333. - Um fótbolta og fleira

Um það leyti sem Íslendingar keyptu knattspyrnuliðið Stoke City ákvað ég að fara að fylgjast með ensku knattspyrnunni. Auðvitað valdi ég Stoke sem mitt uppáhaldslið, það lá beint við. Ekki var það vegna einhverrar aðdáunar á Guðjóni Þórðarsyni, sem mér hefur alltaf þótt vera óttalegur frekjuhundur, heldur bara af því að eitthvert uppáhaldslið varð maður að hafa.

Í eldgamla daga man ég eftir að hafa fylgst af talsverðum áhuga með Leeds United þegar menn á borð við Billy Bremner og fleiri voru þar. Þá var það liðið til að sigra, en nú eru þeir víst á hraðri leið til glötunar, en Stoke komið í úrvalsdeildina. Ég er reyndar hræddur um að vera þeirra þar verði ekki löng.

Ég man að Stoke áhuganum fylgdi það að ég fór að skrifa reglulega pistla undir dulnefni á spjallborðið þeirra. Þeir voru á ensku sem alls ekki er mér töm og voru alltaf kallaðir "Letter from Iceland." Ég var líka áskrifandi að einhverju aðdáendatímariti og fylgdist vel með árangri liðsins. Þekkti orðið nöfn allra sem þar voru á mála og las reglulega það sem skrifað var á Oatcake spjallborðið. Þar lærði ég að kalla Manchester United, Manure, hata Port Vale og hafa lítið álit á Crewe Alexandra.

Ég man að ég var líka fyrstur til að segja frá því á spjallborðinu að Guðjón hefði ekki verið endurráðinn eftir að honum tókst að koma liðinu upp í næstefstu deild. Sumir vildu ekki trúa þessu og mikið var bollalagt um hve trúverðugur ég væri. Þá var ég að vinna á Stöð 2 og einhverjir vissu það og ég var álitinn trúverðugri vegna þess.

Þetta var nú þá og á endanum læknaðist ég af þessari áráttu. Fótbolti er auðvitað í eðli sínu ekkert annað en lífsflótti. Menn reyna að telja sér trú um að hann skipti máli og setja sig vel inni í málin hjá sínu liði og rífast svo við aðdáendur annarra liða. Verða jafnvel æstir og óðamála.

Ef fjöldi athugasemda við bloggfærslur er mælikvarði á  hve vel hefur til tekist, hefur færsla mín frá í gær um Evrópusambandið tekist allvel (miðað við þann fjölda kommenta sem ég er vanur að fá). Mér finnst sumar athugasemdirnar að vísu dálítið furðulegar, en sé ekki ástæðu til að svara þeim sérstaklega. Minni þó á að orðið "kommúnisti" er bara orð og greinilega leggja menn misjafnan skilning í það. Kannski á ég eftir að koma síðar inn á þau málefni sem reifuð voru í áðurnefndri bloggfærslu, en ekki núna.

Svo virðist sem hin illræmdu eftirlaunalög verði afnumin. Vonandi er það rétt. Skömm þeirra sem að þessu stóðu er mismikil, en óþarfi að fjölyrða um það nú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Adda bloggar

góður pistill.kv adda

ps.elskurnar mínar, langar að benda ykkur á þessa ungu hetju og biðja fyrir henni.Hún heitir Sigrún og er ung móðir með hvítblæði,og er úti í svíþjóð þessa dagana í mergskiptum.Þetta er erfið meðferð sem reynir á hetjuna mína!

ps.afsakaðu að ég tróð þessu inn á bloggið þitten allar bænir og hugsanir hjálpa henni

http://sigrunth.bloggar.is/



Adda bloggar, 13.5.2008 kl. 12:45

2 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég var með áhuga á fótbolta... núna er ég af einhverjum óskiljanlegum ástæðum búinn að missa allan áhuga.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 13.5.2008 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband