524. - Heimspekilegar pælingar. Um Hegelisma og fleira

Ég hef alla tíð verið dálítið hallur undir heimspeki. Á sínum tíma þótti mér mikið koma til fyrirlestra Guðmundar Sveinssonar skólastjóra á Bifröst um þýska heimspekinginn Friedrich Hegel (1770 - 1831). Guðmundur þóttist vera að kenna okkur svokallaða Menningarsögu en talaði bara um það sem hann hafði sjálfur áhuga á.

Kenningar Hegels um tesu antitesu og syntesu höfðuðu mjög til mín og mér hefur alltaf fundist að mörg fyrirbrigði í lífinu sé hægt að setja upp þannig. Mörgum finnst að fræði þau sem heimspekingar bollaleggja um séu torskilin. Það hefur mér yfirleitt ekki fundist. Þeir eru samt oft dálítið sér á parti með skilning sinn á algengum hugtökum og vilja gjarnan skýra hluti um of. Sumt er einfaldlega ekki hægt að skýra og óþarfi að skýra nokkuð.

Mest hef ég áreiðanlega lesið eftir heimspekingana Atla Harðarson og Pál Skúlason og reynt að tileinka mér dálítið efni eftir útlenda frumherja á þessu sviði. Ég hef líka stundum skrifað um að ég sé í rauninni kommúnisti. Samt er Karl Marx sá heimspekingur sem ég hef hvað minnst álit á.

Mörgum finnst einkennilegt að kenna Playboy við heimspeki en það var nú samt einskonar framhald af heimspekipælingum mínum að lesa greinar eftir Hugh Hefner í Playboy. Hann boðaði það afbrigði af kapítalisma sem kallast hedonismi en það er heimspeki sem mér finnst á margan hátt vera undanfari nýfrjálshyggjunnar sem svo er nefnd.

Kommúnisminn mistókst í Rússlandi. Tókst næstum því á Kúbu og gæti tekist í Kína ef alþjóðavæðingin og markaðsbúskapurinn taka hann í sátt. Mér finnst samt kapítalisminn vera miklu misheppnaðri sem stjórnmálaheimspeki því þar er beinlínis gert ráð fyrir því að menn séu afleitir og smáir í hugsun. Hegelisminn gerir hinsvegar ráð fyrir því að ástand allt muni smátt og smátt fara batnandi ef tesukenningin er heimfærð á stjórnmálaheimspeki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kommúnisminn dó allstaðar nema í Kína, þar deyja andstæðingar stjórnarinnar. Kapítalisminn dó svo tveimur áratugum á eftir kommúnismanum. Spennandi verður að sjá hvað tekur við og hvernig mannkynið reynir að setja sér nýjar leikreglur.

Annars finnst mér aðdáunarvert að vita af einhverjum sem les greinarnar í Playboy, þú ert greinilega á hærra plani en undirritaður.

Eiinar Árnason 26.11.2008 kl. 08:44

2 identicon

Mikið er gaman að sjá minnst á Hegel. Hann hefur nú ekki aldeilis átt upp á pallborðið síðustu árin, ef ekki áratugina. Þeir eru þó til, heimspekingarnir sem nota Hegel til að útskýra margt í samtímanum, t.d. eru skrif Hegels um Ógnarstjórnina í Frakklandi heimfæranleg beint upp á þjóðarmorðin í samtímanum.

Söguskilningur Hegels er einstaklega frjó leið til að setja hlutina í samhengi.

Kristján 26.11.2008 kl. 12:15

3 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Segja má að nú sé hegelisk dialectík í gangi í okkar samfélagi.

 Flestir virðast sammæltir um að Kommúnísminn (takið eftir stóra K-inu) sé dauður.

 Nú virðist hugtakið kapítalismi dautt líka.

 Ef til vill kemur út úr þessu synthesan félagsleg markaðshyggja þar sem samfélagsleg ábyrgð er lögð til grundvallar....

 Kveðja,

Eiríkur Sjóberg, 26.11.2008 kl. 13:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband