502. - Um Samuel Langhorne Clemens og tungumálið þýsku

Árið 1880 skrifaði bandaríski rithöfundurinn Mark Twain grein sem hann kallaði "The Awful German Language." Ég las þessa grein einhvern tíma fyrir óralöngu og man að þar hæðist Mark Twain á sinn einstaka hátt að þessu tungumáli í löngu og ítarlegu máli og með ýmsum dæmum. 

Síðan þetta var hef ég alltaf haft heldur horn í síðu þýskunnar þó ég viðurkenni auðvitað að hún sé sannkallað heimsmál. Ég skil mun meira í henni en í flestum öðrum tungumálum. Undanskil þó íslensku, ensku og dönsku. Kunnátta í íslensku leiðir síðan sjálfkrafa af sér skilning á færeysku og ég er alveg sammála því að með dönskukunnáttu megi komast langt í skilningi á norsku og sænsku. Ég er samt með öllu ótalandi á þýsku.

Hörður Haraldsson spretthlaupari og teiknari með meiru átti að kenna mér þýsku þegar ég var við nám á Bifröst í Borgarfirði um 1960. Það gekk illa en ég man að við nokkrir nemendur hans tókum upp þann sið að nota fáeinar þýskar setningar í tíma og ótíma (eflaust aðallega í ótíma) Við Sigurjón Guðbjörnsson tókum til dæmis upp á því að segja ævinlega þegar okkur þótti einhver komast vel að orði:

"Sehr shön Bemerkung, nicht war?"

Þetta gerðum við náttúrlega til að svo liti út að við kynnum þýsku og svo þótti okkur þetta fyndið.

"Ich habe gewesen sein" var líka vinsæl setning en þýðir mér vitanlega ekki neitt sérstakt og er bara hrúga af hjálparsögnum.

Örfáar vísur kann ég á þýsku:

Wer nicht liebt Weib,
Wein und Gesang
er bleibt Nar
sein leben lang.

Þetta er mér sagt að sjálfur Marteinn Lúther hafi látið frá sér fara og hefur það verið þýtt þannig á íslensku:

Sá sem ekki elskar vín,
óð né fagra svanna.
Verður alla ævi sín
andstyggð góðra manna.

Upphafið að kvæðinu fagra um Lórelei eftir Heinrich Heine minnir mig að sé svona:

Ich weiss nicht was soll es bedeuten
dass ich so traurig bin.
Ein Marchen von alten Zeiten
Das kommt mir nicht aus dem Sinn.

Þetta var snilldarlega þýtt á íslensku þannig:

Ég veit ekki af hvers konar völdum
svo viknandi ég er.
Ein saga frá umliðnum öldum
fer ei úr huga mér.

Mér finnst eins og Jónas Hallgrímsson hafi þýtt þetta, en er þó ekki viss.

Því er ég að fjasa þetta um þýsku að þó ég lesi yfirleitt ekki gestabækur þá las ég áðan gestabókina á vef konunnar minnar (123.is/asben). Systir hennar bjó árum saman í Þýskalandi og þarna er að finna ýmislegt um þýsku og á þýsku.

Ólína Þorvarðardóttir sendir bloggvinum sínum öllum brýningu í bankakreppunni og ég er að hugsa um að hlýða henni að hluta. Hún og Lára Hanna eru báðar áberandi í bloggheimum og skeleggar í pólitíkinni eða það finnst mér.

Burt með spillingarliðið.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér þykir afskaplega vænt um nokkra bloggara hér á mbl.is. Flestir eru þeir karlar og af einhverjum ástæðum ( eðlilegum, ef litið er á statistík) byrja nöfn þeirra flestra á S.

Þessi væntumþykja stafar af því að þeir rita svo fallegt mál og stundum þeysa þeir fram á ritvöllinn með pennann að vopni til þess að verja sína huldumey: íslenzka tungu.  Ekki mun af veita í því glórulausa náttmyrkri, sem menn eru að fálma sig fram í þegar kemur að málmeðferð. Fyrir mig sem eftir langa ,langa útivist í allnokkrum löndum er að reyna að endurvekja móðurmálið, eru margir bloggarar og mbl.is málskemmandi, því miður.  Ég vil hvetja "málperverta" og beturvitringa að sitja fast við sinn keip og róa öllum árum að bættri málnotkun.

Þökk sé Sæmundi og  þeim öllum.

  (Ég varð fyrir vonbrigðum með veðurvitann þegar hann afneitaði jazzinum. Og meira að segja tvisvar!)

 

S.H. 6.11.2008 kl. 09:48

2 identicon

Ég held að Steingrímur Thorsteinsson hafi þýtt Lorelei og jafnvel einhver annar, en ekki Jónas Hallgrímsson.
En Jónas þýddi annað kvæði eftir Heine. Það heitir í þýð ingu hans Sæunn hafkona og hefur svipað þema.

S.H. 6.11.2008 kl. 10:10

3 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Sæll Sæmundur

Skemmtilegur pistill hjá þér!

Auðvitað finnst mér þýskan á eftir íslenskunni vera næst fallegasta tungumál í heimi!

Á þessu tungumáli hafa verið mörg af fallegustu ljóðum og bókum, sem samin hafa verið.

Þýsk menning er þó annað og meira, því hvergi annarsstaðar hefur verið samið annað eins ógrynni af sígildri tónlist og þar í landi.

Að auki eiga og áttu þjóðverjar óteljandi fræga málara og myndhöggvara og arkitekta o.s.frv.

Hvað uppfinningar varðar, komast fæstir með tærnar þar sem þeir hafa hælana.

Það er virkilega skömm að því, hvernig síðari heimsstyrjöldin og nasisminn færði Ísland og reyndar öll Norðurlöndin í burtu frá þessu móðurlandi germanskrar menningar, sem við auðvitað tilheyrum.

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.11.2008 kl. 12:05

4 identicon

Hér segir frá annars konar "Lorelei" sem seiðir menn til sín með "trolska kvad" (kvad= kvæði eða þula) Hægt er að hlusta á Jussi Björling syngja þetta yndislega fallega á www.YouTube.com ef maður skrifar inn titilinn.


Jungfrun under lind.

Ljóð: Ernst von der Recke. Lag: Wilhelm Peterson-Berger.

I våren knoppas en lind så grön
med rosor och marsviol.
Där under sitter en jungfru skön
och sömmar i klaran sol.

Själv är hon liksom en sol i vår
som äpplet är hennes kind.
När hon vid spegeln slår ut sitt hår
det faller som blomster från lind.

Som solen fångas av lindens blad
så fängslar hon håg och sinn,
så har hon mig bundit med trolska kvad
och tagit mitt hjärta in.

S.H. 6.11.2008 kl. 21:14

5 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Yndislegt lag og ljóð, sem ég hef sjálfur sungið og nokkrir nemenda minna!

Takk fyrir ábendinguna með Jussi Björling!

Allt er nú að finna á "You Tube"!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.11.2008 kl. 22:12

6 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hlustaði á Björling!

Yndislegt!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 6.11.2008 kl. 22:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband