5.7.2009 | 00:12
734 - Brennið þið vitar, brennið. Ef þið nennið
Ég fréttablogga náttúrlega aldrei. Eða mjög sjaldan að minnsta kosti. Þessi vitafrétt á mbl.is er samt vitaskuld svolítið sérstök. Þess vegna linka ég í hana. Vitar eru merkilegt fyrirbrigði. Eitthvað þessu líkt (brennið þið vitar) var einu sinni í Hraðfrystihúsi Stokkseyrar og er þar kannski enn. Svo er mér ekki grunlaust um að eitthvað sé til sem heitir Vitafélag Íslands eða í þá áttina. Prófa að spyrja Gúgla um þetta ef ég man. Í gær skrifaði ég um Ingólf á Flesjustöðum. Datt svo í hug að sennilega hefði ég bloggað um þetta áður. Spurði Gúgla. Jú, mikið rétt. Auðvitað hafði ég bloggað um þetta áður. Gríðarlegt magn sem ég hef skrifað sá ég var. Svo var ég líka um daginn að skrifa um endurtekningar. Get ekki að þessu gert. Sumir atburðir eru bara minnisstæðari en aðrir. Verð helst að láta mér detta eitthvað annað í hug en Icesave-samninginn. Sem betur fer er hjal mitt um þetta ábyrgðarlaust. Öfunda ekki alþingisþingmenn. Horfði á umræður á Alþingi í sjónvarpinu síðastliðinn föstudag. Guðlaugur Þór fyrrverandi heilbrigðisráðherra hafði hátt. Fyrir mér verður hann aldrei annað en Gulli Þórðar löggu. Þekkti hann nefnilega þegar hann var smápolli í Borgarnesi. Mér fannst margt í boðskap þeirra Gulla og Sigmundar Davíðs ekki ýkja merkilegt þó þeir hafi talað hátt og látið fara heilmikið fyrir sér. Menn skjálfa í hjáliðunum þegar sólkonungurin talar. Reyndar finnst mér Davíð Oddsson hafa nokkuð rétt fyrir sér þegar hann gagnrýnir Icesave-samninginn. Spurningin er bara hvað tekur við ef hann verður felldur. Ef rætt er um sofandahátt stjórnvalda undanfarin ár þá er Davíð svo sannarlega ekki undanskilinn. Ég vil heldur að núverandi stjórn haldi áfram þó það kosti Icesave-samninginn í núverandi mynd en að útrásarvíkingunum verði afhentir stjórnartaumarnir aftur. Davíð bjargar okkur ekki fremur nú frá þeim en þegar hann var seðlabankastjóri. Áhrifin sem Icesave-samningurinn hefur á ESB umsóknina er það afdrifaríkasta. Kannski hélt núverandi stjórn að auðveldara yrði með aðgönguna eftir en áður. Ég held hinsvegar að ESB aðild sé útilokuð í náinni framtíð ef eitthvað sem líkist núverandi Icesave-samningi verður samþykkt. Enda sé ég ekki að neinu máli skipti þó beðið verði enn um sinn með aðild. Ætlaði ekki að fjölyrða um Icesave. Get þó ekki látið það vera. Áhugaverðir tímar sem við lifum á. Hef trú á að við rífum okkur uppúr aumingjaskapnum. Ég er afskaplega lítið fyrir að fikta í stjórnborðinu hér á Moggablogginu. Satt að segja alveg skíthræddur við það. Einu sinni týndi ég gestabókinni minni og fann hana ekki aftur nema með því að hringja í Morgunblaðið. Gleymi samt alltaf að kíkja í hana. Athugsemdirnar eða kommentin eru betri. Rafpóstinn minn lít ég sjaldnar á en bloggið. Núna var ég að gera þá mikilvægu breytingu við stjórnborðið að heimsóknaboxið mitt er komið inn í birtingarboxið. Einhvern tíma flutti ég það víst út fyrir og þóttist góður. Sjálfum finnst mér bloggin mín góð eins og komið hefur fram. Ég er búinn að koma mér upp þeirri reglu (rithöfundarreglu) að punkta ýmislegt hjá mér í sérstakt word-skjal sem ég er jafnan með á USB-lykli. Þegar maður ætlar svo að blogga er gott að geta gripið hugmyndir þar því ekki er víst að manni detti neitt almennilegt í hug þegar á hólminn er komið. Kónguló, kónguló Söngluðum við krakkarnir í hvers skipti sem við sáum kónguló úti í móa. Sem var oft. Engan áttum við þó gullskóinn og hefði ekki dottið í hug að gefa hann frá okkur hefðum við átt hann. Svona hjávísindi og hindurvitni trúðum við ekki á. Að minnsta kosti ekki ég. Ef torskiljanleg orð voru í bænunum sem amma og mamma kenndu okkur systkinunum var ætíð fangaráðið að segja að þetta væru bara rímorð og þýddu svosem ekki neitt. Sitt af hverju lærði maður samt. Ég lærði að lesa hjá Sveinu í Grasgarðinum áður en ég byrjaði í skóla. Það þótti ekki mikið. Var bara metnaðarmál hjá foreldrum mínum. Man að pabbi fór upp í Reykjafoss og keypti handa mér bók sem hét Gusi grísakóngur" þegar ég var búinn að læra að lesa. Í fyrsta skipti sem ég komst að því að menn gátu átt bækur án þess að lesa þær varð ég alveg standandi hlessa. Ekki hafði mig grunað það. |
Brennið þið, vitar! á Dalatanga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.