konurnar sjö að rétt fyrir neðan læknishúsið stóð bærinn Brekka. Þar bjó Sæmundur Guðmundsson sem venjulega var kallaður Sæmi í Brekku en stelpurnar í Kaupfélaginu kölluðu stundum Sæma fimmaur. Það var vegna þess að einhvern tíma taldi hann stelpurnar þar hafa snuðað Helgu Dís dóttur sína um fimm aura þegar hún var send út í Kaupfélag til innkaupa og gerði sér ferð út í Kaupfélag til að skammast yfir því.

Af skiljanlegum ástæðum eru mér nafnar mínir minnisstæðari en aðrir þó fáum þeirra hafi ég kynnst á lífsleiðinni. Einu sinni var ég á labbi vestur í þorpi. Þá heyrði ég allt í einu kallað höstuglega mjög: „Komdu strax hingað, Sæmi." Mér brá náttúrulega heiftarlega en áttaði mig þó á því nógu snemma að ekki var verið að tala við mig. Þarna mun hafa verið kallað til Sæmundar Pálssonar sem ég kynntist svo seinna meir að Stöð 2.

Sæma Rokk kannaðist ég að sjálfsögðu við þó ég þekkti hann ekki persónulega og Sæmund Sigmundsson rútubílstóra í Borgarnesi þekkti ég. Þá eru upptaldir þeir nafnar mínir sem ég hef komist í einhver kynni við að frátöldum sögulegum persónum eins og Sæmundi fróða. Svona er nú nafnið mitt sjaldgæft og hef ég alla tíð verið feginn því. Aðrir hafa eflaust aðra sögu að segja.

Eins og sjá má á kommenti við síðustu færslu mína hefur DoctorE skrifað Árna Matthíassyni og beðið hann að opna bloggið sitt aftur. Biðst einnig afsökunar og lofar bót og betrun. Mér er hulin ráðgáta hvers þeir Moggabloggsmenn geta krafist frekar af honum en það hlýtur að koma í ljós ef bloggið verður ekki opnað.

Og að lokum fáeinar myndir.

IMG 3785Blóm.

IMG 3786Hrútaber og bláber.

IMG 3794Hrútaber á lyngi.

IMG 3809Grjót.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: brahim

Batnandi mönnum er best að lifa segir einhversstaðar....sérstaklega þegar þeir hinir sömu hafa fullyrt að þeir hafi ekki gert neitt rangt...eða farið yfir strikið.

Ef sá sem finnst hann ekki hafa gert neitt rangt eða verið með árásir á einstaklingi,

afhverju vill þá hinn sá sami þá biðjast afsökunar og lofa að vanda málfar sitt betur ??

brahim, 5.8.2009 kl. 14:23

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Öll skiptum við um skoðun á einhverju öðru hverju og þurfum ekki endilega að biðjast afsökunar á fyrri skoðunum okkar.

DoctorE var hins vegar að biðjast afsökunar á tali sínu um geðveiki í þessu sambandi, sem kom málinu ekki við og er einkamál hvers og eins, nema viðkomandi kjósi annað. Það eru ekki rök í máli að sá sem heldur einhverju fram sé geðveikur og þar af leiðandi allt rugl sem frá honum kemur. Málið þannig afgreitt.

Ef við teljum að eitthvað sé vitleysa verðum við að reyna að sýna fram á að svo sé með vísindalegum rökum og engu öðru.

Ég legg til að allir geðveikir hér á Íslandi, aðstandendur þeirra og vinir, fari árlega í sína eigin gleðigöngu
, rétt eins og samkynhneigðir hafa gert undanfarin ár. Fordómar gagnvart geðveikum virðast vera hér jafn miklir og gagnvart samkynhneigðum fyrir þremur áratugum og er þá mikið sagt.

Þorsteinn Briem, 5.8.2009 kl. 15:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband