360. - Hellisheiðarvirkjun skoðuð

Einkennilegur er merkingarlegur viðsnúningur orða. Alveg er ég viss um að einhverntíma hefur það þýtt sama og nautheimskur að vera talinn kýrskýr. Nú þykir fínt að vera kýrskýr. Einhverntíma hefur þótt fyndið að kalla þann sem var feitur íturvaxinn. Svo breytist merkingin smátt og smátt. Um þetta eru ugglaust til fleiri dæmi.

Fjölmiðlamenn taka oft undarlegu ástfóstri við ómerkileg orðatiltæki. Núorðið er allur fjandinn í burðarliðnum, jafnvel allskyns dót og drasl. Hvaða burðarlið? Mér finnst hálfdónalegt að tala um að aðrir séu í burðarliðnum. Svo er merkilegt hve margir líta aftur fyrir sig (líta við) þegar þeir fara eitthvert.

Þú lýgur meira en þú mígur, sögðum við krakkarnir stundum. Síst af öllu vorum við að vanda okkur við að tala, enda vissum við ekki hundaskít um málvöndun. Það var líka fátt til að glepja okkur. Í bíóinu hjá Siggu og Eiríki þótti bara gott ef myndir voru með dönskum skýringartexta, íslenskur texti þekktist ekki.

Sigurður Hreiðar og Beturvitringur deila pínulítið um orðalagið að vera með „farþega innanborðs".  Mér finnst allt í lagi með orðalagið en er sammála Beturvitring um að það er óþarfi að taka fram að farþegarnir séu innanborðs. Mín reynsla er sú að oft megi skera af  texta og stytta hann. Stundum reyni ég þetta, en það tekur tíma og umhugsun.

Fór á bekkjarsamkomu í gær þar sem við vorum samankomin nokkur úr bekknum sem við vorum í seinustu árin okkar í skólanum í Hveragerði. Við fórum og skoðuðum Hellisheiðarvirkjun, keyrðum uppá Skarðsmýrarfjall, þar sem var svartaþoka og lítið að sjá. Fórum einnig uppað Ölkelduhálsi, en þar var heldur ekki mikið að sjá og húðarrigning svo ekki var fýsilegt að ganga þar um. Síðan fórum við aftur niður í Hveragerði, keyrðum um þorpið og fórum uppað nýja hverasvæðinu við Reyki. Kvöldmat fengum við okkur saman á Örkinni og þá hafði fjölgað svolítið í hópnum. 

Hér eru nokkrar myndir úr ferðalaginu:

IMG 0800IMG 0803IMG 0807IMG 0815IMG 0816IMG 0819IMG 0794IMG 0797


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Ég held að við Beturvitringur séum í raun ekkert að deila. Ég man bara eftir því hve oft ég fékk að vera farþegi utanborðs hér áður fyrr (standa á brettinu á einhverjum vörubílnum spotta og spotta, áður en einhverjum snillingi datt í hug að það væri hrikalega hættulegt, og man einnig eftir því einhverju sinni að kónguló hafði tekið sér far með mér án þess ég vissi fyrr en ég mætti konu sem sagði: „Heyrðu, dokaðu aðeins við, ég held þú sért þarna með farþega sem þú kærir þig ekki um." -- Og hann var sem betur fer utanborðs.

En ég er sammála því að það er yfirleitt til bóta að stytta mál sitt. Og eitt ráð að lokum: ég sá þig um daginn vera eitthvað að fárast um greinarmerkjasetningu. Var það ekki Snorri lærifaðir vor sem sagði e-u sinni: Hafðu kommurnar sem fæstar og ef þú ert í vafa hvort þú átt að setja kommu eða punkt -- hafðu það þá punkt! -- Kannski fer ég hér mannavilt en ráðið er gott.

Sigurður Hreiðar, 8.6.2008 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband