328. - Moggablogg, vísnablogg, fréttablogg og allskonar blogg

Mikið er fjargviðrast útaf Moggablogginu þessa dagana. Mér er alvega sama. Þeir sem vilja alhæfa með því að segja að Moggabloggarar séu svona eða hinsegin, verða bara að fá að gera það.

Fyrir nokkru stofnaði ég sérstakt vísnablogg hér á Moggablogginu (visur7.blog.is) Ég viðurkenni að margt sem þar er sett fram er óttalega lítils virði. Vísurnar bölvað hnoð og umræðuefnin ómerkileg.

Már Högnason hefur þó alllengi þennan steininn klappað og ef menn geta ekki sætt sig við að allir geti látið í sér heyra, þá verður bara að hafa það. Ég sé ekki betur en Mási láti flest flakka í sínum vísum og sé oft æði orðljótur og ónærgætinn. Það er ágæt hugmynd að linka vísurnar við fréttir. Þessháttar fréttablogg held ég þó að séu á undanhaldi, enda eru þau oft skelfilega léleg.

Auðvitað gætu þeir sem Moggablogginu stjórna haft hlutina öðruvísi. Mér finnst þeir samt standa sig alveg þokkalega. Þjónustan er góð og þetta kostar ekki neitt. Bjarni Rúnar Einarsson hefur gagnrýnt margt í starfsemi Moggabloggsins og vel getur verið að þeir bæti sig með tímanum. Auðvitað vilja stjórarnir fá nokkuð fyrir sinn snúð og vefurinn mbl.is er með þeim vinsælustu á landinu. Þar með geta þeir eflaust selt mikið af auglýsingum.

Þeir sem hæst hafa í gagnrýni sinni á Moggabloggið ættu að reyna að grafa undan því með því að bjóða betri þjónustu. Það þjónar engum markmiðum að fá sem flesta til að hallmæla þessu fyrirbrigði. Það er komið til að vera og hefur nú þegar haft umtalsverð áhrif.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Ég er sammála um blog.is

Gunnar Helgi Eysteinsson, 11.5.2008 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband