13.12.2007 | 02:38
200. - Kristilegt siðgæði, bloggvinir og fleira
Miðað við bloggvini mína flesta er ég greinilega nokkuð duglegur við skriftirnar. Nýtt blogg flesta daga. Með tímanum er það orðið eins og vani að skrifa eitthvað.
Flesta bloggvini hef ég valið, en nokkrir hafa þó valið mig. Nú er svo komið að ég les ekki mjög mörg blogg fyrir utan það sem bloggvinir mínir skrifa. En yfir þau skrif fer ég að minnst kosti daglega.
Einhvern tíma er ég að hugsa um að skrifa eitthvað um það hvernig þessir bloggvinir mínir, og aðrir bloggarar sem ég hef dálæti á, koma mér fyrir sjónir, en hætt er við að það verði mikil langloka. Þegar að skrifum um bloggskrif kemur er ég oft býsna langorður, þó mér takist stundum bærilega að vera stuttorður um ýmislegt annað.
Í gamla daga (upp úr 1990 eða svo) þegar maður var fyrst að kynnast Internetinu þótti Gopherinn svonefndi mikið þarfaþing. Með honum gat maður þvælst um allan heim, en að vísu bara skoðað vélritaðar síður með ákveðnu sniði sem bæði voru ekki ákaflega margar og einkum að finna í háskólum um víða veröld og oftar en ekki einungis um starfsemina þar.
Þegar Lynxinn kom þótti hann mikil bylting. Hann er á margan hátt líkur vöfrunum í dag en gat þó ekki birt myndir eða neitt þessháttar heldur bara ritað mál. Notendafjöldinn fór nú sívaxandi og ætli það hafi ekki verið svona um 1995 eða 6 sem Netscape kom fram og náði gríðarlegri útbreiðslu á stuttum tíma. Microsoft ýtti honum síðan smátt og smátt út af markaðnum með Internet Explorer og nú á seinni árum eru komnir nýjir vafrar sem sumir taka fram yfir Explorerinn.
Auðvitað er það framtíðin sem skiptir mestu máli. Nú er Internetið orðið svo útbreitt að torskilið er hvernig menn komust af án þess á árum áður. Sjálfur er ég fæddur talsvert fyrir daga sjónvarps og á mitt heimili kom ekki sími fyrr en nokkuð seint. Ég man meira að segja vel eftir því þegar enginn ísskápur var til heima.
Ég veit ekki hvað Bjarni Harðarson, svo dæmi sé tekið, er með marga bloggvini en mér sýnist að þeir séu margir. Svo margir að ég efast um að hann lesi fremur blogg þeirra en annarra hér á Moggablogginu. Ef til vill gæti ég orðið mér úti um fleiri bloggvini en ég hef nú þegar, en þá mundi ég eiga í erfiðleikum með að lesa innleggin þeirra. Ég reyni nefnilega að lesa bloggin þeirra reglulega. Það finnst mér vera meiningin með þessu bloggvinastandi.
Bjarni Harðarson var að skrifa um trúmál á síðuna sína fyrir stuttu og að því er mér fannst að reyna að vera svolítið sammála Guðna formanni. Ég held að þetta upphlaup Guðna útaf kristilegu siðgæði" sé algerlega af pólitískum rótum runnið og miklar líkur á að það snúist í höndunum á honum. Kristilega siðgæðið á heima í Sjálfstæðisflokknum öðrum flokkum fremur og engum er gert rangt til með því að fullyrða það.
Og þá eru það fáeinar myndir.
Hér er nokkuð greinilegt að það er Vignir sem stendur við vagninn hjá Bjögga, þó verið sé að reyna að ýta honum í burtu. Líklega er það skugginn af myndasmiðnum sem er þarna ofarlega til vinstri.
Hér er Björgvin augljóslega niðursokkinn í einhverjar rannsóknir.
Hér virðist hann aftur á móti vera að keyra sinn eigin vagn og vera ánægður með það.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.