251. - Moggabloggarar, Lifandi vísindi og sjónvarpsútsendingar á Netinu

Guðbjörg Hildur Kolbeins og Sigurður Þór Guðjónsson virðast bæði vera hætt að Moggabloggast.

Guðbjörg Hildur er farin eitthvert annað og ætlar um hríð samt að setja fyrirsagnirnar á Moggabloggið skilst mér. Sjáum til hvernig það gengur. Siggi virðist aftur á móti enn vera í stræk og ekki blogga neitt. Það er skaði því hann er ágætis bloggari þó hann eigi það til að vera dálítið snakillur í kommentum, enda forðast ég þau. Ef ég mundi hætta á Moggablogginu býst ég við að ég mundi flytja mig á 123.is. Mér finnst að þar sé verið að gera góða hluti og svo mikið er víst að þar er þjónustan í lagi og bréfum fólks svarað.

Tímaritið Lifandi vísindi er greinilega vinsælt hér á landi. Umfjöllun þar er stundum ágæt en stundum frekur lakleg. Fyrst þegar ég sá tímaritið Sagan öll sýndist mér það vera bein eftiröpun af Lifandi vísindum. Kannski er ekki svo. Líklega er meira innlent efni í því og hugsanlega miklu tengdara sögu en vísindaþrugli. Í Lifandi vísindum þykir mér oft of mikið gert úr hlutunum. Teikningarnar eru þó oft skemmtilegar. Stundum villandi að vísu, en oft mjög upplýsandi.

Mér finnst miklu heilbrigðara að sökkva sér ofan í vísindi og tækni þó það sé á forsendum blaðsins og í raun á forsendum æsifréttamennsku, en að eyða tíma sínum í þetta hjávísindabull, talnaspeki, áruhreinsanir, álfaskoðun, skyggnilýsingar í útvarpi, stjörnuspeki og þess háttar vitleysu sem veður uppi í fjölmiðlum hér á landi um þessar mundir. Mér finnst með öllu óskiljanlegt hvernig fólk getur lagt eyrun við öðru eins rugli.

Ég horfi nokkuð oft á sjónvarpið á Netinu. Þó myndgæðin séu ekkert sérstök nægja þau mér yfirleitt, a.m.k. fyrir fréttir og þess háttar. Það sem fer í taugarnar á mér er að afskaplega illa er fylgst með því hvort útsendingin sé í lagi. Þetta á bæði við um ríkissjónvarpið og Stöð 2. Útsendingin virðist geta dottið út án þess að nokkur skipti sér af því. Allskyns hnökrar geta komið upp og enginn virðist nenna að sinna því.

Veðurfréttir má greinilega ekki senda út á svo opnum miðli sem netið er og alveg er undið hælinn lagt hvort auglýsingar komast til skila á þennan hátt. Mér er reyndar alveg sama um auglýsingarnar, en kannski ekki auglýsendunum. Vel getur verið að þetta sé stundum lagfært eftirá, en ég trúi því ekki að ég sé sá eini sem læt svo lítið að horfa á þetta beint á Netinu. Fyrirlitningin er samt algjör af hendi varpanna. Þeim virðist vera nákvæmlega sama um Netáhorfendur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband