305. - Áframhaldandi minningar frá Bláfelli, ég get ekki stoppað

Nú er þetta þó ekki fyrst og fremst um ömmu heldur bara almennt um æsku mína, sem ég hef þó oft bloggað um áður.

Líklega vorum við á Bláfelli fremur fátæk á þeirra tíma mælikvarða. Ekki minnist ég þess þó að það hafi haft nein áhrif á samband mitt við aðra krakka. Mamma saumaði ævinlega öll föt á okkur og það gerðu ekki allir. Mér er minnisstætt að ég fór einu sinni í skólann í skyrtu sem var keypt í verslun og var ákaflega stoltur af henni, man ennþá greinilega hvernig hún var á litin, hvernig hún var saumuð og hvernig efnið í henni var.

Ekki man ég eftir að hafa fundið til neinnar minnimáttarkenndar yfir að vera í heimasaumuðum fötum utan einu sinni. Þá var ég orðinn skáti og allir þurftu að vera í skátabúningum. Ekki var hægt að kaupa skátabúning á mig svo mamma saumaði hann og ég man að liturinn var ekki alveg sá sami og á öllum hinum búningunum. Það þótti mér leiðinlegt.

Mér þótti samt alltaf svolítið slæmt hve ermarnar voru langar á skyrtunum sem mamma saumaði á mig. Það var það helsta sem ég sá að var öðruvísi við minn klæðnað en annarra.

Amma borðaði gjarnan afganga ef þeir voru til og pabbi og mamma auðvitað líka. Mér er minnisstætt að mamma sagði stundum við ömmu:  "Viltu soðningu?" Þá átti hún við hvort hún vildi fisk frá þvi fyrr um daginn eða daginn áður. Mat var aldrei hent á okkar heimili. Áður en brann man ég eftir að kartöflur voru gjarnan soðnar í gufukassa sem var spölkorn frá húsinu, við það sparaðist rafmagn. Flatkökur gerði mamma líka gjarnan á gamalli kolaeldavél sem til var úti í skúr og þar var líka oft bakað.

Ísskáp fengum við ekki fyrr en seint og um síðir, en í nýja húsinu sem byggt var eftir að brann var þó einn skápur með op útúr húsinu þannig að þar hélst þokkalega kalt oftast nær. Símalaus vorum við líka lengi vel. Bjuggum rétt hjá símstöðinni þannig að ef nauðsyn bar til var ekki langt að fara til að komast í síma. Alltaf var siður að hafa heitan mat bæði í hádeginu og á kvöldin og alltaf tvíréttað, þ.e. aðalmat og graut eða súpa á eftir.

Mér fannst amma alltaf vera eldgömul og hrum, en í rauninni hélt hún sér alveg ágætlega þó hún væri komin yfir áttrætt. Ég man aldrei eftir henni veikri. Alltaf var hún á fótum og féll sjaldan verk úr hendi.

Guðlaugur maður hennar var dáinn löngu fyrir mitt minni. Hann var talsvert eldri en amma, fæddur árið 1855 eða hundrað árum fyrr en Sigurbjörn yngsti bróðir minn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Mikið er gaman að lesa minningarbrotin þín, Sæmi. Og þú skrifar af svo mikilli hlýju um fólkið þitt.

Takk.

Lára Hanna Einarsdóttir, 13.4.2008 kl. 00:18

2 Smámynd: Eyþór Árnason

Takk fyrir góða pistla Sæmi minn. Ég var alinn upp við það að henda ekki mat svo ég þekki þetta. Kveðja.

Eyþór Árnason, 13.4.2008 kl. 22:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband