419. - Þann 4. ágúst bloggaði ég smá um Ólaf borgarstjóra og minntist á hann í fyrirsögninni. Það dugði

Flettingar hjá mér urðu á þriðja þúsund þann daginn. Sem er met. Þetta sýnir að áhugi fólks á borgarmálefnum og stjórnmálum yfirleitt er mikill.

Fyrirsögnin var svohljóðandi: „Ég hef áhyggjur af Ólafi. Ég verð bara að segja það." Auðvitað var fyrirsögnin sneið til framsóknarmanna en mér datt ekki í hug að þeir kæmu svona fljótt til hjálpar Sjálfstæðismönnum. Áhrif þessa gjörnings sem nú er orðin staðreynd á fylgi framsókarflokksins bæði í Reykjavík og á landsvísu eru áhugaverð. Guðni gæti grætt á þessu og hangið lengur við völd þar en ella hefði orðið. Björn Ingi hlýtur að vera svolítið hugsi.

Pistill minn þennan dag fjallaði samt ekki mikið um Ólaf borgarstjóra. Einkum var ég að gagnrýna hann fyrir framkomu sína við Helga Seljan í Kastljósinu og eftir það. Mér dettur ekki í hug að halda að ég hafi átt einhvern þátt í þeirri atburðarás sem nú er orðin.

Ég ætla heldur ekki að blogga mikið um tíðindi dagsins að þessu sinni. Til þess eru aðrir færari en ég. Betra er fyrir mig að vaða bara elginn um allt og ekkert eins og ég er vanur.

Hvort er betra að blogga oft og illa eða sjaldan og vel. Veit það ekki og þetta þarf ekki að skiptast svona. Jafnvel er hægt að blogga oft og vel eða sjaldan og illa. Markmið fólks eru líka misjöfn með blogginu. Vinsældablogg, fréttablogg, fyrirsagnablogg, linkablogg, stjórnmálablogg, fjölskyldublogg, íþróttablogg, bókmenntablogg, minningablogg, brandarablogg, náttúruverndarblogg, nöldurblogg, málfarsblogg, myndablogg, ferðablogg og þannig mætti lengi áfram telja.

Ég reyni að blanda þessu öllu saman og blogga á hverjum degi ef ég get. Mér finnst það nokkuð mikið en ekki er víst að öllum finnist það. Margir blogga oft á dag. Ég reyni að fara ekki með hvert blogg mikið yfir eina vélritaða Word-síðu en bæti þó stundum nokkrum myndum við.

Langmest gaman finnst mér að blogga um blogg. Það er endalaust hægt að fjölyrða um þetta merkilega fyrirbrigði sem margir elska að hata.

Ég forðast frekar en hitt að blogga um fréttatengt efni. Þó er ekki alltaf hægt að stilla sig. Það er samt ekkert keppikefli að hafa fyrirsagnir þannig að sem flestir skoði bloggið en auðvitað kitlar það hégómagirndina þegar svo er.

Í fréttum ríkissjónvarpsins í kvöld í smáhléi frá borarstjórnarfréttum var örstutt viðtal við Gísla Kjartansson sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Mýrasýslu. Greinilegt er að hluti af því sem mun gerast í málefnum Sparisjóðsins er að hann verður neyddur til að segja af sér. En hvað leysir það? Ekkert að mínum dómi.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jáhá, blogg dagsins hjá þér var greinilega bloggblogg :) 

Ég vildi að þú hefðir komið með snobbblogg í upptalningunni áðan. Ég hef dáldið gaman af orðum með þrjá eins stafi í röð.  Hvílíkt orð! Ein þriggja stafa stæða og endað á tveimur eins. Prófaðu að segja þetta upphátt, Snobbblogg!

Hafdís Rósa 15.8.2008 kl. 12:14

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þú gleymir að telja upp bestu bloggin: VEÐURBLOGGIN!

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.8.2008 kl. 00:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband