745- Ellefta Landsmót UMFÍ að Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu

Dagana 1. til 2.júlí árið 1961 var 11. Landsmót Ungmennafélaganna haldið að Laugum í Suður-Þingeyjarsýslu.

Auðvitað er fremur langt þangað frá Hveragerði. Samt sem áður fórum við á Landsmótið nokkrir strákar úr þorpinu því.

Við fórum með Sigga í Fagrahvammi. Hann fékk lánaðan bílinn pabba síns og keyrði þangað í einum rykk. Sennilega voru Raggi Christiansen og Kalli Jóhanns með okkur í för. Bíllinn man ég að var Volkswagen.

Útilegubúnað höfðum við með okkur og tjölduðum eins og fínir menn. Þarna var talsvert fjör þó ekki muni ég eftir neinu sérstaklega markverðu. Auðvitað reyndum við allir að komast á séns en sú viðleitni bar aðeins árangur hjá Kalla. Það var bara að hans eigin sögn svo kannski er ekkert að marka það. Man samt að hann þóttist hafa skorað.

Á heimleiðinni gerðist tvennt sem ég man vel eftir. Annars vegar var það klæðisbútur sem festur var við girðingu sem vakti athygli okkar. Það var þó ekki fyrr en of seint að við áttuðum okkur á því að klútnum var ætlað að vara við stórhættulegu hvarfi í veginum. Fyrir einhverja heppni og bílstjórakunnáttu Sigga komumst við þó klakklaust yfir hvarfið þó hraðinn væri alltof mikill.

Hitt atvikið átti sér stað einhvers staðar á Sprengisandi að ég held. Þá var Siggi orðinn syfjaður og þreyttur og flautaði hátt og lengi á vörðu sem hann var sannfærður um að væri rolla.

Ein af mínum bernskuminningum mínum er líka um Landsmót sem þá var haldið í Hveragerði. Þar horfði ég á íþróttamenn sem hoppuðu léttilega yfir kaðalgirðingu sem sett hafði verið upp á skólatúninu milli gamla og nýja barnaskólans. Þetta mun hafa verið árið 1949. Á þessu landsmóti varð sá frægi atburður að fyllibyttur voru settar í poka sem hengdir voru upp í frystihúsinu sem seinna varð Steingerði. Eftir sögusögnum sem gengu í Hveragerði var Hörður á Kvennaskólanum í þeim hópi.

Og fjórar myndir að lokum

IMG 3452Fuglahús í grasagarðinum.

IMG 3457„Ertu að taka mynd af mér?"

IMG 3466Víkingaskip.

IMG 3477Selur í letikasti.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband