215. - Einar klink um Breiðavíkurheimilið

Ætlaði að horfa á Breiðuvíkurmyndina um daginn, en gat það ekki vegna þess að ég var að vinna.

Ekki var boðið upp á að horfa á hana eftirá á Netinu svo ég á víst ekki eftir að sjá hana. Ég býst við að það séu höfundarréttarmál sem koma í veg fyrir að myndin sé sett á Netið. Auðvitað geta þá allir sem á annað borð eru tengdir Netinu horft á hana þar. Útlendingar mundu samt líklega ekki horfa í stórum stíl, en sölumöguleikarnir mundu minnka mikið ef hún færi á Netið.

Í bók sem út kom á vegum Hörpuútgáfunnar árið 1989 og heitir "Lífsreynsla" segir frá Einari klink í Vestmannaeyjum og ýmsum fleirum. Þetta er þriðja bindi bókarinnar og frásagnirnar eru rúmlega tíu og eftir ýmsa höfunda. Útgefandi og ritstjóri er Bragi Þórðarson. Sigurgeir Jónsson skrifar þáttinn um Einar, sem lenti í því á unglingsaldri að vera sendur á Breiðuvíkurheimilið og segir meðal annars um það í bókinni:

"Þarna vestra var ég í nærri tvö ár, fermdist þar meðal annars. Þessi vist átti víst að vera til betrunar fyrir mig og aðra sem þarna dvöldu en ég get ómögulega fundið að ég hafi orðið betri maður fyrir vikið né heldur þeir drengir aðrir sem þarna voru samtíða mér. Ég held að ég fari rétt með það að hver einasti þeirra, að okkur Vestmannaeyingunum undanskildum, hafi lent upp á kant við kerfið á lífsleiðinni og stór hluti þeirra verið tíðir gestir á Litla-Hrauni, svo ekki virðist dvölin í Breiðuvík hafa haft göfgandi áhrif."

Fljótlega eftir að Einar Sigurfinnsson kom aftur til Eyja byrjaði hann að drekka og drakk illa. Frelsaðist þó frá Bakkusi að lokum og ég efast ekki um að margir Vestmannaeyingar kannast við hann. Engin ástæða er til að ætla annað en að hvert orð sem hann segir um Breiðuvíkuheimilið sé satt.

Það er eins og sumir álíti að hlutir séu ekki til, ef ekki hefur verið minnst á þá í fréttum sjónvarpsstöðvanna eða fjallað um þá í Kastljósi eða svipuðum þáttum.

Og svo ætlar Ástþór ræfillinn í framboð einu sinni enn. Þetta er nú bara í auglýsingaskyni hjá honum og engin von til þess að hann nái umtalsverðum árangri. Á mig hefur hann helst þau áhrif að ólíklegra verður að ég kjósi.

Ég er feginn að snjórinn er að mestu farinn hér í Reykjavík. Hann er óttalega leiðinlegur. Slagveðursrigning er það svosem líka. Mér finnst umhverfið bara vera fljótara að jafna sig eftir rigningu en snjó. Myrkrið er þó mikið enn. Alveg skelfilega mikið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 4.1.2008 kl. 10:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband