5.5.2008 | 00:15
325. - Skák í Hveragerði forðum daga
Nú ætla ég skrifa um skák í því Hveragerði sem ég ólst upp í. Ætli ég hafi ekki verið svona sex eða sjö ára þegar ég lærði mannganginn. Ég lék mér á þessum árum oft við syni Skafta garðyrkjumanns, Jósef og Jóhannes eins og ég minntist aðeins á í frásögn minni af brunanum á Bláfelli.
Stundum sátum við inni hjá Möggu konu Skafta og ég man að fyrir kom að við tefldum skák þá, án þess að kunna mikið fyrir okkur. Líklega hefur þetta einkum verið ef veðrið var ekki við hæfi, því auðvitað var miklu skemmtilegra að hamast úti í fótbolta eða einhverju þess háttar.
Ég man að við fundum það út sjálfir og án allrar hjálpar að beran kóng var hægt að hrekja hvert sem var með kóng og hrók og máta síðan glæsilega. (Það fannst okkur allavega). Þetta var meiriháttar uppgötvun, því nú höfðum við að einhverju að keppa, öðru en að þreyta andstæðinginn eða máta hann fyrir slysni.
Kannski lærði ég að tefla af þeim Skaftasonum, eða kannski kenndi pabbi mér mannganginn, ég hreinlega man það ekki. Ég man bara að einhvern tíma alllöngu seinna var ég að tala um skák við pabba eða hann að fylgjast með mér tefla við einhvern og þá kom í ljós að vissulega kunni hann að tefla, en ýmsar reglur voru öðruvísi hjá honum en mér. Þegar þetta var hef ég líklega ekki verið búinn að læra að drepa í framhjáhlaupi. Allavega kom það ekki til umræðu að þessu sinni.
Það sem var öðru vísi hjá honum var einkum það að eftir að kóngurinn varð ber varð að máta í mjög fáum leikjum. Mig minnir átta, en það kunna að hafa verið tólf eða sextán leikir. Hann taldi líka að oft hefði verið teflt þannig að ekki var hægt að vekja upp annan mann en samskonar þeim sem verið hafði á uppkomureitnum í byrjun skákar. (Veit ekki hvað átti að gerast á e-línunni) Valdskák sagði hann einnig hafa verið mjög vinsælt afbrigði og mikið iðkað. (Þá má alls ekki drepa mann sem er valdaður)
Ég var 11 eða 12 ára þegar Taflfélag Hveragerðis var stofnað. Axel á Reykjum var sterkasti skákmaðurinn og aðrir fulltíða menn sem ég man eftir frá taflæfingum eru Hallgrímur Egilsson, Hans Gústafsson, Þórður Snæbjörnsson, Júlíus Guðjónsson og Gestur Eyjólfsson. Bjössi fjósamaður á Reykjum tók líka stundum þátt í taflæfingum með okkur. Hann varð seinna fyrir því óláni að taka líf Concordiu Jónatansdóttur, en það er allt önnur og hryllilegri saga. Taflfélagið var hið merkasta félag og ég man að það átti nokkrar skákklukkur, en slíka gripi hafði ég ekki augum litið fyrr.
Fyrst stunduðum við taflæfingar að Hverabökkum hjá Árnýju og Herbert. Skólahald hafði þá lagst af í kvennaskólanum fyrir nokkrum árum. Ekki man ég hve lengi við höfðum aðsetur okkar þar. Kannski var það bara einn vetur, en seinna fengum við aðsetur uppi í Laugaskarði, því þá var Hjörtur búinn að byggja íbúðarhúsið sitt.
Snemma hófum við þátttöku í Hrókskeppninni svokölluðu, en það var sveitakeppni sem taflfélög í Árnessýslu héldu á hverjum vetri. Keppt var í tíu manna sveitum og Stokkseyringar voru náttúrulega sterkastir. Auk okkar man ég líka eftir sveitum frá Selfossi og úr Hraungerðishreppi.
Sigurður Jónsson hét maður sem bjó að Hrauni í Ölfusi eða hélt a.m.k. oft til þar. Ég man að hann var talinn afar snjall skákmaður þó aldrei kæmi hann á æfingar hjá okkur. Ef tókst að fá hann til að tefla með okkur í viðureignum okkar í Hrókskeppninni, var hann sjálfsagður á efsta borðið. Efstu menn hjá þeim Stokkseyringum og eflaust einhverjir frægustu skákmenn Suðurlands á þessum tíma voru þeir Skipabræður Hannes og Sigtryggur.
Nokkrum sinnum fékk ég tækifæri til að keppa með Hvergerðingum þrátt fyrir ungan aldur og man ég sérstaklega eftir tveimur slíkum keppnum. Önnur var háð í Þingborg og þangað keyrði Kalli Magg okkur á Garantinum sínum og þurfti að glíma við bilaðan gírkassa á heimleiðinni. Hin keppnin var haldin á Hótelinu í Hveragerði og ég man ekki betur en þá höfum við einnig keppt við sveit úr Hraungerðishreppi. Ég er hræddur um að ég hafi tapað í bæði þessi skipti, því ef ég hefði unnið hefði ég áreiðanlega munað vel eftir því. Áföllunum gleymir maður að sjálfsögðu. Líka minnir mig að við höfum eitthvað æft eða teflt á vegum Taflfélagsins í litla salnum á Hótelinu, en er þó ekki alveg viss.
Eitthvað hélt þetta taflfélag áfram starfsemi sinni eftir að ég fór að Bifröst, því ég man að sumarið 1960 þegar ég leysti af í Kaupfélaginu í Hveragerði þá var Kaupfélagsstjóri þar Þorsteinn sem seinna varð verslunarstjóri í bókabúð Norðra í Hafnastræti. Hann var með bestu skákmönnum Hveragerðis á þeim tíma og hann og Sigtryggur á Skipum, sem keyrði flutningabílinn sem kom á hverjum morgni til Hveragerðis, tefldu þá langa og seigdrepandi skák þar sem aðeins var leikinn hálfur leikur á dag.
Þegar ég varð síðan útibússtjóri í Kaupfélaginu nokkrum árum seinna var gerð tilraun til að endurreisa félagið og ég kosinn formaður þess. Það reið félaginu að fullu og hugsanlega ber ég ábyrgð á því að skákklukkurnar og aðrar eigur félagsins glötuðust.
Eitt sinn á þessum árum var haldið fjöltefli á Selfossi. Þar tefldu þeir Taimanov og Ilivitsky og einhverjir Hvergerðingar tefldu við þá. Júlíus Guðjónsson frá Gufudal sat við hlið Axels Magnússonar kennara á Reykjum og tefldu þeir við Ilivitsky. Júlíus náði manni af Ilivitsky snemma tafls og ég man að Axel missti að mestu áhugann á sinni skák og fylgdist einkum við skákinni hjá Júlíusi. Enda fór það svo á endanum að Júlíus vann (ef til vill með einhverri hjálp frá Axel) og gott ef það var ekki eina skákin sem Ilivitsky tapaði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.