582. - Nú er allt á fleygiferð í stjórnmálunum

Það er erfitt að blogga ekki núna. Hlutirnir gerast svo hratt að maður hefur varla við. Veit ekki hvað gerist næst. Það má ekki persónugera vandann og helst ekki ríkisstjórnargera hann heldur. Ríkisstjórnarflokkunum verður varla bjargað úr þessu. Afhroð þeirra í næstu kosningum verður hrikalegt. Ekki fer allt fylgið á vinstri græna. Nýir flokkar munu rísa.

Krafan um nýtt lýðveldi er góðra gjalda verð en því miður alveg óraunhæf. Stjórnlagaþingi verður ekki komið á bara sisvona. Við núverandi aðstæður ætti samt að vera hægt að koma ýmsum endurbótum í stjórnmálum og á kosningafyrirkomulagi í gegn.

Einhverntíma kom það til umræðu vegna spurningar í spurningaþætti að þónokkur hluti fólks virðist standa í þeirri meiningu að Ísland hafi orðið sjálfstætt ríki við lýðveldisstofnunina árið 1944. Þetta er að mínum dómi hin mesta firra.

Ísland er búið að vera sjálfstætt ríki frá fyrsta desember 1918. Í fyrstunni fóru Danir með utanríkismál fyrir Íslendinga og löndin höfðu sameiginlegan konung. Þetta samkomulag átti að endurskoða eftir 25 ár. Í heimsstyrjöldinni 1939 - 1945 fór þetta samkomulag út um þúfur. Sveinn Björnsson var skipaður ríkisstjóri árið 1941 og fór einkum með vald það sem konungur hafði áður haft. Hann skipaði utanþingsstjórn árið 1942 og árið 1944 var lýðveldi stofnað að Þingvöllum 17. júní. Þar var Sveinn kjörinn forseti landsins og sat sem slíkur til 1952. Þá var Ásgeir Ásgeirsson kjörinn forseti eftir harða baráttu við séra Bjarna Jónsson vígslubiskup. Árið 1968 sigraði Kristján Eldjárn tengdason Ásgeirs Gunnar Thoroddsen og árið 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti og Ólafur Ragnar Grímsson síðan árið 1996.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Og nú er sjálfstæðinu að ljúka. Í það minnsta reisninni.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.1.2009 kl. 17:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband