498. - Krepputali lokið í bili. Held þó áfram ef tilefni gefst

Æ, það er best að hætta þessu krepputali og reyna að rövla um eitthvað annað.

Er ekki kvótinn margumræddi samt alveg að verða ónýtur sem umræðuefni? Nota hefði átt tækifærið um daginn til að gera eitthvað krassandi. Þá var kallinn á Suðurnesjum, sem fiskaði víst í óleyfi, í fréttunum dag eftir dag og lögreglunni var greinilega hálfilla við að vera að jagast í honum en neyddist til þess.

Ja, nú er það svart maður. Prins póló að klárast.

Menn nota ýmis ráð í kreppunni til að auglýsa sig. Þetta með prins pólóið er nú eitt það sniðugasta.

Ja, nú er það svart maður. Allt orðið hvítt, sagði fjárleitarmaðurinn um morguninn þegar hann kom útúr tjaldinu og sá að snjóað hafði um nóttina.

Nú er Gurrí að færa sig af Moggablogginu á DV bloggið. Það hafa nú fleiri gert og flestum leiðst þar hefur mér sýnst. Bíð bara eftir að mér verði boðið að flytja á Moggabloggið. Assgoti verður gaman að segja nei. Kannski bjóða þeir peninga fyrir flutninginn. Nei annars. Hvar ættu þeir að fá hann?

Hef alltaf gaman af að lesa athugasemdirnar sem ég fæ við bloggið mitt. Afar sjaldan eru þær svo neikvæðar að ég hrökkvi við. Samt kemur það fyrir og slíkar athugasemdir eru oftast nafnlausar. Ég svara þó ekki athugasemdum sem ég fæ nema mér finnist einhver sérstök ástæða til þess. Oftast væri samt alveg ástæða til að þakka fyrir þær en ég er svo latur að ég nenni því ekki.

Eftir því sem maður skrifar meira því meira á maður óskrifað. Þetta er nú eiginlega bara að segja það með öðrum orðum að æfingin skapi meistarann. Mér er minnisstætt að þegar við gáfum út Borgarblaðið i Borgarnesi og ákváðum að hafa það alltaf að minnsta kosti sextán síður að við vorum að velta fyrir okkur hvernig okkur gengi að fylla blaðið af efni. Áður en langt um leið voru samt farnar að safnast upp greinar hjá okkur.

Ég hugsa að ég eigi einhvers staðar niðri í kjallara öll tölublöðin sem út komu af Borgarblaðinu. Kannski maður ætti að skanna þau og setja á netið. Varla gera aðrir það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband