444. - Áframhaldandi vísnastagl

Séra Helgi Sveinsson sem lengi kenndi við Barna- og Miðskólann í Hveragerði gerði oft skínandi góðar vísur. Þessa gerði hann um Vigni bróðir minn.

Þó að skyggnist þoka um grund.
Þó að rigni á vegi.
Þó að Vignir vökni um stund
viljinn dignar eigi.

Kannski var eftirfarandi vísa að einhverju leyti runnin undan rifjum Séra Helga. Hún varð til í skólanum í Hveragerði þegar festa þurfti pýþagórasar-regluna í minni nemenda.

Ef spurningin skyldi skella á mér
Skeð gæti verið ég teldi.
Langhlið í öðru jafnt skammhliða skver
og skammhlið í öðru veldi.

Einhver kennarinn hafði að orðtaki „skeð gæti verið" og gott ef annar kennari talaði ekki oft um að spurningar og sitthvað fleira skylli á sér. Þessvegna er vísan enn sniðugri en ella.

Þessi braghenda ku vera eftir Árna Óla:

Það sé ég á þínum fótum þýð mær.
Að þar sem mætast þykk lær
þar er enginn kotbær.

Selaskytta ein sem Friðrik hét hafði að orðtaki þegar selurinn lá: „Heppinn var ég núna." Ef skotið virtist á hinn bóginn ekki gera selnum neitt sagði hann jafnan „hitti á bein." Eitt sinn var Friðrik þessi fenginn til að fylgja stúlku yfir fjallveg og segir ekki af ferðum þeirra. Níu mánuðum seinna ól stúlkan samt barn og kenndi Friðriki. Þá var ort:

Friðrik hitti faldarein
fagurlega búna.
Hann hefur ekki hitt á bein
heppinn var hann núna.

Á sínum tíma las ég talsvert eftir Guðmund Gíslason Hagalín. Meðal annars er mér minnisstætt þegar hann lýsti því hvernig nafnið á einni bók kom til hans í svefnrofunum eftir að hann hafði velt nafni á hana lengi fyrir sér. Það var bókin „Ég veit ekki betur", sem þannig fékk nafn. Hagalín var góður og skemmtilegur rithöfundur og ég held ég hafi lesið allar sjálfsævisögulegu bækurnar hans. Ég man vel að eftirfarandi vísa var í einni þeirra og mér þótti hún afskaplega djörf í þá daga. Hún er svona:

Þú er Manga þægileg
þar af ganga sögur.
Æ, mig langar uppá þig
eikin spanga fögur.

Bullvísur í Æru-Tobba stíl eru oft skemmtilegar. Tobbi var oft fyndinn og þrátt fyrir bullið er hann yfirleitt með stuðlasetninguna á hreinu. Mér er minnisstæð ein vísa eftir hann. Kannski er það vegna þess að ég er ættaður úr Ölfusinu eða nánar tiltekið úr Hveragerði. Vísan er svona:

Urgara surgara urra rum.
Illt er að vera í Flóanum.
Þambara vambara þeysings klið.
Þó er enn verra Ölfusið.

Næstu þjár vísur eru úr ýmsum áttum og eflaust eftir ýmsa höfunda. Sameiginlegt eiga þær það að engin þörf er á útskýringum.

Er við sáum áfram líða
allan þennan meyjafans.
Þyngdarlögum hætti að hlýða
hluti nokkur líkamans.

Rösklega er riðið í hlað
rétt fyrir sólarlagsbil.
Ég er nú hræddur um það
það er nú líkast til.

Það að yrkja er þjóðargaman.
Þetta er fyrri hendingin.
Vísu þessa setti ég saman.
Svona verður endingin.

Jæja nú er ég hættur. Ef ég set saman svona vísnaþátt bráðlega aftur þá má búast við að Káinn eigi eitthvað þar. Það voru einmitt að rifjast upp fyrir mér fáeinar snilldarvísur eftir hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Valgerður Sigurðardóttir

Flott færsla. Ægilega gaman að lesa eitthvað skemmtilegt þegar maður nennir ekki að byrja daginn

Valgerður Sigurðardóttir, 8.9.2008 kl. 07:23

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Klukk, Sæmundur minn.

Sigurður Hreiðar, 8.9.2008 kl. 10:04

3 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Bráðskemmtilegir vísnapistlar, takk! 

Lára Hanna Einarsdóttir, 8.9.2008 kl. 10:24

4 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Gaman að svona vísnabloggum, Káinn var auðvitað óborganlegur. Mér þykir líka mjög gaman að vísunum hans þar sem hann "slettir" og tvinnar saman íslensku og ensku á hátt sem engum öðrum hefur tekist á viðlíka snilldar máta.

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 8.9.2008 kl. 11:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband