246. - Enn um Robert James Fischer

Sjónvarpsmaðurinn góðkunni Dick Cavett skrifaði nýlega ágæta grein um Robert James Fischer í The New York Times.

Ég ætla að prófa að linka hér í þá grein. Vel getur verið að það mistakist og þá er rétt að láta þess getið að þetta er í blaðinu sem dagsett var þann 10. febrúar s.l.

Tilgáta hans um að það hafi verið snilldin og frægðin ásamt ungum aldri sem varð meistaranum að falli er allrar athygli verð. Cavett segir á einum stað í grein sinni:  „No one under 30 should be subjected to fame." Þetta er nokkuð vel sagt hjá honum. Og þegar við blönduna bætist heimsmeistaratitill, sigrar og peningar er þetta eiginlega orðið stórhættulegt. Gyðingahatur meistarans segir hann líka að hafi verið einskonar sjálfshatur og er það ekki verri kenning en hver önnur.

Ég hef nokkrum sinnum skrifað um Fischer að undanförnu og hneykslast dálítið á skrifum fornleifafræðingsins Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar um þessi mál. Mér finnst að deilur um arf eftir Fischer komi meistaranum ósköp lítið við og að óviðkomandi menn með mjög takmarkaða þekkingu á þessu öllu skuli vaða uppi með svigurmælum um Fischer og greftrun hans er beinlínis óviðeigandi.

Látum vera þó sneplar eins og DV séu að velta sér uppúr þessu máli. Það er þeim líkt og aðrir þurfa ekki að apa eftir þeim. Vel getur verið að Fischer hafi átt dóttur. Það getur líka vel verið og er meira að segja mjög líklegt að hann hafi verið giftur samkvæmt íslenskum lögum. Japönsk lög eða Bandarísk skipta engu máli í þessu sambandi.

Ef einhverjir vondir menn eru að reyna að hafa af dóttur Fischers lögmætan arf er það verkefni fyrir lögfræðinga og dómstóla að skera úr um það mál. Ég get ekki séð að Vilhjálmur fornleifafræðingur sé neinn úrskurðaraðili í því máli.

Fáum blandast hugur um að Fischer hafi verið orðinn talsvert bilaður á sínum efri árum, en hvað með það? Má hann ekki truflast á geði eins og annað fólk? Hvurslangs læti eru þetta? Af hverju þurfa fjölmiðlar alltaf að lepja upp það neikvæðasta sem þeir geta fundið?

Fischer var einfaldlega snillingur og enginn getur tekið það frá honum. Hann var líka einn af fáum mönnum sem boðið hafa Bandaríkjastjórn byrginn. Flestir einstaklingar beygja sig og bugta fyrir slíku valdi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Lára Hanna Einarsdóttir

Það eina sem ég get sagt við þessari færslu er:  Heyr, heyr! og Mæl þú manna heilastur, Sæmundur.

Svo sammála þér er ég núna.

Lára Hanna Einarsdóttir, 11.2.2008 kl. 01:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband