406. Dagblaðið "Bloggið mitt" eftir Sæmund Bjarnason

Mér finnst oft eins og bloggið mitt sé einskonar eins manns fjölmiðill. Blað þessvegna. Þessi tilfinning hefur styrkst núna síðan ég fór að birta myndir öðru hvoru og veldur því ásamt öðru að mér finnst endilega að ég ÞURFI að blogga á hverjum degi. 

Auðvitað er það hin mesta firra. Ég hef bara svo gaman af að skrifa að ég get ekki stillt mig. Ég velti því oft fyrir mér útá hvað ég hafi þessu föstu lesendur sem ég greinilega hef. Tæpast eru þetta tómar tilviljanir. Varla er ég svona skemmtilegur og ekki eru þetta allt ættingjar.

Síðan ég hætti að hafa til sýnis hve margir kíka á bloggið mitt hefur lesendum mínum stórfjölgað. Forsíðubloggið hefur þar sín áhrif. Á því er enginn vafi. Mér finnst það þó ekki síður vera útaf því að ég blogga næstum alltaf fremur stutt (OK - mér finnst það en kannski engum öðrum.) og mjög reglulega.

Þetta var blogghugsun dagsins og nú að öðru.

Vitnaði í gær í kattavísur eftir prófessor Jón Helgason. Því hefur verið haldið fram að eitt fegursta og áhrifamesta ljóð íslenskrar tungu sé Áfangar eftir þennan sama Jón Helgason. Vissulega er það magnað kvæði og eflaust með því allra besta sem Jón hefur gert. Ég hef þó heyrt hann sjálfan gera lítið úr því og tala um að þar sé bara raðað saman orðum og nöfnum sem hljóma vel.

Ef talað er um ljóðagerð hef ég alltaf hrifist mest af Steini Steinar. Hallgrímur Pétursson og Jónas Hallgrímsson eru þó engum líkir og að skáldskapur þeirra skuli enn lifa með þjóðinni er með ólíkindum. Tómas Guðmundsson og Davíð Stefánsson finnst mér bara hafa verið liprir hagyrðingar og fyrri stórskáld hafa flest verið of bundin sínum tíma. Einar Benediktsson var þó mikill spekingur að viti.

Nú er ég búinn að næla mér í ljóðasafn Jóns Helgasonar sem gefið var út árið 1999 en þá voru 100 ár frá fæðingu hans og vel getur verið að ég fái aukið álit á honum við lestur þess. Kvæði hans flest önnur en Áfangar hafa sjaldan heyrst.

Sagt er að Sverrir Stormsker hafi verið að þjarma að Guðna Ágústssyni á útvarpi Sögu og farið svo illa með hann að Guðni hafi loks gengið út í beinni útsendingu. Einhvern tíma er ég að hugsa um að hlusta á það viðtal. Til dæmis á vefsetrinu hans Sverris. Sverrir á það til að vera ótrúlega beinskeyttur í spurningum og lætur menn ekki komast upp með neinn vaðal ef sá gállinn er á honum. Stundum bullar hann reyndar svo mikið sjálfur að raun er að.

Helgi Seljan var líka að þjarma að Ólafi borgarstjóra og ég horfði áðan á upptöku af því viðtali. Mér fannst hvorugur komast vel frá því. Ólafur hafði þó tvímælalaust meiru að tapa. Mér fannst hann einfaldlega ekki skilja hvaða embætti hann gegnir. Metnaður hans virtist liggja í að stjórna þættinum.

 
IMG 2020Picture 035Picture 054Picture 063Picture 082Picture 104

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

ég fæ, óumbeðið, auglýsingapésana 24 stundir og Fréttablaðið í póstkassann minn. þeir pésar lenda yfirleitt í ruslatunnunni á leið minni inn til mín.

ég kýs heldur 'blöð' eins og þetta blogg, með flottum myndum af umhverfinu og skemmtilegu spjalli og vangaveltum. persónulegt og skemmtilegt.

farðu samt varlega í vínarbrauðin. mér skilst að aristókratískir bloggarar eigi til að fá meltingartruflanir, af öllum vínarbrauðunum, snittunum og kavíarnum.

Brjánn Guðjónsson, 1.8.2008 kl. 03:05

2 Smámynd: Hrannar Baldursson

Glæsilegar myndir og flott blogg.

Bestu kveðjur úr Breiðholtinu.

Hrannar Baldursson, 1.8.2008 kl. 08:44

3 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Tek undir orð Hrannars

Gunnar Helgi Eysteinsson, 1.8.2008 kl. 13:18

4 Smámynd: Beturvitringur

Eins og þú kemur mér fyrir sjónir líkar mér mjög vel rólegt og æsingalaust yfirbragð skrifa þinna.  Þú kannt að vera ofstækismaður og illvirki  en það kemur þá allavega ekki fram á blogginu þínu. Ef e-r spyrði, segði ég að þú væri "fínn kall"

Beturvitringur, 1.8.2008 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband