214. - Hinn Alþjóðlegi Jafnréttisháskóli rís á Íslandi

Hlustaði áðan á útvarp Sögu. Það er oft kveikt á þeirri stöð á mínu heimili og umræður þar geta verið ansi fróðlegar. Sumu sem þar er sagt verður þó að taka með ákveðnum fyrirvara.

Verið var að ræða við Jens Guðmundsson og Jónu Á. Gísladóttur ofurbloggara. Segja má að bloggarar hafi vakið athygli á  árinu. Moggabloggið er eiginlega sérstakt fyrirbrigði. Aðrir bloggarar hafa gjarnan horn í síðu þess og það er í góðu lagi. Ekki geta allir verið ofurbloggarar og mér er alveg sama um það. Mér finnst gott að komast á Moggabloggslistann yfir 400 vinsælustu bloggana. Þangað kemst ég alltaf  öðru hvoru en dett síðan útaf honum aftur.

Fékk ágætis Canon myndavél í jólagjöf og er smám saman að læra á hana. Eitt er það sem mig vantar og það er hleðslutæki fyrir endurhlaðanleg battery. Myndavélin étur bókstaflega batteryin ef mikið er tekið af myndum og svo er nauðsynlegt að hafa kveikt á henni þegar maður er að læra á hana, sem er talsvert mál. Einn smábæklingur fylgdi með henni og tveir DVD diskar. Ég þarf að stúdera þetta allt þó ég sé, eða hafi a.m.k. löngum verið, eins og flestir karlmenn að líta ekki í leiðarvísa nema brýna nauðsyn beri til.

Íþróttir eru hættulegar. Knattspyrnumenn hrynja niður á vígvellinnum.  (afsakið ég meina knattspyrnuvellinum) Langhlauparar fá hjartaslag, skíðamenn missa stjórnina og steypast á höfuðið, hnefaleikamenn eru lamdir í spað og dugar þá ekki einu sinni að vinna. Antisportistar deyja reyndar líka. Kannski er allt best í hófi, líka íþróttaiðkun.

Samkvæmt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur stendur til að setja á fót hérlendis Alþjóðlegan Jafnréttisháskóla. Miklir  menn erum við Hrólfur minn. Alltaf er hægt að finna eitthvað sem við Íslendingar skörum framúr í. Ég vissi bara ekki að við værum í allra fremstu röð í jafnréttismálum. Ekki mundi ég vilja vinna á "Rannsóknarstofu í kynjafræðum". Þá gengi ég frekar í "Tröllaskoðunarfélag Evrópu".

Myndir sá ég á annarri hvorri sjónvarpsfréttastöðinni áðan. Þar gat að líta íslenska hermenn eða friðargæslumenn eins og þeir eru oft kallaðir. Ég hef áður séð myndir af þessu tagi, en það sem vekur jafnan athygli mína er að þeir eru oftast með íslenska fánann öfugan á handleggnum. Ég hélt að það væri meðfætt að vita að krossinn á að snúa til vinstri, en kannski hefur mér bara verið kennt það þegar ég var skáti.

Sigurður Þór er enn við það heygarðshornið að espa Jón Val upp og virðist þurfa lítið til. Mér finnst það reyndar ágætt hjá honum og trúmálaumræðurnar sem fram fara í svarhölum Sigurðar nægja mér alveg. Verst hvað umræðan er fljót að fara út um víðan völl. Bókstafstrú á borð við það sem Predikarinn svokallaði og Jón Valur boða er einfaldlega tímaskekkja.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Helgi Eysteinsson

Gunnar Helgi Eysteinsson, 3.1.2008 kl. 00:57

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Jóni Val þykir svooo gaman að láta espa sig upp! 

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.1.2008 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband