625. - Nú er mér orðið mál að blogga svo ég set nokkur orð á blað

Bjarni og Charmaine eru farin til Bahama og verða þar í hálfan mánuð. 

Prófkjör fóru víða fram um helgina og Fjórflokkurinn hélt víðast velli að mestu. Þó er ekki með öllu vitað hvernig komandi kosningar fara. Ég held að þær fari illa.

Helgi Jóhann Hauksson er afburða ljósmyndari og þar að auki hefur hann ýmislegt að segja. Hvernig má hann vera að þessu? Hann er útum allt að taka myndir, bæði kreppumyndir og annað og svo skrifar hann þessi ósköp. Flestu af því er ég nokkuð sammála. Einkum því sem hann segir um Evrópumálin.

Alltaf er verið að tönnlast á því að Moggabloggið sé að deyja. Eflaust er það mjög orðum aukið en auðvelt að trúa þegar alltaf er verið að fjölyrða um fjáransvanda Morgunblaðsins. Það sem ég held að Moggabloggið ætti að gera til að tryggja sig er að auka samstarfið við aðrar bloggveitur á landinu. Markverðasta gagnrýnin sem ég hef séð á þessa bloggveitu er að hún vilji í krafti stærðar sinnar loka sig af og sem minnst af öðrum bloggurum vita. Þjónustan er ágæt hérna og kannski betri en víðast hvar. Um það veit ég samt lítið því ég hef aldrei bloggað annars staðar.

Hörður pabbi Bjarna frænda sagði mér ágætan brandara um daginn þegar ég var að spyrja hann hvers vegna Bjarna-boðið hefði bókstafinn L.

„Hann ætlaði víst að biðja um bókstafinn R......"

Tryggvi Þór Herbertsson og ýmsir fleiri taka undir orð Sigmundar framsóknarmanns um eftirgjöf á skuldum. Ég er einfaldlega þannig gerður að þeir sem segjast geta galdrað gull og græna skóga úr loftinu og breytt hverju sem er í peninga eða verðmæti vekja tortryggni mína. Það jákvæðasta við tillögur Tryggva og Sigmundar er að það er skynsamlegt að gera eitthvað strax í staðinn fyrir að vera að velta hlutunum fyrir sér árum saman.

Nú er bankahrunið búið að vera staðreynd í þónokkra mánuði. Ekkert hefur þó gerst annað en það að einn ríkisstjórnarræfill hefur gefist upp. Sá sem við tók virðist ekki vera hótinu betri. Skárra er að gera einhverja helvítis vitleysu en að gera ekki neitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband