331. - Á Bifröst fyrir næstum hálfri öld

Á Bifröst var margt brallað. Árin þar eru á margan hátt mjög eftirminnileg. Ég man að einhverju sinni kom þangað fólk sem útskrifast hafði frá Samvinnuskólanum 50 árum fyrr. Þvílík gamalmenni. Algjörlega komin að fótum fram. Nú eru bara 3 ár þangað til 50 ár verða síðan ég útskrifaðist. Hmm, ekki gott mál það.

Það er merkilegt hvað maður man frá þessum tíma. Eflaust er samt líka margt sem maður man alls ekki. Þegar fyrir dyrum stóð að fara í ferðalag að Reykjum í  Hrútafirði var farið að leita að fólki í hinar ýmsu íþróttagreinar til að taka lýðinn þar í karphúsið. Meðal annars var farið að Varmalandi til að prófa fólk í sundi. Eitthvað heyrði ég á tímatökur minnst hjá þeim sem farið höfðu þangað og þótti skítur til koma. Lét víst í mér heyra þegar þetta kom til tals og var drifinn með í næstu ferð að Varmalandi. Þar tókst mér að mestu að standa við stóru orðin og komst í boðsundssveit skólans.

Þetta var að því leyti sögulegt að ég var nánast fastur maður í anti-sportistaklúbbnum svokallaða sem tíðkaði gönguferðir í útivistartímum í stað þess að ólmast í fótbolta og þess háttar óhollustu niðri á íþróttavellinum hjá Glanna. Útivistargöngunum lauk að vísu stundum í Hreðavatnsskála (Leopoldville) þar sem Fúsi vert hafði áður ríkt með sóma og sann.

Sund hafði ég stundað nokkuð í Hveragerði á uppvaxtarárunum, þegar ekki þótti tiltökumál að fara tvisvar til þrisvar í sund sama daginn. Komst jafnvel svo langt að keppa fyrir hönd Hvergerðinga (Ungmennafélags Ölfusinga) á árlegu sundmóti Skarphéðins oftar en einu sinni.

Þegar til kom og keppt hafði verið í hinum margvíslegustu íþróttagreinum við nemendur á Reykjum í Hrútafirði var ljóst að við Samvinnuskólafólk höfðum farið algjöra sneypuför norður og þegar að boðsundinu kom voru úrslitin ráðin. Við höfðum tapað í samanlögðu og töpuðum svo í sundinu einnig. Ég man eftir að Krístján Óli Hjaltason var með mér í sveitinni og vildi skipta við mig og taka síðasta sprettinn, en ég hafði staðið mig svo vel á Varmalandi að ég hafði unnið mér rétt til að taka hann. Kristján hafði verið í Reykjaskóla áður en hann kom að Bifröst, held ég.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er búinn að lesa færsluna en hef ekkert að segja.

Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.5.2008 kl. 17:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband