621. - Látum þá finna til tevatnsins

Margir eru um of fastir í því að einhverjum þurfi að refsa fyrir bankahrunið. Fara eins illa með viðkomandi og mögulegt er. Slík hugsun er slæm fyrir sálina og niðurdrepandi. Æskilegt er það samt en ekki nauðsynlegt. Mikið af andstöðunni við Davíð Oddsson var af þessum rótum runnið og kallið á aðgerðir til að finna sökudólga er enn sterkt í þjóðfélaginu.

Fyrst eftir hrunið fannst mér sú tilfinning ríkjandi að halda bæri þessu utan við stjórnmál og byrja ætti helst á öllu uppá nýtt án stjórnmálaflokkanna því þeir hefðu brugðist. Smám saman hefur mér skilist að stjórnmálin eiga ekki sök á þessu.

Allflestir voru fylgjandi því að frjálsræði yrði aukið og ef farið hefði fram skoðanakönnun nokkru fyrir hrunið um það hvort takmarka ætti útþenslu bankanna hefðu flestir verið á móti því. Vald stjórnmálaflokka átti að minnka við það að bankarnir væru einkavæddir.

Það er lýðræði á Íslandi. Sumir hafa talað um ráðherraræði en mála sannast er að ráðherrar ráða nákvæmlega því sem þingið vill að þeir ráði. Smátt og smátt hefur vald þeirra aukist en það er með samþykki alþingismanna.

Með stuðningi sínum við ríkjandi flokksformenn og með því ríkisstjórnafyrirkomulagi sem hér hefur ríkt hefur vald einstakra alþingismanna minnkað. Þeir geta þó hvenær sem er endurheimt það. Þeir vilja það bara ekki. Finnst af einhverjum ástæðum betra að aðrir skipi fyrir.

Dómsvaldið er tiltölulega óháð þó hægt sé að finna dæmi um að framkvæmdavaldið hafi of mikil afskipti af því.

Skipting valds er ekki fyrir hendi hér á landi og óvíst hvort slíkt sé æskilegt. Þá yrði að kjósa framkvæmdavaldið sérstaklega og löggjafarþing yrði aðskilið. Í stjórnarskránni eru vissar leifar konungsvalds og óljóst í sumum tilfellum hvert er hið raunverulega vald forseta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband