231. - Um heimspólitík og heimsendi

Það er vissulega rétt að nýr tónn var sleginn í íslenskum stjórnmálum með mótmælunum sem fram fóru við borgarstjórnarfundinn í gær fimmtudag.

Ég er þó í vafa um hvort túlka beri þetta sem vaxandi ofstopa vinstri manna eða það að hægri öflin séu að herða tökin. Annað hvort er það, ég er ekki í neinum vafa um það.

Hægri öflin á vesturlöndum hafi verið að festa sig í sessi að undanförnu. Raunar allt síðan árásirnar á tvíburaturnana áttu sér stað árið 2001. Ég man að ein fyrsta hugsun mín þegar ég fylgdist með þeim atburðum í fréttum var að nú mundi sú stefna til lögregluríkis sem boðuð var í bók Orwells 1984 og greinilega var komin af stað herða á sér um allan helming.

Hægri sinnuð stjórnmálaöfl hafa notfært sér það ástand sem skapaðist við þetta hermdarverk. Vel kann að vera að það hafi einmitt verið tilætlun þeirra íslömsku ofsatrúarmanna sem að árásinni stóðu þó líklegra sé að ætlun þeirra hafi verið að valda glundroða og auka spennu milli vesturveldanna og arabaríkjanna.

Ógæfa okkar á vesturlöndum er sú að við völd í Bandaríkjunum var stjórn á þessum tíma sem beinlínis beið eftir tækifæri og tilefni til þess að auka völd sín. Með árásinni fengu þeir gullið tækifæri til þess að gera einmitt það. Fyrst voru tökin hert heima fyrir og síðan tekið smá æfingastríð í Afghanistan og síðan farið í stóra stríðið við Kölska Hússein sjálfan.

Það stríð var nú reyndar svo vitlaust og illa undirbúið að Bandaríkjamenn sjálfir eru nú í vaxandi mæli farnir að snúast gegn stjórnvöldum vegna þess á sama hátt og gerðist í sambandi við Viet Nam. Ótrúlegt er annað en demókratar vinni forsetakosningarnar sem fram fara í nóvember næstkomandi. Þessvegna er svo spennandi að fylgjast með viðureign þeirra Clinton og Obama.

Jæja, ég er nú orðinn svo háfleygur og pólitískur að það er best að hætta þessu rugli.

Alveg hreint óforvarendis koma mér skyndilega í hug tvær vísur sem ég orti einhvern tíma fyrir langa löngu og eru svona:

Jörmungandur japlar mélin.

Járnin bryður ótt og títt.

Innst í brjósti urgar vélin.

Ólmast faxið mjúkt og sítt.

 

Gneistar fljúga úr spyrntu spori.

Splundrast grjót og rignir mold.

Endi heims á atómvori.

Eldar brenna og sekkur fold.

Ég man að mér þótti þetta nokkuð gott hjá mér á sínum tíma og gerði einhverja samantekt um tilurð þessara vísna í  Þórbergskum anda en man lítið eftir henni. Man samt að þegar ég gerði vísuna fannst mér endilega að Jörmungandur væri hestur, líklega Sleipnir eða álíka goðsögulegur reiðskjóti en svo er víst ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband