2.7.2008 | 01:05
377. - Virkjanir eða virkjanir ekki, það er verkurinn
Það er enginn vafi á því í mínum huga að umhverfismál, náttúrvernd og auðlindamál verða þau mál sem skilgreina fólk einkum í stjórnmálaflokka í framtíðinni. Að því leyti til finnst mér hægri og vinstri skilgreiningar vera orðnar dálítið úreltar þó vel megi nota þær í sambandi við almenn efnahagsmál, samskipti launþega og atvinnurekenda og jafnvel samskipti stjórnvalda og þegna.
Skoðanir fólks á náttúruvernd fara alls ekki eftir almennum stjórnmálaskoðunum þess. Vinstri menn hafa haft tilhneigingu til að eigna sér öll mál af þessu tagi hægri mönnum til sárrar gremju. Mín skoðun er sú að hægri menn geti sem best verið öflugir náttúruverndarmenn og vinstri menn á sama hátt virkjanasinnar.
Gamla skilgreiningin um vinstri og hægri á ekki við þegar kemur að þessum málum og það veldur því líka að stjórnmálamenn geta ekki með árangri fjallað um þau eins og nú er komið. Málflutningur þeirra verður ótrúverðugur vegna þess að sem pólitíkusar verða þeir að dragnast með og afsaka gerðir flokka sinna í þeim málum sem um ræðir.
Umræða um náttúruvernd hefur verið mikil að undanförnu. Grasrótarsamtök hafa unnið mikilvæga sigra í viðureign við stjórnvöld og hálfopinber fyrirtæki. Enginn efi er á að þetta mun hafa áhrif. Orkufyrirtæki munu gæta þess að vaða ekki með ofbeldi yfir þá sem eru á móti þeim og þeirra gerðum. Hvorugur aðili mun ná öllu sínu fram en við sem á horfum getum bara vonað að niðurstaðan verði ásættanleg.
Öflugir náttúruverndarsinnar eins og Lára Hanna Einarsdóttir ættu að forðast að blanda flokkspólitík í þessi mál. Sama er um andstæðinga hennar að segja og þá færist heitasta umræðan um þetta út fyrir flokkspólitíkina. Sem er mjög gott. En fyrr eða síðar leitar hún þangað aftur og þegar nær dregur kosningum verða þessi mál jafnt og þétt flokkspólitískari.
Ég er einn þeirra sem á í vandræðum með að ákveða hvor hópurinn er meira sannfærandi, náttúruverndarmenn eða virkjanasinnar. Nauðsynlegar og hlutlausar upplýsingar um þessi mál liggja ekki alltaf á lausu og þó þeim sem hópunum fylgja af einlægni sýnist oft auðvelt að ákveða sig er alls ekki svo og ég er viss um að fleiri en ég eiga í vandræðum með þetta.
Það er veikleiki minn og hefur verið lengi að ég les allt of mikið af bloggum. Þar er mörg vitleysan sögð en einnig má þar finna margan fróðleik um þessi mál og önnur. Satt að segja er það einkum einn bloggari sem stundum tjáir sig um auðlindir landsins og þessi mál öll með þeim hætti sem mér hugnast sífellt betur og betur.
Þessi bloggari er Anna K. Kristjánsdóttir. Hún er eflaust vinstrisinnuð eins og kvenfólk er oft, en það skiptir mig engu máli. Ég hallast mjög að viðhorfum hennar til náttúruverndar og stóriðju. Hún hefur að ég held lýst yfir stuðningi við álver og jafnvel Bitruvirkjun og Þjórsárvirkjanir en er mótfallin olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum með rökum sem mér finnst vera skynsamleg.
Nú er ég líklega kominnn lengra í pólitískum hráskinnaleik en ég ætlaði mér. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson líkti mér í kommenti um daginn við öskrandi ísbjörn útaf Tjörnesi. Meinti líklega að ég væri sífellt að öskra á sig án þess að vera nokkurn hlut hættulegur. Kannski rataðist þar kjöftugum satt á munn því mér þykir einmitt gaman að láta í mér heyra.
Athugasemdir
Er gjörsamlega ómögulegt að náttúruvernd og virkjanir geti farið saman? Er ekki að sýna sig núna fyrir austan að þegar stórframkvæmdir eru orðnar að veruleika draga þær til sín ferðamenn sem vilja sjá stórvirkin með eigin augum?
Er „vernd" endilega hið sama og aðgerðaleysi?
Hvort ætli þetta séu nú hægri eða vinstri spurningar?
Sigurður Hreiðar, 2.7.2008 kl. 10:24
þannig hljómar þetta, að vera umhverfisinni er að gera ekki neitt. Annað sem ég hef aldrei skilið hvað tilgangi það þjónar að stilla upp orkuvirkjun og ferðaþjónsustu sem andstæðum, einhver hundlógik? Siðan má alveg velta því fyrir sér hverjir það eiga að vera sem vinna í hinni dásmamlegu ferðaþjónustu og hvaða menntunar er þar krafist. Er einhver vinna fyrir iðnaðarmenn þar önnur en að gera við leka krana og bilaðar uppþvottavélar? Las í Mogganum í morgun að margir útlendingar vinni í ferðaþjónustunni vegna þess að 'Islendingar fást þar ekki til starfa. Ég tala sjálfsagt fyrir munn margra að hafa lítinn áhuga á að vinna meðan aðrir eru í fríi en þess er krafist í ferðaþjónustunni. þetta er ófjölskylduvæn starfsemi.
Guðmundur Geir Sigurðsson, 2.7.2008 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.