490. - Að koma fram í Silfrinu er líklega nokkurs virði

Ekki fór ég í mótmælin sem boðuð voru fyrir viku. Fannst Dr. Gunni þó gerast afturhaldssamari og silfursæknari en ég átti von á þegar hann dissaði mótmælendur þó hann hefði lagt nafn sitt við hégómann. Svo er að skilja að til standi að mótmæla á laugardögum framvegis og lögreglan virðist ætla að halda sig við það að jafnan taki um 500 manns þátt í svona mótmælum.

Ráðamenn eru komnir með lífverði. Miklir menn erum við Hrólfur minn. Sennilega veitir útrásarvíkingum ekki af lífvörðum næst þegar þeir voga sér hingað upp á skerið. Annars virðist orðið útrásarvíkingur vera að verða einskonar blótsyrði í málinu. Merkilegt.

Ég man þá tíð hér á Íslandi að fáránlegt hefði verið að minnast á lífverði. Eitt sinn rakst ég ( já, bókstaflega ) á Bjarna Benediktsson í mannþrönginni í Austurstræti á hátíðahöldunum 17. júní. Þetta var þegar hann var forsætisráðherra.

Um helgina þegar mest gekk á í fundahöldum og þess háttar í Ráðherrabústaðnum sat ég að tafli í Rimaskóla eins og margir aðrir. Þar fór þá fram fyrri hluti deildakeppni Íslands í skák. Föstudaginn áður hafði ég komið að Glitni við Kirkjusand og þar gekk mikið á. Ekki datt mér í hug að mánudagurinn á eftir yrði mánudagurinn svarti 6. október.

Í framtíðinni verður október 2008 frægur í sögunni. Þá helltist fjármálaóreiða undanfarinna ára yfir okkur Íslendinga of miklum ofsa. Þegar nóvember kemur er alls ekki víst að nokkur möguleiki verði að gera sér grein fyrir hvað allt þetta þýðir. Sú tíð kemur samt örugglega.

Södd þjóð gerir aldrei byltingu. Þetta segir Arnþór Helgason og ber Stefán Jónsson fréttamann fyrir því. Sonur Stefáns er Erfðagreiningar-Kári. Nú er sagt að Íslensk Erfðagreining sé að flytjast úr landi (eða fara á hausinn - man ekki hvort). Það þykja smámunir. Öðruvísi mér áður brá.

Hvenær rennur bannið við nornaveiðum út? Oft er talað um að kjósendur séu fljótir að gleyma. Í þetta sinn held ég að gleymskan geti orðið erfið. Samt held ég að til bóta væri að kjósa fljótlega. Engin ástæða er að bíða með það til 2011.

Nú fer að ljúka heimsmeistaraeinvíginu í skák milli Kramniks og Anands og benda allar líkur til að Anand vinni það sannfærandi. Skyldi vera að komast á friður um þessi mál? Ég hef ekki fylgst með undanfarið en allar götur síðan Kasparov og Short slitu sig frá FIDE forðum hafa þessi mál öll verið í óttalegu limbói.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólafur Ragnarsson

Sæll Sæmundur!Tek undir flest sem þú skrifar.En minnugir þess er skeði fyrir tæpum 23 árum í Stockholmi þá finnst mér það í lagi að þessir menn njóti einhverskonar verndar nú um stundir.En svo má kannske deila um hvort farið hafi fé bet...Kært kvaddur.

Ólafur Ragnarsson, 26.10.2008 kl. 17:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband