346. - Stjóraleikurinn Hattrick og sveitasíminn á Nesinu

Ég tók þátt í knattspyrnustjóraleiknum Hattrick (http://www.hattrick.org/) af miklum áhuga þangað til ekki alls fyrir löngu. Í þetta má vel eyða drjúgum tíma, en líka er hægt að gera það sem gera þarf á mjög stuttum tíma. Kaup á leikmönnum gátu verið ótrúlega spennandi. Líka jókst verðmæti eigin leikmanna við þjálfun.

Af einhverjum ástæðum datt áhugi minn á þessum leik allt í einu niður. Leikurinn er þó á margan hátt mjög góður. Alveg ókeypis, mikil samskipti við aðra ef maður vill það viðhafa o.s.frv. Kannski ég fari bara að taka þátt í honum aftur. Mig minnir að það hafi verið svona 4 - 5 hundruð Íslendingar sem tóku þátt í leiknum og líklega um milljón manns í öllum heiminum. Leikurinn er upphaflega sænskur og margir svíar sem taka þátt í honum.

Sveitasíminn, já. Margir hafa rætt um það þarfaþing. Þegar ég kom að Vegamótum var hann í fullu fjöri. Þar var svolítið stundað að liggja á línunni en yfirleitt nenntu menn ekki svoleiðis veseni. Allir sem töluðu vissu að verið gat að einhver væri að hlusta og gættu orða sinna.

Símstöðin var á Hjarðarfelli eða nánar tiltekið að Hvammi. Eitt símtæki var í veitingahúsinu og annað í versluninni. Enginn sími var í íbúðarhúsinu mínu sem var í 100 til 200 metra fjarlægð frá veitingahúsinu og búðinni. Það var samt millisamband þaðan og niður í veitingahús. Síðan var kallkerfi milli veitingahússins og verlsunarinnar. Rosaleg tækni hefur þetta verið.

Morguninn eftir að eldgosið hófst í Eyjum var ég úti í búð og kveikti á útvarpi þar. Þegar ég var búinn að átta mig á hvað var eiginlega verið að tala um, flýtti ég mér að fara í kalltækið og segja þeim sem voru í veitingahúsinu að hlusta á útvarpið.

Fundarhringingin í sveitasímanum var fimm langar og einhver sú mest spennandi þar. Hún var yfirleitt notuð í hádeginu eða um sjöleytið um kvöldið þegar koma þurfti einhverjum tilkynningum til allra. Yfirleitt var símstöðin beðin að framkvæma slíkar hringingar því það var rafmagnshringing og miklu flottari en handvirka snúningsaðferðin. Síðan las sá sem tilkynningunni vildi koma á framfæri gjarnan upp nöfnin á bæjunum og sá sem var að hlusta sagði hátt og skýrt: "Já" þegar rétti bærinn var nefndur. Síðan var tilkynningin lesin og gat hún svosem verið um hvað sem var.

Horfði á Silfur Egils í dag. Svei mér ef ríkisstjórnin ætlar ekki að heykjast á eftirlaunamálinu eftir allt saman. Hélt að Ingibjörg og Geir hefðu gert sér grein fyrir því að ætlast er til að þau þrífi upp þessa vitleysu og hætti að láta eins og fífl.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég tók líka þátt í Hattrick fyrir nokkrum árum síðan.. frábært.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 26.5.2008 kl. 06:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband