206. - Villandi fyrirsögn

Nei, ég á ekki við þessa fyrirsögn heldur þá frá því í gær um dóphausana og morðingjana.

Það var ekki minnst á þá fyrr en í lok færslunnar og þá var það bara þetta venjulega argaþras út í fréttir hjá mér.

Margt er mjög gott í málflutningi feminista. Þeim hættir þó dálítið til að fara yfir strikið og gefa höggstað á sér. Dæmi um það er nýjasta deilumálið. Jólakort eða jólaósk frá þeim var með textanum: "Askasleikir óskar sér að karlar hætti að nauðga". Skelfing klaufalega orðað og jafnvel þó orðalagið hefði  verið skárra þó er þetta lélegur jólaboðskapur.

Og enn eitt dómaraheykslið. Það er eins og reynt sé að láta svona mál  alltaf koma upp rétt fyrir jól. Þá er minni hætta á að menn nenni að rövla mikið. Mál sem snerta samskipti hinna þriggja greina ríkisvaldsins eru og verða alltaf vandmeðfarin. Mest vorkenni ég Þorsteini Davíðssyni að lenda í þessum fjanda. Ég veit það eitt um hann  að hann er ágætur skákmaður og sonur Davíðs Oddssonar.

Ekki veit ég hvort Sirrý Sig nennir að lesa bloggið mitt en nú er hún orðin bloggvinur minn. Upphaflega hreifst ég af sögunni um Jens og Co. og eftir að kaflarnir úr henni fóru að strjálast hef ég ekki lesið bloggið hennar reglulega.

Ég sé nú til hvers má nota færsluflokkana og hef litið á nýjasta kaflann af sögunni um Jens. Þetta gengur bara svo voðalega hægt. Ég er vanur að lesa bækur hægt, en þetta gengur hægar en ég á að venjast. Kannski er sagan bara ekki komin lengra en þetta. Mér finnst þó andrúmsloftið í sögunni vera svo raunverulegt að ég gleypi í mig hvern nýjan kafla.

Og sem ég tala um sögur eftir aðra þá dettur mér í hug að ég gæti sett hér eina sjálfur.

Þetta gerðist í Borgarnesi árið 1982. Bjarni sonur minn sem þá var 17 ára var að vinna við timburflokkun með Teiti gamla sem búinn var að vinna hjá Kaupfélagi Borgfirðinga í marga áratugi.

Sagt var um Teit að hann treysti Kaupfélaginu eins vel og sjálfum sér. Sem dæmi um það var nefnt að hann innleysti aldrei launaávísanir sínar, nema hann þyrfti nauðsynlega á peningunum að halda, sem var sjaldan. Heima hjá honum voru gamlar launaávísanir sagðar á víð og dreif um allt húsið.

Vætusamt var þetta sumar og einhvern tíma voru þeir Bjarni og Teitur að bollaleggja eitthvað um veðrið.

"Þetta er bara næstum því eins og 1968. Var ekki rigingasamt þá?", sagði Bjarni.

Teitur: "1968? Jú, einmitt. Þá rigndi heil ósköp. Var alltaf sífelld rigning. Ég man vel eftir því.

Bjarni: "Já, einmitt. Svo var líka mjög vætusamt sumarið 1955. Var það ekki?

Teitur: "1955? Jú, jú. Það var einmitt rigningarsumarið mikla. Ég held það nú. Það þornaði varla á steini allt sumarið. Ég man vel eftir því. Heyskapur gekk alveg hrikalega illa þetta sumar. Um allt land held ég bara. Já, það rigndi svo sannarlega sumarið 1955.

Bjarni: "Já, var það ekki. Svo rigndi líka mikið sumarið 1942.

Teitur: "1942? Ha? Nú verð ég að hugsa mig aðeins um. Assgoti ert þú minnugur á svonalagað. Ha? Nei, nú er ég svo aldeilis... Þú getur ekkert munað hvernig veðrið var árið 1942. Huh.

Þegar Bjarni sagði frá þessu sagðist hann bara hafa heyrt talað um rigningasumarið 1955 og vegna þess að mismunurinn á 1955 og 1982 var margfeldi af 13 hefði hann bara prófað að draga þá tölu í sífellu frá ártalinu sem talað var um.

Næsta margfeldi af 13 er 2008 svo rigningartíðin núna er einginlega ómark.

Hér er frábær mynd og hún þolir talsverða stækkun, ef fólk hefur áhuga á því. (Bara klikka aftur og aftur) Mynd þessi er ættuð frá Sigga í Fagrahvammi og greinilega tekin þar. Umhverfið virkar mjög kunnuglegt. Ég man vel eftir íbúðarhúsinu í Fagrahvammi sem sést til vinstri á myndinni. Hægra megin glittir líka í Bygginguna uppi á Reykjum. Því miður þekki ég fáa á þessari mynd. Karlmaðurinn í miðjunni fremst er þó greinilega Paul V. Michelsen eða Palli Mikk eins og hann var venjulega kallaður. Mér er sagt að hægra megin við hann sé Inga Wium. Sjálfum finnst mér ekki útilokað að litli strákurinn sem stendur þar sem hraukurinn er hæstur sé Siggi Ingimars. Stelpan sem stendur aftast í röðinni og er með handlegginn beint fyrir ofan Bygginguna á Reykjum finnst mér vel geta verið Tóta systir Sigga. Aðra þekki ég bara ekki og vildi gjarnan vera látinn vita af því í kommentum hér, ef fólk þekkir einhverja þarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband