413. - Að vakta umræður á moggablogginu

Ég er nýtekinn upp á því að vakta umræður sem mér finnst vera merkilegar á moggablogginu. Les varla önnur blogg orðið. Ég þarf ekkert að taka þátt í þeim umræðum frekar en ég vil en fæ alltaf að vita ef ný komment bætast við. Í gær vaktaði ég til dæmis umræður sem spunnust útaf góðri grein Hrannars Baldurssonar um blogg sem heitir: „Er Geir Haarde að dissa bloggara?" og sé ekki eftir því. Sum kommentin þar eru mjög góð. Kristján H. sem virðist ekki vera bloggari skrifar þar til dæmis ágætt komment um stjórnarandstöðu bloggara og líklega þróun bloggsins. Það að geta fylgst með umræðum er góð viðbót hjá þeim moggabloggsstjórnendum. Áður var þetta þannig að maður gat aldrei vitað nema maður væri að missa af góðum kommentum.

Ekki komst ég á listann hjá Kalla Tomm og súta það ekki. Sá þó ekki betur í gær en einn aðili hefði minnst á mig. Það var auðvitað stórfrændi minn, eðalbloggari, tölvugrúskari og topplistahöfundur Gunnar Helgi Eysteinsson sem það gerði.

Menn eru að furða sig á því að ég skuli vera að hallmæla Guðna Ágústssyni. Samt er ég víst skráður í Framsóknarflokkinn vegna þess að ég tók einu sinni þátt í prófkjöri hjá þeim. Hló samt þegar þeir reyndu að rukka mig um árgjald eða eitthvað slíkt. Það getur verið að hægt sé að notast við Guðna sem þingmann og ráðherra en hann er ekki gerður úr því efni sem þarf í flokksformenn.

Það mun hafa verið nokkrum árum fyrir 1990 sem nikótíntyggjó kom fyrst á markaðinn. Þetta var sagt ágætt að nota til þess að hætta að reykja. Um það leyti voru flestir farnir að gera sér ágæta grein fyrir óhollustu tóbaks en á það hafði skort nokkuð þegar sígarettur voru fyrst að nema land hér að einhverju marki.

Nikótíntyggjó var þó lyfseðilsskylt og nauðsynlegt að fá leyfi læknis til að geta fengið að nota slík ósköp. Ekki fór fáviska þessi þó framhjá öllum því að nokkrum tíma liðnum var leyft að selja þessi stórhættulegu eiturlyf hverjum sem var. Sú breyting gekk í gildi um áramótin 1990 og 1991 og ég ákvað að láta verða af því einu sinni enn að hætta að reykja.

Um þetta leyti vann ég á Stöð 2 en átti heima í Hveragerði. Ekkert Apótek var í Hveragerði um þetta leyti að ég held enda hefði það ekki breytt neinu því það hefði eflaust verið lokað á nýjársdag 1991. Það var sá dagur sem ég þurfti að þrauka nikótíntyggjólaus auk sígarettuleysisins en um morguninn 2. janúar lét ég það verða mitt fyrsta verk að kaupa mér nikótíntyggjó í Árbæjarapóteki. Mér er það minnisstætt að ég var fyrsti maðurinn sem nýtti mér þar hið nýfengna frelsi og keypti mér nikótíntyggjó án þess að sýna framá það skjallega að ég þyrfti á því að halda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hrannar Baldursson

Reyndar skilst mér að nikótíntyggjó sé ekkert hættuminna en nikótínið í sígarettunum. Eini munurinn er að fólk er ekki að dreyfa ósómanum út í andrúmsloftið með tyggjóinu. En það ku taka virkan þátt í að þrengja kransæðar.

Hrannar Baldursson, 8.8.2008 kl. 10:56

2 Smámynd: Beturvitringur

Í tyggjóinu er þó ekki NEMA nikótín, en niðurstöður rannsókna sýna fram á u.þ.b. 4000 efni og efnasambönd sem maður nær sér í (og dreifir) með því að REYKJA það; vindlingana sem sagt.

Beturvitringur, 8.8.2008 kl. 20:20

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það er bara visst lið sem les bloggið hans Kalla Tom eins og öll önnur blogg. Til að velja "besta" bloggarann þyrfti meiri breidd. En fyrst og fremst er þetta bara vitleysa. Gott að mitt blogg er ekki við alþýðuskap!

Sigurður Þór Guðjónsson, 9.8.2008 kl. 00:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband