417. - Um þorskastríð og þessháttar

Í einhverju þorskastríðinu skaut íslenskt varðskip nokkrum fallbyssuskotum að breska togaranum Everton. Skeði þetta fyrir norðan land. Sagt var frá þessu í fréttum og ég man að fjölmiðlar og allir sem eitthvað fjölluðu opinberlega um þetta mál voru innilega sammála í bretahatrinu. Mér varð hugsað með hryllingi til þess þá hve lítið þarf í raun og veru að gera til að trylla heila þjóð og æsa til óhæfuverka. Ef við hefðum ekki verið svo stálheppin að hafa alveg óvitlausa skipherra á varðskipunum gæti ég vel trúað að til mannvíga hefði komið.

Mér datt þetta svona í hug í tilefni af Ossetíumálinu. Ekki ætla ég mér þá dul að segja til um hvort Georgíumenn eða Rússar hafi rétt fyrir sér í því. Mér finnst bara ótrúlegt að Rússar geri þetta af einhverri ást á uppreisnarmönnum. Annað hlýtur að hanga á spýtunni. Hugsanlega olía eða aðgangur að henni. Svo er ekkert skrítið þó Rússar vilji fara sínu fram úr því Bandaríkjamenn komast hæglega upp með það.

Las um daginn smásagnasafn eftir Einar Kárason. Einar er oft bráðskemmtilegur og mikill sagnamaður. Meðal annars segir hann frá einhverju rithöfundasammenkomsti í Noregi þar sem Margit Sandemo var meðal annarra og hún var allt öðru vísi en Einar hafði búist við. Sagði til dæmis ósköpin öll af tvíræðum bröndurum eins og um Texasbúann sem fór til Alaska. Einar endursegir þann eldgamla brandara og þó staðfræðin og nöfnin séu öðruvísi er þetta greinilega sami brandarinn. Mér datt þetta í hug af því að nú er ég kominn með nýjan bloggvin (ladyelin.blog.is) sem er mikill aðdáandi ísfólksins hennar Sandemo.

Í einni sögunni í bókinni er minnst á þá Búbónisbræður en samt aðallega fjallað um Jónas Árnason. Ég man mjög vel eftir honum og þessvegna er mér sagan minnisstæðari en ella. Skrifa kannski meira um Jónas seinna.

Flestir þéttbýlisstaðir landsins hafa einhverja sérstaka hátið núorðið. Blómstrandi dagar verða í Hveragerði um næstu helgi. Bjössi bróðir verður með ljósmyndasýningu á Bókasafninu í Hveragerði í tilefni hátíðarinnar og eitthvað lengur að ég held. Hann var með einskonar forsýningu heima hjá sér fyrir okkur systkinin á sunnudagskvöldið og þá fengum við okkur líka að borða öll saman í Þrastalundi.

Á laugardagskvöldið vorum við Áslaug aftur á móti á nokkurs konar ættarmóti að Smáratúni í Fljótshlíð.

Var að horfa á kastljósið áðan þar sem fullyrt var að brunarústirnar í miðbænum verði horfnar fyrir lok árs 2009 og ný hús komin í staðinn. Ég er alveg viss um að þetta mun ekki standast. Plús tvö ár - kannski.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband