530. - Ég mótmæli allur því nú er fyrsti desember og veðrið sæmilegt. Nenni samt ekki út

Fyrsti desember er á margan hátt meiri þjóðhátíðardagur en 17. júní. Það var þann dag árið 1918 í miðri spönsku veikinni sem við fengum loksins sjálfstæði frá Dönum. Nú er svo komið að augljóst er að við kunnum lítið með það sjálfstæði að fara. Það þynnist sífellt út og ef það á að þýða einangrun frá öllu samstarfi við aðrar þjóðir þá er eins gott að það fari. 

Af hálfu opinberra aðila er alveg hætt að halda nokkuð uppá þennan dag. Það er helst að stúdentar hafi helgað hann einhverjum baráttumálum sínum en að öðru leyti virðist flestum vera sama um daginn. Dagar og dagsetningar hafa líka lítinn tilgang í sjálfu sér. Helst er hægt að finna í þeim einhverja táknrænu. Þessi dagur er samt vel til mótmæla fallinn ef veðrið helst sæmilegt. Helgar eru þó betri eins og Hörður Torfa hefur hvað eftir annað sýnt fram á.

Hver er tilgangur mótmælanna? Dettur einhverjum í alvöru í hug að stjórnin fari bara fara frá einn, tveir og þrír? „Æ, við erum hætt þessu. Takið þið nú við." Annað hvort gerast hlutirnir með blóðugri byltingu sem ég held að enginn vilji í raun og veru eða þá á þann hátt að nýr meirihluti myndast á Alþingi með blessun stjórnvalda eða ekki. Stjórnvöld geta auðvitað ráðið miklu um hvað gerist á Alþingi aðallega vegna þess að stjórnir flokkanna ráða yfir flokksvélum þeirra og geta skipað þingmönnum að gera allan fjandann. Þingmenn þurfa samt ekkert að hlusta á þessháttar píp því þeir eru í raun engum bundnir nema kjósendum sínum.

Ég er engan veginn að segja að mótmæli þau sem nú eru stunduð séu marklaus. Þau hafa áhrif. Skoðanakannanir hafa einnig áhrif. Stjórnskipun landsins er þó þannig að ekki er mögulegt að koma stjórn frá nema með lögformlegum hætti. Annað er að bjóða hættunni heim. Nágrannalöndin eru hætt að treysta okkur í efnahagslegu tilliti og ef hér yrði stjórnarfarsleg upplausn líka væri fokið í flest skjól.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband