245. - Skelfing eru þessir Villa Villar margir. Ég er bara orðinn hálfruglaður á þessu öllu saman

Ég talaði um það minnir mig á mínu bloggi strax eftir Kastljósviðtalið að Vilhjálmur Þ. væri búinn að vera pólitískt. Fleiri virðast vera á þeirri skoðun og ég lít svo á að þeir séu að taka undir mitt sjónarmið þó eflaust hafi engir þeirra lesið bloggið mitt. Þeim hefði þó verið nær að gera það.

Einkennilegt er að Kjartan Magnússon skuli ennþá styðja Vilhjálm, en ekki nema eðlilegt að Gísli Marteinn og Hann Birna skuli forðast að segja nokkuð meðan úrslit mála eru enn óljós. Það verður þó varla seinna en á mánudaginn sem Vilhjálmur verður látinn hætta með öllu við að verða borgarstjóri aftur og allt eins líklegt að hann hætti líka sem borgarfulltrúi. Svona er pólitíkin bara.

Skemmtileg er sú kenning að Geir eigi erfitt með að flæma Villa í burtu vegna þess að þeir séu gamlir vinir. Og að Geir, Villi og Gulli séu helstu frammámennirnir í þeirri klíku sjálfgræðisflokksins sem þar hefur völdin um þessar mundir. Samkvæmt því hafi Davíð alltaf staðið á móti frama Vilhjálms enda komst hann ekki til verulegra áhrifa fyrr en Davíð var búinn að yfirgefa sviðið.

Óveðrið sem gekk yfir í gærkvöldi (föstudagskvöld) var talsvert, en þó ekki eins og ég man eftir verstu veðrum á Snæfellsnesinu. Það versta var held ég þegar ég fauk og fingurbrotnaði og svo nátturlega Aðfangadagsbylurinn mikli þegar rúturnar sneru við á Mýrunum. Snjórinn var líka oft miklu meiri á Vegamótum og ég man vel eftir því að stundum fóru húsin niðurfrá alveg á kaf. Gamla húsið frá Skógarnesi stóð þó alltaf uppúr enda var það meira en tvær hæðir.

Skrif mín eru því miður alltaf að verða pólitískari og pólitískari. Mér finnst eins og Nóbelsskáldinu að pólitíkin sér bara ekkert betri en þessi árans rjómatík. Tíkur og ismar eru ekki minn tepoki. Maður getur samt ekki orða bundist yfir þeirri mögnuðu vitleysu sem viðgengst í borgarstjórn Reykjavíkur. Einu sinni hélt maður að Gunnar Birgisson væri svolítið klikkaður og framkvæmdaglaður úr hófi fram. Nú finnst manni hann bara koma nokkuð vel út í samanburði við kollega sína norðan læks.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Einarsdóttir

Góður pistill Sæmundur.    Nýyrðið "sjálfgræðisflokkurinn" hittir beint í mark.  Ekki man ég eftir fingurbrotinu þínu og mæli með því að þú bloggir um það.  Snjógöngin, sem grafa þurfti til að komast inn á Vegamótum voru þvílík að ég held að ekki séu mörg dæmi um slíkt.  A.m.k. ekki undanfarin 20 ár.  Góðar kveðjur til fjölskyldunnar.... og velkominn heim Bjarni.   

Anna Einarsdóttir, 10.2.2008 kl. 12:31

2 identicon

Er ekki Villi orðinn "eitrað peð" á þessu skákborði sjálftökuflokksins í borginni fyrir löngu. Ef hann er tekinn er þá er skákin töpuð hjá þeim hinum sömu?

Ég þykist nú ekki vera mikil skákkona, en það virðist að það sé að koma upp vandræðaleg pattstaða í þessu öllu.    Sjálfstæðisflokkurinn á bágt og enginn kærir sig um að kyssa á báttið. Og smjörklípurnar virka ekki nógu vel. Þær eru eitthvað svo þránaðar orðnar hjá þeim.

Kveðja til þín líka Anna

aslaugben 10.2.2008 kl. 22:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband