340. - Um Moggabloggið, höfundarréttarmál, Bitruvirkjun, forseta lýðveldisins og fleira

Moggabloggið og höfundarréttarmál eru meðal þess sem ég hef mestan áhuga fyrir. Þess vegna bregður mér ekki vitund þó ég fái neikvæð komment við færslum mínum um þau mál. Að sjálfsögðu eru ekki allir sammála mér.

Þegar Villhjálmur Örn Vilhjálmsson sá að honum tókst ekki að æsa mig upp með löngum og ítarlegum kommentum brá hann á það ráð að gera sérstaka bloggfærslu með bölbænum um mig. Eftir að hann sá að það hafði heldur ekki áhrif, lét hann mig í friði. Ágreiningur okkar spratt upphaflega af málefnum tengdum skák, sem segja má að sé einnig sérstakt áhugamál mitt.

Varðandi höfundarréttarfærsluna frá í gær svaraði ég púkanum í kommenti við síðustu færslu og ætla að láta það duga að sinni, nema sérstakt tilefni gefist til annars.

Höfundarréttarmál eru málefni sem endalaust má þrasa um, án þess að komast að nokkurri niðurstöðu. Dómstólar eru á margan hátt illa færir að fjalla um þessi mál eins og margt sem snertir nýjustu tækni og Netið. Þó verður ekki hjá því komist að þeir skeri úr um ágreiningsefni. Það er nú einu sinni aðferð lýðræðisins og fyrir því þurfum við öll að beygja okkur.

Mér skilst að bloggfærsla mín frá því á laugardaginn hafi birst í næstum því heilu lagi í Mogganum í gær. Sú færsla var um Bitruvirkjun og þar lagði ég til að þeirri virkjun yrði slegið á frest. Nú er skipulagsstofnun búin að tilkynna um ákvörðum sína og að sjálfsögðu var hún í anda þess sem ég lagði til. Nei annars, ég er nú ekki svo innbildskur að ég haldi að ég hafi haft áhrif í þessu máli. Hins vegar held ég að Lára Hann Einarsdóttir hafi haft það.

Ég man vel eftir öllum forsetum lýðveldisins nema Sveini Björnssyni. Þegar ég var að verða tíu ára var Ásgeir Ásgeirsson tekinn fram yfir Séra Bjarna. Bróðir Ásgeirs, Ragnar að nafni, bjó að Helgafelli í Hveragerði. Það hús var við Hveramörkina rétt hjá Kvennskólanum. Þangað kom Ásgeir oft í heimsókn og ég man að okkur krökkunum þótti talsvert til þess koma.

Þegar Kristján Eldjárn var kjörinn forseti hafði ég í fyrsta sinn kosningarétt við forsetakosningar. Auðvitað kaus ég hann og hef aldrei kosið aðra í forsetakjöri en þá sem sigrað hafa. Næst var það Vigdís og þá bjó ég í Borgarnesi og flutti ræðu á kosningavöku til stuðnings henni þar. Síðan var það Ólafur kallinn sem enn situr og hugsanlega mun sitja lengi enn.

Ef sjónvarpið hættir ekki þessum sífelldu klósett-auglýsingum sínum endar það með því að ég verð að hætta að borða fyrir framan sjónvarpið. Ha? Er öllum sama um það? Það getur bara ekki verið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott blogg. Sama hér með forsetana, hef alltaf kosið "rétt"! Man reyndar vel þegar Sveinn Björnsson forseti dó, einkum vegna þess að okkur krökkunum í skólanum var gefið frí(!), gerðum okkur alls ekki ljósa alvöru málsins. Var þá tíu ára. Bloggið þitt les ég upp á hvurn dag! Kveðja.

Gylfi Guðmundsson 20.5.2008 kl. 10:34

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Góður pistill - eins og vant er....

Gunnar Helgi Eysteinsson, 20.5.2008 kl. 13:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband