257. - Samtíningur um vísnagerð og sitthvað fleira

Sú saga er sögð að einhvern tíma hafi verið prestur nokkur í Arnarbæli í Ölfusi og hjá honum vikapiltur einn.

Ekki langt frá Arnarbæli er klettur sem Arnarsetur heitir og er annaðhvort í eða við Ölfusá sem rennur þarna skammt frá. Prestur á einhvern tíma að hafa kastað þessari vísu fram við stráksa:

Drengur minn þú deyrð í vetur.

Dettur fyrir Arnarsetur.

Kríuskítur og kamrafretur.

Kveddu á móti ef þú getur.

   Strákur var ekki seinn til svars og mælti fram þessa vísu:

Þú ert prestur sómasæll,

syngur hátt í messu.

En vesalmenni og vinnuþræll,

verðurðu upp frá þessu.

   Sagt er að hvorttveggja hafi ræst.

Já, ég hef gaman af vísum og hef stundum reynt að gera þær sjálfur en er sjaldan ánægður með þær.

   Einhverju sinni reyndi ég að gera hringhendu. Hún var svona:

Nú skal hendu fríða hring

hugsun venda að semja.

Andans lendur allt um kring

æfðri hendi temja.

Þetta er svosem alveg rétt ort hringhenda, en mér finnst hún ekki nógu lipur. Vísa er hringhenda ef innrím í öllum fjórum ljóðlínum rímar saman.

Ég hef tekið eftir því að sumir sem greinilega hafa gaman af að setja saman vísur virðast lítið vita um stuðlasetningu og þessháttar. Reglur eru náttúrulega bara til að brjóta þær, en samt er nauðsynlegt að kannast við þær, því ekki er sama hvernig þær eru brotnar. Þeir sem vilja fást við vísnagerð ættu að kynna sér helstu bragfræðireglur. Það er auðvelt að gera það á Netinu t.d. hefur Jón Ingvar Jónsson sett upp ágæta síðu um bragfræði og fleira á heimskringla.net enda er hann frábær hagyrðingur sjálfur. Menn mega bara ekki láta hugfallast þó þetta virðist flókið í fyrstu. Réttast er að byrja bara að setja eitthvað saman og reyna svo að sjá til hvort það er ekki rétt gert og muna að æfingin skapar meistarann jafnt í þessu sem öðru.

Ekki veit ég hvernig ég kem öðrum fyrir sjónir sem bloggari. Mér finnst langskemmtilegast að vaða úr einu í annað. Það er afar sjaldan sem ég blogga um eitthvert eitt afmarkað efni. Sem er mjög gott, eins og þar stendur.

Lesendum mínum er heldur að fjölga. Ekki veit ég hvernig á því stendur. Kannksi er það vegna þess að bloggvinum mínum fer einnig svolítið fjölgandi. Mest er það fyrir minn eigin tilverknað. Það er að segja að það eru ekki margir sem biðja mig að fyrra bragði um að vera bloggvinur sinn. Þeir eru líka afar fáir sem neita að gerast bloggvinir mínir, þegar ég bið þá um það.

Og við grein mína frá því í fyrradag komu heil tólf komment. Það held ég að sé algjört met. Þó ég hafi skrifað tvö eða þrjú þeirra sjálfur er þetta fjári gott.

Var að enda við að klára að lesa öskuna eftir Yrsu Sigurðardóttur. Mér finnst fléttan dálítið bláþráðótt á köflum en haglega ofin samt. Frásögnin er ágæt og spennan helst prýðilega í bókinni, einkum þó um miðbikið. Byrjun og endir eru heldur lakari, en alveg í lagi samt. Góð bók.

Það var gaman að sjá Jens Guð í Kastljósinu í gærkvöldi. Ég les nú ekki bloggið hans reglulega, en þó alltaf öðru hvoru. Mér finnst hann slakastur þegar hann er að leika alltvitandi blaðamann enda gerir hann flestar vitleysurnar þá. Ég verð líka að segja að ég hef ekki mikið vit á sumu sem hann skrifar um tónlist, þó ég lesi það stundum. Hann var talsvert öðruvísi en ég hélt. Skeggið úfnara og málfarið meira hikandi, en samt var ágætt að geta virt hann fyrir sér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband