299. - Sæluhúsklukkan á Kolviðarhóli

Yfir dyrum hins fyrsta gistihúss á Kolviðarhóli, sem byggt var 1877, var klukka ein úr kopar.

Þannig var um hana búið, að strengur úr henni var í gegnum vegginn og mátti hringja hinni inni í húsinu. Var klukkunni hringt í dimmviðrum til þess að beina ferðamönnum leiðina að Kolviðarhóli. Að sögn fróðra manna, er best máttu vita, fullyrtu þeir, að klukkan hefði jafnframt verið fengin til þess að fæla burtu drauga, sem á þeim árum þóttu nokkuð nærgöngulir við staðinn. En það var trú manna, að draugarnir hörfuðu frá þar, sem klukknahljómur heyrðist.

Nokkuð óljóst er um uppruna þessarar klukku. Sagt er, að hún væri af útlendu skipi, er strandaði hér við land, og hafi hverið keypt sem "strandgóss" Hafi hún svo að fyrirlagi amtmanns verið látin að Kolviðarhóli og sett þar upp fyrir daga Jóns Jónssonar gestgjafa, eða nánar til tekið 1883.

Margir eldri menn mundu sæluhúsklukkuna á Kolviðarhóli, höfðu kippt í streng hennar og heyrt í henni hljóminn. Klukkan var á sínum stað fram um 1907. Þá kom Friðrik 8. að Kolviðarhóli og snæddi þar hádegisverð í tjaldbúð á völlunum. Konungur skoðaðai öll bæjarhús á Kolviðarhóli. Hann veitti sæluhúsklukkunni athygli og spurði til hvers hún væri þar höfð og hringdi henni. Nokkru eftir þetta var byggingum eitthvað breytt á Hólnum og klukkan þá tekin ofan og eigi látin upp aftur. Eftir það var hún til í mörg ár á Kolviðarhóli, en þar kom, að hún var þar ekki lenngur, og vissi enginn, hvað um hana hafði orðið.

Tíminn leið hátt á þriðja tug ára. Þá var það sumarið 1957, að klukka ein kom fram í Reykjavík. Hafði hún um langt skeið verið í smiðju Jóns Sigrurðssonar járnsmíðameistara á Laugavegi 54. Taldi Jón klukkuna vera komna frá Kolviðarhóli fyrir mörgum árum. Hefðu einhverjir komið með hana sem brotakopar til bræðslu. Eigi kvaðst hann hafa tímt að fórna henni til uppbræðslu, heldur geymt hana í smiðju sinni. - Vel mundi Jón klukkuna á Kolviðarhóli og hafði stundum hringt henni á árabilinu 1885 - 1895. - Gaf hanna svo klukkuna sumarið 1957 til væntanlegs byggðasafns Árnessýslu, og er hún þar nú geymd.

Til frekari eftirgrennslunar um þetta var af Kristjáni Eldjárn, þjóðminjaverði, þann 13. janúar 1959 beint þeirri fyrirspurn til manna, hvort þeir vissu nokkuð um hina gömlu sæluhúsklukku frá Kolviðarhóli, eða hver örlög hennar hefðu orðið. Enginn gaf sig fram, er gæti gefið frekari upplýsingar um hana. Verður því að álykta, meðan annað ekki upplýsist, að klukka sú, er fannst í Reykjavík sumarið 1957, sé hin gamla Kolviðarhólsklukka.

Klukkan er úr kopar, 24cm. í þvermál um op, og er 7,8 kg á þyngd. Af ekki stærri klukku hefur hún sérlega skæran og fagran hljóm.

Þetta er orðrétt frásögn úr bókinni "Saga Kolviðarhóls", sem tekin er saman af Skúla Helgasyni og gefin út á Selfossi árið 1959.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband