337. - Um Bitruvirkjun, Hengilssvæðið og ýmislegt fleira

Ég er fæddur og uppalinn Hvergerðingur og stundaði talsvert útilegur á Hengilssvæðinu á unglingsárunum. Þekki vel Ölkelduháls og allt svæðið milli Þingvallavatns, Ingólfsfjalls, Hveragerðis og Nesjavalla, svo mér ætti að koma það eitthvað við, sem nú ber hvað hæst í fréttum. Þar að auki þekki ég  Láru Hönnu ágætlega síðan við unnum saman á  Stöð 2 fyrir talsvert löngu.

Ég hef ekkert lagt til þessara mála hingað til vegna þess einfaldlega að ég er beggja blands um það hvort rétt sé að virkja þá orku sem greinilega er til staðar á þessu svæði. Ég trúi því ekki að það séu einhverjir hryðjuverkamenn sem komið hafa að þessu máli fyrir hönd Orkuveitunnar. Mín vegna getur þetta þó allt tengst REI og borgarstjórninni í Reykjavík.

Ég efast ekkert um einlægni þeirra sem barist hafa gegn þessu. Það er langur vegur frá að ég gruni til dæmis Láru Hönnu um að hafa einhver persónuleg sjónarmið í huga við baráttuna gegn Bitruvirkjun.

Eins og séra Baldur í Þorlákshöfn hefur sagt á sínu bloggi þá er ákaflega slæmt að skipulagsmál verði til þess að nágrannasveitarfélög fari að þrátta um mengun og þess háttar. Þó ég sé fæddur í Hveragerði hef ég miklar taugar til Ölfusinga. Það sem nú heitir Hveragerði var einu sinni bara hluti af Ölfusinu.

Ég held að það mundi verða öllum til heilla ef framkvæmdum við Bitruvirkjun yrði slegið á frest. Mér finnst þurfa góðar ástæður til þess að koma þeirri virkjun fyrr í gagnið en öðrum virkjunum sem ráðgerðar eru á þessu svæði.

Hverasvæðið á Ölkelduhálsi er sérstakt og óvenjulegt. Sömuleiðis er heiti lækurinn í Klambragili einstakur. Fallegustu hverirnir finnst mér þó vera í Grensdal (sem nú er oft kallaður Grændalur). Skálarnir sem Orkuveitan hefur komið upp við Klambragil og í Engidal eru gott framtak og hafa lengi þjónað ferðamönnum á þessum slóðum. Sömuleiðis hefur Orkuveitan unnið gott starf við merkingu gönguleiða og ýmislegt annað.

Vinsældir eru vandmeðfarnar. Er það einhvers virði að margir lesi bloggið manns? Ég held varla. Auðvitað er þó slæmt, ef sárafáir lesa það. Þarna er vandrataður millivegurinn. Er Moggabloggið lakara en önnur bloggsetur? Ég held ekki. Þeir Moggabloggsmenn byggja á því að margir taki þátt. Þannig fá þeir fjöldaaðsókn og hún er bara af því góða.

Ég varð hissa á því um daginn að snillingarnir í Reykjavíkurliðinu skyldu ekki kannast við Sæmund í kexinu. Á eftir Sæmundi fróða hélt ég að hann væri þekktasti nafni minn. Margt og mikið mætti tala um kex. Enda til dæmis á fótboltaliðinu West Ham, en ég treysti því, að þeir sem mögulega hafa áhuga á slíku, séu duglegir að gúgla. Staðreyndaþvælan getur verið áhugaverð, en er oft leiðinleg.

Jón Valur Jensson er greinilega duglegur að gúgla. Svo hefur hann góðan talanda, þó röddin sé ekkert sérstök, er vel skrifandi og vel að sér um marga hluti. Skoðanir hans á ýmsu eru þó mjög andstæðar mínum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Innlitskvitt

Gunnar Helgi Eysteinsson, 17.5.2008 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband