12.3.2009 | 17:47
623. Margt er það sem minnið veit og mætti skrifa niður
Nú er ég búinn að vera í viku í sumarhúsi í Grímsnesinu þó ekki sé sumar. Það er ágætt að vera í sumarhúsi um miðjan vetur. Hægt að flatmaga í heita pottinum þó frost sé og kuldi. Í myrkrinu er fróðlegt að skoða stjörnurnar og norðurljósin eða stjörnuljósin eins og stundum er sagt. Flestar heimsins lystisemdir er þarna að finna en þó ekki netsamband.
Hvers vegna í ósköpunum reyni ég ekki að skrifa eitthvað bitastæðara en blogg? Mér finnst að ég gæti það alveg. Það er að vísu óskapleg vinna en ég hef gaman af að skrifa og þó ég verði að gera margar tilraunir áður en ég fæ einstaka kafla rétta þá er því ekki að neita að gaman er að virða fyrir sér skrif sem hafa tekist bærilega. Þar að auki er svo auðvitað gaman að heyra aðra hrósa því sem maður veit að er vel gert.
Fyrir skömmu las ég bókina Í húsi afa míns." Þar rekur Finnbogi Hermannsson æfiminningar sínar og lýsir afar vel því Íslandi sem var á hans uppvaxtarárum. Hans tíð var svolítið á undan minni og þar að auki í Reykjavík. Samt fannst mér mikil unun að lesa þessa bók. Hún lýsir ástandi sem ég þekki vel.
Ég gæti lýst lífinu eins og það var í Hveragerði á árunum uppúr 1950. Eflaust mundu einhverjir hafa gaman af því. Mér finnst engu máli skipta hvort mikið gerist í frásögnum eða ekki. Ef tekst að skapa það andrúmsloft sem lesendum finnst einhvers virði er björninn unninn. Finnboga tekst afar vel að leiða lesandann um refilstigu lífsins í styrjaldarlok og fyrstu árin eftir það. Samt gerist svosem ekki neitt í bókinni en það er einmitt höfuðkostur hennar og þessvegna er hún eftirminnileg.
Ég man þegar Maggi Kalla Magg tókst á við Ólínu kennslukonu. Sló hana hvað eftir anað með leikfimiskónum sínum. Hún reyndi að koma vitinu fyrir hann en hann sló og sló. Leikurinn barst inn á karlaklósettið og Ólína átti auðvitað ekkert að vera þar. Man samt ekki hvernig ósköpin enduðu eða útaf hverju var slegist.
Einu sinni kom Helgi Geirs skólastjóri að okkur Magga Kalla Magg í nánast auðri kennslustofu upp við töflu þar sem ég hafði nýlokið við að brjóta bendiprikið kennarans. Helgi spurði hvað þetta ætti að þýða eða eitthvað á þá leið. Ég sagði að við Maggi hefðum brotið prikið óvart. Kenndi semsagt Magga um þó hann væri alsaklaus. Hann sagði ekkert við því og við þurftum báðir að smíða ný bendiprik.
Um þessar mundir var Benedikt Elvar smíðakennari og sem betur fór var ekki mikið mál að smíða þessi bendiprik. Líka stunduðum við það þegar Benedikt var smíðakennari að renna hjól undir bíla sem bílasmiðir á okkar aldri þurfu á að halda.
Fyrsta minning mín um kosningar er sú að við vorum að leika okkur í garðyrkjustöðinni hjá Kalla Magg og hann var að hlusta á kosningaúrslit. Þá hafa einmenningskjördæmi áreiðanlega verið við lýði því mér fannst romsan um nýjustu tölur aldrei ætla að taka enda.
Sennilega er ég eitthvað að eldast. Þónokkrir af mínum æskufélögum og bekkjarbræðrum eru horfnir yfir móðuna miklu. Jói á Grund, Jósef Skafta, Lalli Kristjáns, Maggi Kalla Magg, Mummi Bjarna Tomm og svo framvegis og framvegis.
Orð eru máttug. Með því að lýsa einhverjum atburði með þínum orðum ert þú að setja þinn vilja og þína túlkun í höfuðið á öðrum. Verst er hvað fáir lesa nú orðið. Vel sögð orð eiga þó alltaf einhvern lesendahóp. Sjálfur les ég miklu meira en ég skrifa. Játa líka fúslega að vel skrifaður texti getur haft mikil áhrif á mig. Þegar ég les lélegan texta finn ég hinsvegar hvernig áhrifin verða að engu. Það er ekki hægt að hreyfa við neinum með illa skrifuðum texta. Það er lóðið. Þessvegna er eins gott að vanda sig.
Það góða við að vera einskonar eins manns fjölmiðill er að ekki er hægt að gera miklar kröfur til manns. Lesendur mínir ætlast þó eflaust til að ég skrifi eitthvað en hér er ég löglega afsakaður því ekki er netsamband í sveitinni.
Þegar ég byrjaði að tölvast að ráði svona um 1985 var flest það sem að tölvum laut yfirleitt kallað sínum ensku nöfnum. Á sýningu í Þjóðarbókhlöðunni, sem var bara hálfbyggð þá, var kynning á tölvudóti sem tölvufræðinemendur við háskólann stóðu fyrir. Greinilega hafði þeim verið kennt að nota íslensk heiti um allt mögulegt viðkomandi tölvum. Mér kom þetta á óvart og verð að játa að ég skildi ekki nærri allt sem sagt var því ég var svo vanur ensku heitunum.
Það er samt mikilvægt að láta ekki undan enskunni og rembast frekar við að finna nýyrði. Stundum tekst slík smíði afar vel en stundum miður eins og gengur. Einu sinni hétu þotur þrýstiloftsflugvélar og þyrlur helikopterar. Tölva er ekki alveg nógu gott orð fyrir computer en dugar samt ágætlega.
Ingibjörg Sólrún er líklega búin að vera sem pólitíkus. Farið hefur fé betra. Hún hefði aldrei átt að hætta sem borgarstjóri. Þar var hún ágæt en hafði ekkert í landsmálin að gera. Það er auðvelt að sjá þetta núna en fjandi dýrt.
Bankahrunið er að verulegu leyti Sjálfstæðisflokknum að kenna. Að því leyti einkum að hann skapaði það ástand hér á landi sem hentaði útrásarvíkingunum ágæta vel. Með öðrum orðum allt í einu átti að fara að starfa eftir landsfundarsamþykktum. Það hafði aldrei tíðkast áður.
Furðumargir eru samt tilbúnir til að halda áfram að kjósa flokkinn. Ég trúi því ekki að það sé vegna þess að þetta fólk vilji halda áfram á þeirri frjálshyggjuleið sem við höfum verið á undanfarin ár heldur vonist fólk til þess að Eyjólfur hressist. Ég held að flokkurinn geti alveg yfirgefið nýfrjálshyggjuna sína og breytt sér aftur í þann sósíaldemókratíska flokk sem tryggði fjöldafylgið á árum áður. Ef hann gerir það ekki endar hann sem lítill og skrýtinn hægri flokkur sem sárafáir kjósa.
Í Grímsnesinu í góðu yfirlæti
geng ég um og sýni af mér kæti.
Allir munu eiga mig á fæti
sem eru þar með fyrirgang og læti.
Athugasemdir
Takk fyrir þessa færslu sem og fallegt ljóð um Grímsnesið.
Hilmar Gunnlaugsson, 12.3.2009 kl. 18:21
Takk fyrir þessa skemmtilegu færslu.
Heimir Tómasson, 12.3.2009 kl. 20:11
Margt er það sem minnið veit
og mætti skrifa niður.
Um sósuna í sinni sveit
sérhver maður biður.
Það eru misjafnar sósur á bæjum og smekkur manna misjafn. Sósu alismi er ekki lausnin og að slafra í sig meira en magamál leyfir er ekki til farsældar. Þetta er allt saman þekkt. Græðgi og forsjárhyggja eru ekki lausnarorð heldur opinn hugur
Jón Sigurðsson, 12.3.2009 kl. 21:28
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.