319. - Um vísnablogg, fréttir, miðaldir og ýmislegt þessháttar rugl

Með vísnablogginu mínu hef ég sannfærst um að það er auðvelt að fá margar IP tölur ef linkað er í fréttir. Á mínu aðalbloggi linka ég aldrei í fréttir og blogga yfirleitt ekki um fréttatengt efni, fyrr en umræðan hefur hægt svolítið á sér. Þá er líka auðveldara að mynda sér skoðun, en þegar allt er í háalofti. Ég sé engan tilgang í að linka sem allra mest og segja álit mitt í örfáum orðum.

Oftast eru fréttir ónákvæmar og óljósar í fyrstu, svo það getur verið hagstætt að bíða með umfjöllun. Ég er heldur ekki í kapphlaupi við neinn. Sumir bloggarar eru hins vegar haldnir einskonar skúbbnáttúru og telja sig auk annars vera einhvers konar fjölmiðla. Þetta hentar sumum eflaust ágætlega, en getur líka orðið bloggurum að falli.

Hvenær voru miðaldir? Söguöld, landnámsöld, Sturlungaöld, þjóðveldisöld, gamli tíminn, nútíminn, siðbótin, enska öldin, norska öldin, upplýsingin, rómantíkin, o.s.frv? Voru hinar myrku miðaldir allt annað en hinar svokölluðu síðmiðaldir?

Mér finnst þessar tímaviðmiðanir alltaf dálítið ruglandi. Sérstaklega miðaldirnar. Mér finnst að miðaldir í Evrópu séu allt annað en miðaldir á Íslandi hvernig sem á því stendur. Vorum við svona uppteknir af að sturlungast að við máttum ekki vera að því að hleypa miðöldunum að fyrr en það var búið?

Í mínum huga hófust miðaldir í Evrópu um það leyti sem Rómverska ríkið leið undir lok. Ætli það hafi ekki verið svona á fjórðu eða fimmtu öld. Þær tel ég síðan að hafi staðið allt til endurreisnarinnar á Ítalíu og nútíminn hafi svo hafist með iðnbyltingunni á Englandi. Var tímabilið á milli endurreisnarinnar og iðnbyltingarinnar kannski síðmiðaldir?

Miðaldir á Íslandi finnst mér ekki hefjast fyrr en að lokinni Sturlungaöld og standa allt til siðbótar á sextándu öld eða jafnvel allt til síðari hluta nítjándu aldar. Á undan Sturlungaöld voru náttúrulega landnámsöld og söguöld og allt það, en þó ekki miðaldir, eða hvað?

Annars eru þessar tímaviðmiðanir ekki merkilegar og vel hægt að vera án þeirra. Það er hinsvegar engin leið að vera með öllu án sögunnar. Í rauninni erum við ekkert annað en landið og sagan. Efnaleg velferð er afstæð. Áður fyrr þótti bara ágætt að geta dregið fram lífið. Nú þarf fólk bæði bíla, heilsugæslu og húsnæði fyrir utan allt annað til að lifa mannsæmandi lífi. Gæludýr og jafnvel húsdýr þurfa helst að lifa mannsæmandi lífi líka, þó viss þversögn sé í orðalaginu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband